Þingvellir – Lúxus hótel, 18 holu golfvöllur..

Heimild:  

 

Skálabrekkujörð við Þingvelli

Nóvember 2018

Áformað er að reisa lúxus hótel, heilsársbústaði og 18 holu golfvöll, svo fátt eitt sé nefnt, á Skálabrekkujörð við Þingvelli. Jörðin liggur á vatnsverndarsvæði Þingvallavatns. Bláskógabyggð skoðar hvort samþykkja eigi tillögu um verkefnið en taka þarf sérstakt tillit til samfélags og náttúru segir Helgi Kjartansson, oddviti sveitarstjórnar.

Undirbúningur fyrir verkefnið hefur staðið yfir í langan tíma en það eru íslensk hjón sem eiga hluta jarðarinnar þar sem á að byggja. Verkefninu verður skipt upp í fimm hluta en til að byrja með verður lögð áhersla á fyrsta og annan hluta, það er að hér rísi aðalhótel, fjögurra til fimm stjörnu ásamt heilsulind og veitingastað. Svo á að reisa þjónustumiðstöð ásamt tjaldsvæði við þjóðveg. Þriðji hluti er svo að reisa tveggja til þriggja stjörnu hótel fyrir efnaminni ferðamenn. Fjórði hlutinn að hér komi heilsársbústaðir ásamt íþróttasvæði og gróðurhúsum. Fimmti og síðasti hlutinn er að reisa 18 holu golfvöll ásamt golfklúbb.

Helgi segir að bregðast þurfi við ferðamannafjöldanum. „Ég hugsa 90% af öllum ferðamönnum landsins fara þarna í gegn, og einhver staðar verða þessir ferðamenn að geta keypt sér þjónustu – gistingu, veitingar og komist á salerni og svo framvegis þannig einhvers staðar þarf þetta að vera, en það er spurning, er þetta rétti staðurinn eða ekki.“

Áætlað er að hótelið verði 120-160 herbergja og hafa arkitektar og eigendur lagt áherslu á að það falli vel inn í náttúruna og sögu Þingvalla. „Ég heyrði það á eigendum að þau vilja bara spila þetta allt saman og kynna eins og opið og hægt er, og þegar í upphafi leggja öll spilin á borðið og segja svona er þetta hugsað, það er áhugi á að taka tillit til allra atriða og hugmynda og komi einhver gagnrýni fram þá er sjálfsagt að mæta henni.“ segir Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur í Skálabrekkuverkefninu.

Jörðin á vatnsverndarsvæði Þingvallavatns

Athygli vekur að jörðin, og þar með allt verkefnið, er á vatnsverndarsvæði Þingvallavatns. Guðmundur segir að vanda þurfi til verks. „Það má náttúrulega í engu skerða vatnið, lífríki þess eða umhverfi og þess verður gætt alveg eins ítarlega og við ráðum við.“

Tillagan liggur nú á borði sveitarstjórnar í Bláskógabyggð. Helgi segir að áætlað sé að sveitarstjórnin verði búin að taka ákvörðun í málinu um miðjan desember.  „Þetta er stórt og mikið verkefni, það er samfélag sem er þarna, náttúran og allt þetta þannig það þarf að skoða þetta mál frá öllum hliðum. Auðvitað eru kostir og gallar við alla hluti en þetta er eitthvað sem við þurfum að fara vel yfir og vanda okkur vel.“

„Ég held, ef vel tekst til, að það megi gera það þannig að það verði öllum til sóma og ánægju að hafa svona stað þarna.“ segir Guðmundur.

Fleira áhugavert: