Heildarlaun fullvinnandi launamanna

Heimild:  

 

Október 2017

Árið 2016 voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 667 þúsund krónur á mánuði en miðgildi heildarlauna 583 þúsund krónur og var því helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð og helmingur yfir. Munurinn á milli meðaltals og miðgildis skýrist af dreifingu launa þar sem hæstu laun hækka meðaltalið. Fjórðungur launamanna var með 470 þúsund krónur eða minna í heildarlaun og tíundi hver launamaður var með lægri laun en 381 þúsund krónur fyrir fullt starf. Þá var fjórðungur launamanna með hærri laun en 761 þúsund krónur og rúmlega 10% fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði með yfir milljón króna á mánuði í heildarlaun. Mynd að neðan sýnir dreifingu heildarlauna.

Skýring: Mánaðarlaun. Ríki – ríkisstarfsmenn sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Sveit – starfsmenn sveitarfélaga. Almennur – aðrir launamenn.

Heildarlaun fullvinnandi starfsmanna á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 697 þúsund krónur á mánuði árið 2016. Heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 732 þúsund krónur en 528 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Dreifing heildarlauna var ólík eftir launþegahópum og var dreifing launa minnst meðal starfsmanna sveitarfélaga. Þannig voru tæplega 80% þeirra með heildarlaun undir 600 þúsundum króna á mánuði en það sama átti við um tæplega 40% ríkisstarfsmanna og tæplega 50% starfsmanna á almennum vinnumarkaði eins og sést í töflu að neðan.

Hlutfall fullvinnandi launamanna á tilteknu launabili 2016
Krónur Alls Almennur Ríki Sveit
< 400 þúsund 13% 11% 8% 21%
400-600 þúsund 40% 38% 30% 56%
600-800 þúsund 25% 27% 32% 16%
800-1.000 þúsund 11% 11% 17% 5%
>1.000 þúsund 10% 13% 13% 2%

Skýring: Mánaðarlaun. Ríki – ríkisstarfsmenn sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Sveit – starfsmenn sveitarfélaga. Almennur – aðrir launamenn.

Heildarlaun stjórnenda meira en tvöföld heildarlaun verkafólks
Árið 2016 voru heildarlaun starfsstétta að meðaltali á bilinu 479 þúsund krónur á mánuði hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki til 1.079 þúsund krónur hjá stjórnendum. Heildarlaun skrifstofufólks voru 497 þúsund krónur á mánuði, verkafólks 520 þúsund krónur, tækna og sérmenntaðs starfsfólks 699 þúsund krónur, sérfræðinga 707 þúsund krónur og iðnaðarmanna 715 þúsund krónur á mánuði.

Laun dreifast mismunandi innan starfsstétta. Þannig var dreifing heildarlauna skrifstofufólks frekar lítil en um 80% skrifstofufólks var með heildarlaun frá 342 þúsund krónum til 662 þúsund króna. Heildarlaun stjórnenda voru á hinn bóginn mjög dreifð en 80% þeirra voru með laun á bilinu 606 þúsund krónur til 1.776 þúsund króna. Skýrist þessi mikla dreifing meðal stjórnenda helst af uppbyggingu starfaflokkunarkerfisins ÍSTARF95, sem starfsstéttir byggja á, en í hópi stjórnenda má bæði finna æðstu stjórnendur fyrirtækja og stofnana, yfirmenn deilda og millistjórnendur.

Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Stjórnendur (1), sérfræðingar (2), tæknar og sérmenntað starfsfólk (3), skrifstofufólk (4), þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk (5), iðnaðarmenn (IÐN) og verkafólk (VERK).

Heildarlaun hæst í veitum og fjármálastarfsemi
Laun voru mismunandi milli atvinnugreina en heildarlaun voru hæst í atvinnugreininni rafmagns-, gas- og hitaveitur eða 905 þúsund krónur að meðaltali á mánuði og fjármála- og vátryggingastarfsemi 893 þúsund krónur. Lægstu heildarlaunin voru í fræðslustarfsemi, 540 þúsund krónur. Sé horft til dreifingar á heildarlaunum þá var launamunur mestur innan fjármálastarfsemi en minnstur í fræðslustarfsemi.


Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).

Samanburður á starfsstéttum eftir atvinnugreinum sýnir að heildarlaun sérfræðinga, skrifstofufólks og iðnaðarmanna voru hæst í rafmagns-, gas- og hitaveitum meðan heildarlaun stjórnenda voru hæst í fjármála- og vátryggingastarfsemi. Heildarlaun tækna og sérmenntaðra starfsmanna voru hæst í flutningum og geymslu en heildarlaun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks og verkafólks hæst í opinberri stjórnsýslu. Heildarlaun skrifstofufólks voru lægst í heilbrigðis- og félagsþjónustu, iðnaðarmanna í upplýsingum og fjarskiptum en heildarlaun annarra starfsstétta voru lægst í fræðslustarfsemi.

Við samanburð á launum milli atvinnugreina verður að hafa í huga að starfsstéttir hafa mismunandi samsetningu eftir atvinnugreinum. Þannig eru verkfræðingar stór hluti sérfræðinga í rafmagns-, gas- og hitaveitum en grunnskólakennarar stærsti hópur sérfræðinga í fræðslustarfsemi.

Forstjórar, dómarar, læknar og verðbréfsalar með hæstu launin
Í töflu hér að neðan eru dæmi um störf sem eru hluti af talnefni Hagstofunnar. Þar má meðal annars sjá að árið 2016 voru forstjórar og aðalframkvæmdastjórar fyrirtækja með hæstu heildarlaunin að meðaltali eða 1.620 þúsund krónur og dómarar með 1.442 þúsund krónur á mánuði. Þá voru heildarlaun í sérfræðistörfum við lækningar 1.428 þúsund krónur að meðaltali og í störfum við ráðgjöf og sölu verðbréfa 1.426 þúsund krónur. Lægstu laun fullvinnandi launamanna voru í störfum við barnagæslu þar sem heildarlaunin voru að meðaltali 340 þúsund krónur á mánuði árið 2016 og 359 þúsund krónur í skrifstofustörfum við bóka- og skjalavörslu.

Laun eftir störfum 2016
  Grunnlaun Heildarlaun Greiddar stundir
1210  Forstjórar 1.359 1.620 177,0
2221  Sérfræðistörf við lækningar 835 1.428 221,5
2320  Kennsla á framhaldsskólastigi 553 714 195,3
2332  Kennsla á leikskólastigi 462 484 172,3
2422  Dómarastörf 1.029 1.442 177,3
3144  Sérfræðistörf við flugumsjón 643 1.279 194,3
3411  Störf tengd ráðgjöf og sölu verðbréfa 1.249 1.426 174,0
414   Skrifstofustörf við bóka- og skjalavörslu 319 359 175,0
5131  Störf við barnagæslu 310 340 174,7
5162  Störf við löggæslu 373 735 208,4
7137  Störf rafvirkja 454 742 198,1
8324  Bílstjórar vöru- og flutningabíla 305 606 223,9
9313  Verkafólk við húsbyggingar 352 540 203,1

Samsetning launa getur verið ólík milli starfa. Þannig er lítill munur á grunn- og heildarlaunum í störfum við kennslu á yngsta stigi og störfum við barnagæslu en munurinn er meiri í störfum á borð við flugumsjón og lækningar, samanber í töflu að ofan. Munur á grunn- og heildarlaunum getur falist í aukagreiðslum eins og vaktaálagi, yfirvinnu og eingreiðslum. Grunnlaun eru greidd mánaðarlaun fyrir dagvinnu án allra reglulegra aukagreiðslna og heildarlaun eru öll laun, þar með talin yfirvinna.

Fjöldi greiddra stunda á mánuði gefur upplýsingar um hvort yfirvinnugreiðslur eru algengar að meðatali í viðkomandi starfi. Fjöldi greiddra stunda á mánuði árið 2016 hjá launamönnum í fullu starfi var að meðaltali 184,7 stundir. Bílstjórar vöru- og flutningabíla fengu flestar stundir greiddar eða 223,9 og næst flestar greiddar stundir voru í sérfræðistörfum við lækningar eða 221,5 stundir.

Allt talnaefnið, launaupplýsingar eftir störfum og kyni fyrir um 200 störf og starfsstéttir, má finna hér.

Nánar um niðurstöður
Hagstofan birtir nú samræmda tímaröð fyrir árin 2014-2016 með upplýsingum um laun starfsstétta fyrir vinnumarkaðinn og ólíka hluta hans. Einnig eru birtar upplýsingar um laun starfsstétta innan atvinnugreina og upplýsingar um laun í um 200 störfum.

Niðurstöður byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands sem nær til rúmlega 70 þúsund launamanna. Launarannsóknin er lagskipt úrtaksrannsókn fyrirtæka með 10 eða fleiri starfsmenn og eru niðurstöður vegnar í samræmi við úrtakshönnun rannsóknar. Launarannsóknin nær til um 80% af íslenskum vinnumarkaði þó að enn séu atvinnugreinar utan rannsóknar. Þá er einnig gerður fyrirvari við atvinnugreinina upplýsingar og fjarskipti en þar vantar upplýsingar um lítil fyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Auk þess takmarkast upplýsingar við opinbera starfsmenn í atvinnugreinunum opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónusta. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður. Nánari upplýsingar um skilgreiningar og lýsingar á aðferðarfræði má finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.

Fleira áhugavert: