Timburmenn – Vatn er þynnkumeðal..

Heimild:  

 

Ágúst 2017

Langvinsælasta aðferðin hérlendis til að losna við timburmenn er að drekka vatn. Fjörutíu prósent aðspurðra í könnun MMR um þynnkumeðul sögðust nota vatnið til að lina vanlíðanina daginn eftir áfengisdrykkju. Í tilkynningu frá MMR segir að ef verslunarmannahelgin sé framundan sé ekki ólíklegt að einhver finni fyrir þynnku eftir þá helgi. Af því tilefni hafi verið ákveðið að kanna hvaða ráð Íslendingar notuðu til að draga úr og sefa eymdina.

Á eftir vatninu voru verkjalyf algengasta lausnin – 24% fara þá leið – og því næst kemur feitur matur, svokallaður þynnkumatur, sem 21% notast við. 14% sögðust drekka íþróttadrykki og 9% prósent kaffi. 7% sögðust borða ristað brauð eða aðra kolvetnaríka fæðu, 2% borða súpu og 1% tekur fæðubótarefni. Einungis 3% svarenda sögðust drekka meira áfengi – fá sér svokallaðan afréttara. Þá eru ótalin þau 13% sem sögðust alls ekkert gera í þegar þau lentu í þessari óskemmtilegu stöðu og þau 33% sem sögðust einfaldlega aldrei drekka eða verða þunn.

Karlar voru tvöfalt líklegri en konur til að leyfa ferlinu að hafa sinn gang og gera ekkert við þynnkunni. Þá var yngra, háskólamenntað fólk líklegra en annað til að grípa til vatnsins. 40% stuðningsmanna Vinstri grænna sögðust aldrei drekka eða verða þunn og voru líklegasti hópurinn til þess þegar litið var til stjórnmálaskoðana. Á hinum endanum var Viðreisnarfólk: einungis 25% þeirra drekkur aldrei og verður aldrei þunnt, ef marka má þessa könnun MMR.

Fleira áhugavert: