Bensínvélin út – Rafvélin inn?
Júlí 2017
Út með sprengihreyfilinn – inn með rafbílinn!
Forsætisráðherra Ítalíu Silvio Berlusconi hafði einu sinni uppi mikil fyrirheit um að laga fjárvana lífeyrissjóðskerfi Ítala. Hann hafði lausnirnar en þær áttu bara ekki að koma til framkvæmda fyrr en löngu eftir daga hans í valdastóli. Það kann að líta út sem heldur ódýr lausn hjá stjórnmálamönnum að koma með lausnir sem þeir sjálfir munu ekki þurfa að hrinda í framkvæmd. Það segir þó ekki alla söguna, stefnumótun er hluti af samfeldu starfi stjórnsýslunnar en stjórnmálamenn koma og fara. Að því leyti má segja að markmiðssetning sem þessi sé ekki með öllu marklaus.
Þetta er sagt vegna þess að nú um stundir keppast stjórnmálamenn við að segja að bílar knúnir jarðefnaeldsneyti verði teknir úr umferð, já útilokaðir af vegum. Nú síðast hafa bresk stjórnvöld opinberað vilja sinn til þess að nýjar bensín- og dísilbifreiðar verða bannaðar í Bretlandi frá árinu 2040. Þetta tengist áformum breskra stjórnvalda um að draga úr loftmengun en stjórnvöld í mörgum öðrum löndum hafa verið að koma með svipaðar yfirlýsingar og svipaðar tímasetningar. Frönsk stjórnvöld tóku svipaða afstöðu fyrir tveimur vikum síðan. Þó að þetta séu áhugaverð markmið þá má velta fyrir sér hvort þau skipti yfir höfuð máli. Nú er gríðarlega hröð þróun í rafbílum og ljóst að nýjar gerðir slíkra munu birtast jafnt og þétt á næstu misserum. Svo virðist sem markaðurinn sjálfur sé að reyna að leysa málið og gerir það nokkuð hratt. Meðfylgjandi mynd frá Bloomberg fréttaveitunni sýnir hvernig þróunin gæti orðið.
Flest lönd hafa núna einhverskonar hvetjandi aðgerðir til þess að gera rafbíla fýsilega fyrir kaupendur. Hér á landi eru þeir undanskyldir öllum gjöldum og þannig með jákvæðri hvatningu reynt að stuðla að notkun þeirra. Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands hefur mælt fyrir því að taka einnig upp neikvæða hvata, meðal annars með því að leggja sérstök gjöld á bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
Hleðslustöðvarnar mikilvægar
Spyr má hvort nauðsynlegt sé að ráðast í slíkt? Aðrir þættir munu líklega hafa meiri áhrif á þróunina. Ef við tökum sem dæmi þróunina hér heima þá hafa orðið miklar breytingar á útbreiðslu hleðslustöðva og nú er orðið einfalt að fara á milli Reykjavíkur og Akureyrar á rafmagnsbíl. Hleðslustöðvar finnast nú með reglulegu millibili alla leiðina. Það er gríðarleg framför. Um leið eru verið að setja upp hleðslustöðvar við verslanamiðstöðvar og annars staðar þar sem því verður við komið. Mikil skriður virðist komin á þessi mál.
Þá skiptir miklu sú þróun sem verður meðal bílaframleiðenda miklu. Í vikunni var greint frá því að BMW hygðist framleiða rafmagnsútgáfu Austin Mini bílsins í Bretlandi. Ánægjuleg tíðindi í Brexist-umræðunni þar sem ríflega 4.500 störf hanga á þessari ákvörðun. En ekki síður sú áhersla sem verður á rafbílaframleiðslu. Framleiðendur eins og Nissan Motor Co., Volvo Car Group, og BMW AG hyggjast auka verulega rafbílaframleiðslu sína.
Kostnaður við rafbíla að lækka
Um leið er verð á rafhlöðum á niðurleið – rafhlaða sem kostaði 1.000 Bandaríkjadali árið 2010 er talin munu kosta 73 dali 2030. Þá er miðað við sambærilega orkueiningu. Drægni rafbíla er einnig að aukast og má benda á að nýr Nissan Leaf mun komast um 300 km á hleðslu. Gera má ráð fyrir sprengingu í sölu rafbíla þegar drægni þeirra kemst yfir 400 km á hleðslunni. Talið er að innan 10 ára verði verð rafbíla fyllilega sambærilegt við verð á sprengihreyfilsknúnum bílum. Þar með mun verðstýring og niðurgreiðslur stjórnvalda litlu skipta.
Allt þetta mun hafa gríðarleg áhrif á rekstrarumhverfi olíufélaga sem nú keppast við að undirbúa sig. Royal Dutch Shell Plc, BP Plc og Total SA veðja nú á að eftirspurn eftir gasi aukist verulega og orkunotkun færist þangað. Þannig sé líklegt að rafmagn, sem verður notað til að knýja rafmagnsbíla, verði framleitt með jarðgasi. Shell telur að eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti muni ná hámarki innan 15 ára og dragast síðan hratt saman. Af þessu má vera ljóst að miklar breytingar eru framundan.