Höfuðstöðvar Microsoft – „A modern campus“
Nóvember 2017
Tölvurisinn Microsoft hefur í hyggju að stækka svæði höfuðstöðva sinna í Redmond, Washington svo um munar. Ætlunin er að bæta við átján nýjum byggingum á næstu fimm til sjö árum en fyrir eru þær 80 talsins. Hugsunin er að skapa hálfgert stórborgarandrúmsloft án þess að rífa niður skóga í kringum svæðið. Microsoft bætist þar með í hóp stórfyrirtækja á borð við Apple, Google og Amazon sem öll hafa staðið fyrir glæsilegri uppbyggingu í kringum höfuðstöðvar sínar.
Fyrirtækið mun koma til með að byggja á 2,5 milljóna fermetra plássi og endurskipuleggja og hanna núverandi svæði sem er um 6,7 milljónir fermetra. Með þessum breytingum skapast pláss fyrir 8 þúsund starfsmenn til viðbótar en á svæðinu starfa 47 þúsund fyrir.
Kostnaður verkefnisins liggur ekki fyrir en ljóst er að þetta mun kosta nokkra milljarða Bandaríkjadala. Áætlunin gerir ráð fyrir að byggingu verði lokið árið 2023 og segir Brad Smith, forseti Microsoft, að uppbyggingin snúist ekki einungis um stækkun. Hún myndi koma til með að færa fyrirtækið inn í framtíðina. Um er að ræða umfangsmestu endurbyggingu á svæði höfuðstöðva fyrirtækisins í Redmond frá upphafi.
Bæjarstjóri Redmond, John Marchione, segist ánægður með framkvæmdir fyrirtækisins. „Microsoft hefur alla tíð verið frábær samstarfsfélagi og erum við ánægð með að Redmond verði áfram heimili þeirra,“ var haft eftir bæjarstjóranum.
Apple greindi frá því á dögunum að stutt væri í að mannvirkið Apple Campus 2 yrði vígt en Steve Jobs kynnti byggingaráformin skömmu fyrir dauða sinn árið 2011.