Pípulagnir – Ágæt aðsókn 25 útskrifast
Desember 2017
Ágæt aðsókn hefur að undanförnu verið í nám pípulögum og alls um 25 manns útskrifast frá Tækniskólanum með sveinspróf í greininni á þessu ári. Það er svipaður fjöldi og verið hefur mörg undanfarin ár.
„Mönnum telst svo til að nýliðunin í faginu þurfi að vera 25-30 manns á ári, svo þetta nálgast þörfina,“ segir Guðmundur Páll Ólafsson, formaður Félags pípulagningameistara, í samtali við Morgunblaðið.
„Menn eru fljótir að fá vinnu og raunar eru flestir komnir vel af stað. Í dag eru meistarar áfram um að taka ungt fólk á samning í iðninni. Til skamms tíma hafa þeir stólað mikið á erlent vinnuafl, en sjá nú æ oftar að það borgar sig að gefa sér tíma til að leiðbeina og þjálfa upp fagfólk framtíðarinnar,“ segir Guðmundur Páll í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu.