Eru plastagnir í íslensku neysluvatni?
September 2017
Plastagnir finnast í neysluvatni ríkja víða um heim og hafa vísindamenn nú hvatt til rannsókna á áhrifum þessa á heilsu manna. Samkvæmt rannsókn sem greint er frá á vef Guardian neyta nú milljarðar manna vatns sem inniheldur plastagnir, enda greindust þær í 83% þeirra vatnsprufa sem teknar voru til efnagreiningar.
Orb Media lét gera rannsókn á neysluvatni á annars tugs ríkja í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Afríku. Vatnið var efnagreint af vísindamönnum og í 83% prósentum tilvika reyndist það innihalda plastagnir.
Mengunin reyndist mest í Bandaríkjunum, en þar greindust plastagnir í neysluvatni í 94,4% tilvika. Prufurnar voru m.a. teknar í bandaríska þinghúsinu, húsakynnum bandarísku umhverfisstofnunarinnar og í Trump-turninum í New York.
Líbanon og Indland fylgdu í kjölfarið og fannst plast þar í 93,8% tilfella annars vegar og 82,4% hins vegar.
Mest magn plasttrefja í vatninu í Bandaríkjunum
Hjá þeim Evrópuþjóðum sem komu hvað best út – Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi – greindust plastagnir engu að síður í 72% tilfella. Hlutfall plasttrefja í 500 ml af vatni var hæst í Bandaríkjunum 4,8 og lægst í Evrópu þar sem það var 1,9.
Guardian segir rannsóknina sýna fram á hversu víða plastagnir sé að finna í umhverfinu. Fyrri rannsóknir hafa aðallega beinst að magni plastagna í hafinu, sem hefur gefið til kynna að við innbyrðum plastagnir með neyslu okkar á sjávarfangi.
„Við höfum nægt gagnamagn eftir rannsóknir á dýralífi og áhrifunum sem það [plastið] hefur á það til að hafa áhyggjur,“ hefur Guardian eftir dr. Sherri Mason, sérfræðingi í plastögnum við State University of New York í Fredonia sem fór fyrir rannsókninni. „Ef það hefur áhrif [á dýralífið], hvernig dettur okkur þá í hug að það muni ekki líka hafa áhrif á okkur?“
Minni rannsókn, sem gerð var á Írlandi og birt í júní, sýndi einnig fram á plastagnir í kranavatni og prufum sem teknar voru úr neysluvatnsbrunnum þar í landi. „Við vitum ekki hver áhrifin [á heilsuna] eru, en af þeim sökum ættum við að gæta varúðar og setja kraft í það strax að komast að því hver hin raunverulega hætta er,“ segir dr. Anne Marie Mahon við Galway-Mayo Institute of Technology, sem stýrði írsku rannsókninni.
Plastagnir og sýklarnir sem þær hýsa áhyggjuefni
Að sögn Mahon er það einkum tvennt sem ástæða er til að hafa áhyggjur af: mjög smáar plastagnir og svo efni eða sýklar sem plastagnirnar geta hýst. „Ef plasttrefjarnar eru þarna, þá er mögulegt að þar séu einnig örsmáar nanóagnir sem við náum ekki að greina,“ sagði hún.
„Þegar þær eru komnar í nanómetrastærð geta þær náð að smjúga inn í frumur líkamans, sem þýðir að þær komast inn í líffærin og það er áhyggjuefni.“ Rannsókn Orb náði að mæla plastagnir sem eru um 2,5 míkron að stærð – sem er 2.500 sinnum stærra en nanómetrinn.
Plastagnir geta líka laðað að bakteríur sem finnast í skolpi að sögn Mahons. Þá er einnig þekkt að þær geta innihaldið og dregið í sig eitruð efni og rannsóknir á dýralífi hafa sýnt að þær losa síðan þessi efni út í líkama dýranna.
Plastið fannst í 24 bjórtegundum
Bendir Guardian á að rannsókn prófessors Richard Thompson við Plymouth University í Bretlandi hafi sýnt fram á að plastagnir hafi fundist í þriðjungi þess fiskafla sem veiddur er þar í landi.
Þá hefur þýsk rannsókn sýnt fram á að plasttrefjar og agnir hafi fundist í bjór, en allar 24 tegundirnar sem rannsóknin tók til reyndust innihalda plast og þá hafa plastagnir einnig fundist í hunangi og sykri.