Gervigleðidingill – ..innantómt ..tælandi?

Heimild:  

 

Október 2017

Justin Rosenstein hóf störf hjá Facebook árið 2007, þá 24 ára gamall, og leiddi meðal annars teymið á bakvið like-hnappinn. Frumstæðustu útgáfu hnappsins sem tók yfir heiminn forritaði Rosenstein raunar á einni nóttu. Ef like-hnappurinn á sér höfund er það Rosenstein. Tíu árum síðar hefur Rosenstein látið læsa símanum sínum með barnalæsingu, til að hann geti ekki sótt nein öpp – og einkum til að halda sig frá lækunum á Facebook, sem hann lýsir sem „gervigleðidingli“. Hann segir þau jafn innantóm og þau geti verið tælandi.

Þetta kemur fram í nýrri grein á vef The Guardian, um tæknifrumkvöðla sem hafa á síðustu árum fyllst efasemdum um ágæti uppfinninga sinna og reyna ýmist sjálfir að kúpla út, halda græjunum frá börnunum sínum, eða bæði. Margir ungir tæknifrumkvöðlar í Silicon-dal sendi börn sín í skóla þar sem snjallsímar og spjaldtölvur eru bönnuð.

New York Times greindi raunar frá því árið 2014 að Steve Jobs, stofnandi Apple, hefði haldið tækninýjungum frá börnum sínum, sem kom til dæmis í ljós að höfðu aldrei prófað iPad, þegar blaðamaður innti hann eftir því hvernig þeim líkaði nýja græjan. „Við takmörkum hversu mikið börnin komast í tæknina heima við,“ útskýrði Jobs.

Blaðamaður The Guardian gengur svo langt að líkja þessari tiltölulega útbreiddu afstöðu innan tæknigeirans við fíkniefnasala sem gæta þess að neyta ekki sjálfir efnisins sem þeir selja.

Leah Pearlman heitir annar meðlimur upprunalega like-teymisins hjá Facebook, sú sem gaf út tilkynningu um hnappinn þegar hann var kynntur notendum árið 2009. Tveimur árum síðar sagði hún upp hjá fyrirtækinu, sagði skilið við tæknigeirann, og hefur varið tíma sínum síðan í sjálfsrækt og teikningar. Í dag er hún 35 ára og segist nota vafraviðbót til að útiloka Facebook-flæðilínuna úr sinni eigin tölvu. Þá hafi hún ráðið starfsmann til að annast Facebook-síðu sína, og geta sjálf lifað „í núinu“.

Samkvæmt könnun sem gerð var árið 2016 snertir meðalsímnotandi skjáinn á síma sínum, til að smella eða draga, 2.617 sinnum á dag. Rosenstein vísar til rannsókna sem gefa til kynna að áhrifin af þessari stöðugu nærveru símans, og hugbúnaðar sem er ætlað að draga athygli okkar „eins og spilakassi“, sé að „allir eru utan við sig, allan tímann“. Áhyggjur hans og fleiri snúa þó ekki bara að sálrænum áhrifum á notendur, heldur áhrifum þess sem í greinnni er kallað „vopnakapphlaupið um athygli okkar“ á dómgreind, yfirvegun og skynsemi í lýðræðislegum samfélögum.

 

 

 

Fleira áhugavert: