Keystone XL – 800 þús./l láku..
Nóvember 2017
Um 800 þúsund lítrar af olíu láku úr hinni umdeildu Keystone olíuleiðslu í Suður-Dakota í Bandaríkjunum í dag. Leiðslan liggur frá Alberta í Kanada til Nebraska en deilt hefur verið um hana í nokkur ár. Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, stöðvaði byggingu viðbótarinnar Keystone XL árið 2015 vegna ótta um að leiðslan gæti valdið gríðarlegu umhverfistjóni og indjánar vilja ekki að leiðslan liggi í gegnum land þeirra.
Donald Trump, núverandi forseti Bandaríkjanna, kom verkefninu aftur af stað skömmu eftir að hann tók við embætti í byrjun árs. Náttúruverndarsamtök segja að lekinn sé til marks um það að endurskoða þurfi ákvörðun Donald Trump. Til stendur að taka lokaákvörðun um byggingu nýju leiðslunnar eftir helgi.
Fyrirtækið TransCanada hefur ekki gefið út hvað olli lekanum. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja þá vinna með yfirvöldum á svæðinu og ætla að gera allt til að draga úr mengun vegna lekans. Þá segir talsmaður umhverfisráðuneytis Suður-Dakóta við CNN að engar fregnir hafi borist um að olían hafi haft áhrif á ár eða dýralíf.
Starfsmenn TransCanada urðu varir við lekann eftir að þrýstingur lækkaði verulega í hluta leiðslunnar og slökktu þeir á þeim hluta. Þetta er stærsti lekinn úr leiðslunni í Suður-Dakóta hingað til en í apríl í fyrra láku rúmlega 70 þúsund lítrar af olíu úr leiðslunni. Þá tók hreinsunarstarf um tvo mánuði.