Rafmagnsbyltingin – Tvenns konar efasemdir..
Ágúst 2017
Beðið eftir rafmagnsbílnum
Í pistli hér í upphafi árs var því velt upp hvort árið 2017 yrði ár rafmagnsbílsins á Íslandi. Bent var á að Íslendingar séu í einstakri stöðu til að rafbílavæða landið en óhætt er að segja að við eigum nóg af umhverfisvænu rafmagni. Sömuleiðis blasir við að ekki þarf að setja upp nýtt dreifikerfi þó augljóslega þurfi að styrkja það sem er fyrir. Í upphafi árs lét nærri að um eitt þúsund rafbílar væru á götum landsins. Þeim fjölgar hins vegar hratt og sú þróun mun ráða miklu um hraða uppbyggingar dreifikerfisins. Stöðugt fjölgar tegundum rafbíla, drægni þeirra eykst og innviðauppbyggingin er komin af stað en það hefur sýnt sig að það er fljótlegt að setja upp hleðslustöðvar þegar þörfin á annað borð kallar á þær.
Nú þegar árið er rúmlega hálfnað má segja að sumt hafi skýrst og þó ekki allt. Líklega þó helst að 2017 verður líklega ekki ár rafmagnsbílsins á Íslandi en kaupendur nýrra bíla hafa augljóslega ekki stokkið á rafmagnsbíla. Það sýna sölutölur með skýrum hætti. Að hluta til stafar það af því að bílarnir henta ekki enn að mati kaupenda. Þó drægni þeirra sé að aukast þá er það líklega ekki fyrr en þegar rafmagnsbíllinn kemst örugglega 300 til 400 km. sem Íslendingar líta á þá sem raunverulegan valkost.
Mörgum finnst sem svo að með hverjum deginum sem líður verði framtíð rafmagnsbíla bjartari. Og vissulega er margt að gerast. Nú síðustu vikur hafa t.d. bæði Frakkland og Bretland skuldbundið sig til að hætta sölu bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti árið 2040. Tesla var að hefja sölu á nýjum bíl sem ætlaður er hinum almenna kaupanda og hefur vakið mikla athygli. Í Morgunblaðinu var sagt frá því nýlega að nú sé unnt að fylgjast með kappakstri rafmagnsbíla undir merkjum Formúlu E. Hér heima hefur það gerst að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sagt rafmagnsbíla vera helsta vopn Íslendinga í baráttunni við loftslagsbreytingar. Hún hefur lýst yfir vilja sínum til þess að rafbílavæða allt landið fyrir árið 2030. Það kann að virðast fjarstæðukennt að bensín – og dísilbílar gætu heyrt sögunni til eftir rúma tvo áratugi. Sú gæti þó orðið raunin.
Tvenns konar efasemdir
Efasemdir um ágæti rafmagnsbíla hafa einkum verið af tvennum toga: Annars vegar eru þeir sem efast um hvort að rafmagnsbílarnir muni í raun geta velt bensínbílunum og gamla góða sprengihreyflinum úr sessi. Hins vegar eru þeir sem fallast á að rafmagnsbílarnir munu taka yfir, en benda á neikvæðu hliðar þess að skipta yfir í rafdrifnar samgöngur. Reyndar má lesa ítarlega úttekt í nýjasta tímariti breska viðskiptaritsins Economist þar sem spáð er dauða sprengihreyfilsins. Og að það verði rafmagnsbíllinn sem taki yfir. Slíkri umbyltingu fylgja gríðarlegar breytingar í efnahag heimsins og vonandi einnig í í loftslags- og umhverfismálum. Nú eru talin vera um einn milljarður ökutækja í heiminum og það segir sig sjálft að ef þessi floti hættir að nota jarðefnaeldsneyti mun margt breytast. OPEC hefur stuðst við spár sem segja að rafmagnsbílarnir verði orðnir 266 milljón talsins árið 2040 á meðan Bloomberg News Energy Finance spáir því að 54% af öllum seldum bílum árið 2040 verði rafdrifnir.
Greinendur greinir á
Af þessu sést að greinendur greinir á. Í janúar birti olíufélagið BP útreikninga sem benda til þess að rafmagnsbyltingin í samgöngum verði ekki eins ör og margir halda eins og rakið var í fréttaskýringu í Morgunblaðinu. Greinendur BP spá að árið 2040 verði 100 milljón rafmagnsbílar í notkun á heimsvísu, sem er risastökk frá fjölda rafbíla í umferð í dag, en væri samt aðeins 5% af þeim 1,8 milljörðum bíla sem verða þá á götunum á heimsvísu. Hljóðar spá BP upp á að bílum fjölgi um 50% frá því sem er í dag, og að fjölgunin muni eiga sér að mestu stað í nýmarkaðslöndunum. Áætlar BP að hlutur rafmagnsbíla í að draga úr losun koltvísýrings verði hverfandi.
Líkt og með önnur svið endurnýjanlegrar orku er margt sem hefur þau áhrif að auka svartsýnina í spám um framtíðina. (BP viðurkennir að mikil óvissa sé í spám þeirra, og bendir á að 100 milljón nýir rafbílar myndu minnka eftirspurn eftir olíu um 1,4 milljón tunnur á dag.) Hvað tæknihliðina snertir þá virðist núna orðið jafndýrt að kaupa og reka rafmagnsbíl og bensínbíl, yfir allan líftíma bílsins, þó svo að rafmagnsbíllinn sé dýrari í innkaupum. Þess er vafalítið skammt að bíða að boðið verði upp á fjármögnunarleiðir sem munu leyfa kaupendum að nýta sparnaðinn af því að reka rafmagnsbíl strax dag, sem myndi þýða að kaupverð rafmagns- og bensínbíla yrði svipað. Og það er engin ástæða til að halda að það muni hægja á framförunum í þróun rafdrifinna samgöngutækja.