Uppsett ísl.afl 2.750 MW – Bætast 1.400 MW við?
Janúar 2016
Raforkuframleiðsla gæti aukist um 50%
Uppsett afl allra virkjana landsins er í dag um 2.750 MW en samkvæmt drögum að rammaáætlun gætu tæp 1.400 MW bæst við.
Ef allir virkjunarkostir í nýtingarflokki yrðu að veruleika myndi framleiðsla raforku á Íslandi aukast um tæp 1.400 megavött. Í drögum að rammaáætlun voru sjö nýir kostir færðir í orkunýtingarflokk en Héraðsvötn, Skjálfandafljót og Skaftá í verndarflokk.
Verkefnastjórn rammaáætlunar, sem skipuð var í mars árið 2013, hefur kynnt drög að lokaskýrslu í 3. áfanga rammaáætlunar. Málið er risavaxið því um er að ræða framtíðar virkjunarkosti Íslendinga og verið að leggja línurnar í þeim til næstu ára ef ekki áratuga.
Í dag er uppsett afl allra virkjana landsins um 2.750 megavött (MW). Miðað við þau drög sem nú liggja fyrir gæti raforkuframleiðslan aukist gríðarlega á næstu árum. Í orkunýtingarflokk eru komnir 17 virkjunarkostir og samanlagt gæti raforkuframleiðsla þeirra virkjana numið tæplega 1.400 MW, sem jafngildir 50% aukningu á framleiðslu raforku. Til þess að setja þetta í samhengi þá er samanlögð orkuþörf fjögurra kísilverksmiðja í Helguvík, á Grundartanga og Bakka við Húsavík, 259 MW.
Þess ber að geta að upplýsingar um afl virkjana í nýtingarflokknum eru fengnar úr drögum að lokaskýrslu verkefnisstjórnar. Þó gögn um virkjanakosti segi að þau geti skilað tæplega 1.400 MW er nauðsynlegt að setja ákveðna fyrirvara við þá tölu. Sem dæmi þá eiga margir kostir eftir að fara í umhverfismat og í sumum tilfellum á eftir að rannsaka þau jarðvarmasvæði sem tilgreind eru og því óljóst hvað þau muni skila nákvæmlega mikilli orku. Þá er einnig sjálfsagt að geta þess að sumar virkjanir yrðu byggðar í áföngum á næstu árum og áratugum. Á það á til dæmis við um stækkun Kröfluvirkjunar, sem er hugsuð í þremur 45-50 MW áföngum. Þumalputtareglan er að bygging vatnsaflsvirkjunar taki um þrjú ár en óhætt er að bæta þremur til fjórum árum við þann tíma en það er almennt sá tími sem fer í skipulagsferli og hönnun. Heildarferlið tekur því 6 til 7 ár.