Rafhleðslustöðvar – Ekki í skipulagi og reglum?

Heimild:  

 

Mars 2017

Uppbygging á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei verið meiri en nú. Fyrrverandi byggingafulltrúi og stjórnarmaður í Húseigendafélaginu segir synd í hve fáum tilfellum gert sé ráð fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla í nýbyggingum. Mun flóknara er að koma þeim fyrir eftir á en auðvelt þegar grunnar húsa eru byggðir. Ekkert er fjallað um innviði fyrir rafbíla í skipulagslöggjöf né heldur í byggingarreglugerð.

Rafbílavæðing á sér nú stað. Flest bendir til að rafbílar taki við af bensín- og dísilbílum innan nokkurra áratuga. Aðgengi að hleðslustöðvum skiptir mestu máli í þessu ferli. Hraðinn í uppbyggingu húsa er mikill og nýjustu byggingar eru oftar en ekki með bílakjöllurum.

Magnús Sædal er fyrrverandi byggingarfulltrúi í Reykjavík og stjórnarmaður í Húseigendafélaginu.

„Mér er ekki kunnugt um það að menn séu farnir að undirbúa þetta nema að einhverju mjög litlu leyti. Það er kannski einn og einn byggingarverktaki sem er eitthvað farinn að undirbúa þetta og hugleiða þetta en það er ekkert í reglum um þetta og engin forskrift sem er komin um þetta eftir því sem ég best veit.“

Mikil vinna sé fyrir höndum þessu tengt. Koma þurfi fyrir tenglum í þeim fjöleignarhúsum þar sem ekki hefur verð hugsað fyrir rafbílum og húsfélög þurfi að setja sér reglur svo ekki komi til deilna vegna kostnaðar sem geti verið afar mismunadi.  Einnig þurfi að hugsa fyrir þessu á opnum bílastæðum utandyra.

„Og það þarf að huga að öryggi notendanna líka, við fengum mikinn snjó um daginn. Ef þetta færi nú allt á kaf í snjó og svo koma snjóruðningstækin og moka og hvar væri þá plöggið mitt?“

Þá þurfi að skýra reglur um gjaldtöku og mögulega þurfi að styrkja dreifikerfi svo að heimtaugar í hús standist hið aukna álag. Mögulega þurfi að fjölga spennistöðvum. Skoða þurfi hvernig verðleggja eigi raforkuna með tilliti til vegskatts.

Umhvefisráðherra gat ekki veitt fréttastofu viðtal í dag. Ráðherra segir mikilvægt að hér spretti ekki upp mörg kerfi, mismunandi innstungur og snúrur. Tryggja þurfi heibrigða samkeppni en lágmarka flækjustigið eins og kostur er.

Fleira áhugavert: