Bakteríur – „Skítugasti“ hluturinn?

Heimild: 

 

Júlí 2002

Myndaniðurstaða fyrir bakteríurNútímamaðurinn á sífellt erfiðara með að viðurkenna að hann er líkamlega byggður eins og aðrar lifandi verur. Að hann þurfi mat sér til viðurværis er sjálfsagt mál og út er gefinn fjöldi bóka og tímarita sem fjalla um mat og matargerð. Að hann þurfi þak yfir höfuðið er sjálfgefið og þar þarf að vera baðherbergi með öllum þeim bestu tækjum sem fáanleg eru. Að hann fari í bað eða í sturtu er ekki spurning og ekkert að því að segja „ég var í sturtu“Hinsvegar er það að verða feimnismál að viðurkenna að hver maður, hvar í virðingarstiganum sem hann stendur, þurfi að ganga örna sinna og losna við sitt þvag.

Bandríkjamenn hafa leyst þennan vanda með því að tala um „number 1“ eða „number 2“ eftir því hvað er gert þegar á eða að klósettinu er komið.

Það er því engin furða þótt flestir álíti að klósettskálin sé sá staður heimilisins sem sé óhreinastur, hún sé bústaður fjölda gerla og baktería.

Athyglisverð rannsókn

Hvað er ekki rannsakað í hinni stóru Ameríku? Bandaríkjamaður, sem er bakteríufræðingur að mennt, varð sér úti um sæmilega styrki og hellti sér í að rannsaka heimili og skrifstofur til að finna út hvar þessir vinir hans, bakteríurnar, ættu sér helst bústaði.Áður en lengra er haldið er rétt að undirstrika að bakteríur eru allt í kringum okkur og við höfum lært að lifa með þeim að vissu marki, en öllu eru takmörk sett.

Sá bandaríski rannsakaði 7.000 staði og niðurstöðurnar eru talsvert athyglisverðar. Það furðulega sem kom út úr rannsókninni er að það er langt í frá að baðherbergið eða klósettið séu bakteríuríkustu staðirnir á heimilum, skólum, skrifstofum og öðrum vinnustöðum.

Það er í flestum tilfellum skrifborðið og sérstaklega þó tölvan þar sem lyklaborðið er þó yfirleitt „skítugasti“ hluturinn. Sérstaklega er þetta slæmt þar sem starfsmenn hafa þá venju að fá sér skyndibita við skrifborðið, samloku eða kínamat í boxi.

Þegar farið er að skoða venjur fólks og hugsanagang er þetta ofurskiljanlegt. Fólk gerir sér nokkuð góða grein fyrir að nauðsynlegt sé að hafa hreinlætið á oddinum í baðherberginu, sérstaklega að hreinsa klósettskálina, en þegar að skrifborðinu kemur – hvenær er það hreinsað eða þvegið? Hvenær er lyklaborðið þvegið og ef litið er á það gagnrýnum augum, hvað kemur þá í ljós?

Það skyldi þó ekki vera að takkarnir séu kámugir, ef ekki svartir af skít?

Almenningssalerni

Sá hinn sami bakteríufræðingur skoðaði mikinn fjölda af almenningssalernum og tók þar fjölda sýna og fangaði þar fjölda af vinum sínum, bakteríum. Þar kom eitt nokkuð einkennilegt í ljós.Það var nánast regla að bakteríufjöldi á salernum kvenna var umtalsvert hærri en á salernum karla og eflaust kemur það mörgum á óvart, konur hafa alla tíð verið taldar hreinlegri en karlar.

En þegar betur var að gáð er það ekki hin beina orsök heldur hitt að hver kona hefur yfirleitt talsvert lengri viðdvöl á salerni en karl. Auk þess er mikill munur á athöfnum kvenna og karla, þeir ganga hratt til verks, fara á klósettið eða pissa í skálina, þvo hendur sínar (vonandi) og skunda á braut.

Konur hinsvegar gera fleira, spegillinn er þeim jafn nauðsynlegt áhald og klósettið, auk þess hafa þær með sér margs konar snyrtivörur og tæki sem eiga sinn þátt í að fjölga bakteríum.

Minna má á ársgamlan pistil um þvagskálar fyrir konur, það virðist vera nokkuð lítill skilningur eða vilji fyrir notkun þeirra. Margar konur sem rætt var við í hinni amerísku rannsókn líktu því við rússneska rúllettu að setjast á klósettskál á almenningssalerni.

En að lokum, þótt hreinlæti sé sjálfsagt getur það einnig farið út í öfgar, bakteríur eru hluti af lífríkinu, þær eru nauðsynlegur hlekkur sem ekki er hægt að vera án.

Fleira áhugavert: