Virkjun vatnsafls, jarðhita og vindorku – 21 leyfi

Heimild:  

 

Febrúar 2016

Orkustofnun veitti 21 leyfi á árunum 2014 og 2015, til virkjana vatnsafls, jarðhita og vindorku eða til rannsókna vegna undirbúnings slíkrar virkjana. Flestar virkjananna eru á suðvesturhorninu, Vestfjörðum og Norðurlandi.

Fjölmargar virkjanir rísa hér á landi á ári hverju, án þess að fara þurfi sérstaklega í umhverfismat. Allar virkjanir, sem eiga að framleiða 10 megavött eða meira þurfa sjálfkrafa að fara í umhverfismat. Skipulagsstofnun metur þó hvort framkvæmdirnar þurfi í umhverfismat og jafnvel smæstu virkjanirnar gætu þurft þess, sé framkvæmdin sjálf umfangsmikil.

Nýlegt dæmi um virkjun sem gæti þurft í umhverfismat er Svartárvirkjun, Skipulagsstofnun tekur á næstu dögum ákvörðun um hvort þörf er á slíku. Virkjunin á að framleiða 9,8 megavött og framkvæmdin er því ekki sjálfkrafa matsskyld.

Ein vindaflsvirkjun

Á síðustu tveimur árum hefur verið sótt um 21 leyfi til að virkja eða rannsaka mögulega virkjunarkosti. Aðeins eitt leyfi hefur verið veitt fyrir vindaflsvirkjun, en það fékk fyrirtækið Biokraft fyrir vindmyllur í Þykkvabæ. Leyfið var veitt fyrir tveimur vindmyllum en fyrirtækið stefnir á að reisa fleiri á sama svæði.

Sumt í biðflokki, annað í verndarflokki

Sumar af þeim virkjunum sem rannsóknarleyfi fengust fyrir, eru í biðflokki rammaáætlunar. Það á til dæmis við um Skúfnavatnavirkjun við Ísafjarðardjúp. Einhverjar eru í verndarflokki, til dæmis Gjástykki á Norðurlandi eystra, en Landsvirkjun hefur samt sem áður fengið leyfi til að rannsaka þann virkjunarkost.

Í nýtingarflokki eru hinsvegar kostir á borð við Hverahlíð, Hvalárvirkjun, Eldvörp og Þeistareyki.

Á kortinu hér að neðan má sjá þá 21 stað þar sem leyfi voru veitt til virkjana eða rannsókna síðastliðin tvö ár. Rauðu punktarnir eru fyrir árið 2015 og þeir bláu fyrir árið 2014. Sjá má kortið stærra hér.

Fleira áhugavert: