Gólfhiti – Jöfn hitadreifing ..sagan, reynslan
Janúar 2005
Gólfhitakerfin eru í stórsókn hérlendis, á því er ekki nokkur vafi og það er svo sannarlega ástæða til að fagna því. Þessi þróun er ekki einsdæmi og í rauninni eru þetta áhrif frá þeim löndum sem eru mestir áhrifavaldar í lagnamálum á Íslandi, en það eru Norðurlöndin og Þýskaland.
Frá þessum löndum fáum við ekki aðeins þekkingu og menntun heldur einnig obbann af því lagnaefni sem við notum í okkar lagnakerfi, hvort sem það eru hreinlætistæki eða rör og tengi úr stáli eða plasti. Vissulega fáum við víðar að gögn og gæði til nota í lagnakerfi og þar má nefna Ítalíu, sem hefur sótt í sig veðrið í framleiðslu á hverskonar vönduðum iðnvarningi hin síðari ár.
En við ætlum að fjalla um gólfhitann og þá miklu aukningu sem orðið hefur í lögn hans hérlendis hin síðari ár. Fram að þessu hafa gólfhitakerfi einkum verið talin henta í einbýlishús og iðnaðarhúsnæði á einni hæð, en nú er að verða á því breyting.
Í síðasta Fasteignablaði var fjallað um háhýsi, íbúðarblokk, sem á að fara að byggja í Keflavík, rétt við höfnina. Gamall lagnamaður sperrti brýrnar þegar hann las í umræddri grein að í öllum íbúðum, í öllu húsinu, yrði gólfhiti, þetta má telja tímamót því líklega er þetta fyrsta fjölbýlishúsið, margra hæða húsið, með gólfhita á Íslandi. Ástæða er til að óska byggjendum og hönnuðum til hamingju með djarfa ákvörðun sem enginn þarf að sjá eftir, það mun koma í ljós.
Eitt af því sem er gífurlega mikilvægt, þegar nýjar brautir eru ruddar, er að vanda til verka. Þetta á við um öll þau gólfhitakerfi sem lögð hafa verið hérlendis á undanförnum árum. Mistök sem verða í upphafi við markaðsfærslu á nýjungum geta skaðað mikið, vonandi höfum við hérlendis sloppið við slík óhöpp.
Lengri hefð í Danmörku
Hvernig hefur tekist til þar sem meiri reynsla er komin á gólfhitakerfi? Lítum þá til Danmerkur. Það er vissulega fróðlegt að kynnast því hver þeirra reynsla er og hægt að spyrja margra spurninga. Hafa lagnaefnin reynst vel, plaströrin eru allsráðandi í gólfhitalögnum, hafa þau reynst vel? Veita gólfhitakerfi nægan hita? Standa hönnuðir og pípulagningamenn undir væntingum, vanda þeir nægilega verk sín? Þannig má lengi spyrja og freistandi að ætla að svörin gætu verið eitthvað álíka hérlendis.
Það er skemmst frá því að segja að undanfarið hefur komið upp mikil og talsvert almenn óánægja hjá þeim sem hafa valið sér gólfhitakerfi í hús í Danmörku. Gólfhitakerfi hafa verið töluvert til umræðu í fjölmiðlum þarlendis, ekki aðeins prentmiðlum og útvarpi, heldur einnig í sjónvarpi.
Því miður hefur margt komið þar fram sem er ekki jákvætt, en hvað er það sem helst er gagnrýnt og hverjir fá gagnrýnina? Það eru hönnuðir og pípulagningamenn, þeir eru ekki taldir nægilega vandvirkir í sínum störfum. Lagnamenn eru sakaðir um lélega hönnun og skeytingarleysi gagnvart húsbyggjendum og að mistök í gólfhitalögnum séu þó nokkuð algeng.
En hvað er það sem húseigendur og íbúar, sem eru farnir að búa við gólfhita, gagnrýna mest? Það sem þar ber hæst í gagnrýni er að lagnamenn nýti ekki gólffletina nægilega vel, þess sé ekki gætt að hvarvetna, í öllu gólfinu, séu gólfhitarör.
Það er einmitt það, sem þeir sem á gólfhita búa og lifa, gagnrýna harðast; að gólfin séu misheit eða réttara sagt, gólfin séu ekki með sama hita hvarvetna, sumsstaðar séu hlutar þess útundan og ekki með neinum rörum. Fátt virðist pirra fólk eins mikið eins og að ganga skyndilega út af hituðu gólfi og út á óhitað.
Nú vaknar forvitnin og þess vegna er ekki úr vegi að spyrja; er þetta vandamál þekkt hjá þeim sem búa við gólfhita á Íslandi? En aftur að Dönum. Þessi óánægja með gólfhitakerfi þarlendis er það útbreidd að margar af stærri fjarvarmaveitum landsins ætla að taka upp sérstakt eftirlit með gólfhitalögnum. Margir af þeim sem þarlendis hafa lagt orð í belg benda á að þegar búið er að steypa gólfhitalagnir inn í gólfin verði litlu breytt, þess vegna verði að tryggja að gólfhitakerfin séu rétt hönnuð og lögð af ítrustu samviskusemi og vandvirkni. Nú eru veiturnar að gefa út bæklinga með leiðbeiningum um hvernig skuli að verki staðið og ekki nóg með það; veiturnar ætla að gera út sérstaka eftirlitsmenn til að hafa eftirlit með gólfhitalögnum.
Af þessu máli má draga þær ályktanir helstar að almenn ánægja er með gólfhita þar sem hann hefur heppnast, lagnaefnin standa fullkomlega undir væntingum en eitthvað brestur þegar kemur að verkinu sjálfu, að hanna og leggja kerfin.
Á liðnum árum hafa verið haldnar ráðstefnur hérlendis um lagnamál sem sumar hverjar hafa skilað miklum árangri. Við erum að feta okkur inn á nýjung, það er ekki hægt að nefna gólfhitakerfin annað en nýjung, svo stutt er síðan að þau urðu almenn og vinsæl.
Er ekki kominn tími til að íslenskir lagnamenn beri saman bækur sínar um gólfhitakerfin, býður það ekki hættunni heim að hver og einn sé að bogra í sínu horni, væri ekki nær að skiptast á reynslu og að hver læri af öðrum?