Blái bletturinn – Golfstraumurinn skiftir íslendinga öllu máli..

Heimild:  

 

Apríl 2017

Haraldur Sigurðsson

Höf heimsins eru að hlýna allstaðar nema í bláa blettinum í Norður Atlantshafi, rétt fyrir suðvestan Íslands. Fyrsta myndin sýnir frávik frá hita hafsins frá 1900 til 2013. Öll höfin sýna gulan eða rauðan lit, sem þýðir hlýnun, eins og mælikvarðinn undir myndinni sýnir. En það er ein mjög mikilvæg undantekning: blái bletturinn sunnan Grænlands og Íslands. Þetta svæði hafsins sýnir stöðugua og ákveðna kólnun í öllum mælingum. Hnattræn hlýnun er í gangi, en hvernig stendur á þessari staðbundnu kólnun rétt hjá okkur í hafinu?

Smella á mynd til að stækka

Hingað til hefur verið farið með þetta eins og viðkvæmt feimnismál, og lítt rætt meðal vísindamanna og alls ekki meðal almennings. En málið er grafalvarlegt, þar sem það kann að benda til að Golfstraumurinn sé að hægja á sér.   Árið 2010 stungu Dima og Lohmann upp á að Golfstraumurinn hafi verið að hægja á sér alla leið síðan um 1930. Nú eru nokkrir vísindamenn byrjaðir að kveða við sama tón, til dæmis S. Rahmsdorf (2015) á fundi í Reykjavík. Einn sá fyrsti til að benda á þann fræðilega möguleika að það kynni að draga úr Golfstraumnum í tengslum við hnattræna hlýnun var Bandaríkjamaðurinn Wally Broecker í grein í Nature árið 1980, sem bar titilinn “Unpleasant surprises in the greenhouse?”

Golfstraumurinn er einn mikilvægasti armurinn í hringrás strauma heimshafanna, en að hluta til verður þessi hringrás til vegna þess að mjög kaldur, saltur og þungur sjór sekkur norðan Íslands, steymir með botninum til suðurs, og sem svörun við því streymir heitari sjór (Golfstraumurinn) til norðurs. Nú við hnattræna hlýnun dregur úr myndun þessar sjávartegundar í norðri og Glofstraumurinn hægir á sér. Þetta er kenningin, en mælingar eru allt of fáar á þessu fyrirbæri. Ekki reikna með að Hafró skifti sér af því heldur: þeir halda sig á landgrunninu.

Wei Liu ofl. (2016) hafa gert mjög nákvæmt líkan af áhrifum af hnattrænni hlýnun á Golfstrauminn, sem spáir um líklega hegðun hans í framtíð. Niðurstaða þeirra er sú, að mikið dragi úr Golfstraumnum eftir um 200 ár, eins og önnur mynd sýnir. Þetta líkan gerir ráð fyrir tvöföldun á kolsýru í lofthjúpnum.  Einingarnar fyrir rennsli Golfstraumsins eru í Sverdrup (Sv), en ein Sv er ein milljón rúmmetrar af sjó á sekúndu. Við Björn Erlingsson bentum á þessa hættu í ýtarlegri skýrslu um hnattræna hlýnun til Forsætisráðuneytissins árið 2007, en fengum engin viðbrögð við þeirri skýrslu. Jafnvel skólabörn átta sig á því nú í dag að hegðun og framtíð Golfstraumsins skiftir íslendinga öllu máli.

Fleira áhugavert: