Nord Stream gasleiðslan – 1200 kíló­metrar, 1.2 metrar þvermál

Heimild: 

 

Apríl 2017

Nord Stream gasleiðslan verður löng og mikil, og liggur milli Vyborg og Greifswald.

Rússneskir hagsmunir eru nú á borði danskra stjórnvalda. Gasflutningar kalla á miklar framkvæmdir og mun rörið meðal annars liggja um danskt hafssvæði

,,Og það er margt bréf­ið” sagði gamli mað­ur­inn, í upp­haf­skafla Íslands­klukk­unn­ar, þegar hans majestets bífal­ings­maður kom á Þing­velli til að höggva niður sam­eign þjóð­ar­inn­ar, klukku. Þá vant­aði eir og kopar til að end­ur­reisa Kaup­in­hafn.

Danska rík­is­stjórnin á von á bréfi. Þótt bréfa sé iðu­lega beðið með eft­ir­vænt­ingu, og jafn­vel til­hlökk­un, er það bréf sem nú er vænt­an­legt ekki eitt þeirra. Bréfið kemur frá rúss­neskum stjórn­völd­um. Það fjallar ekki um eir og kopar heldur um stál­rör. Og það er ekk­ert smá­ræðis rör sem hér um ræð­ir. Það verður 1200 kíló­metrar á lengd og 120 senti­metrar í þver­mál og á að liggja frá Vyborg í Rúss­landi til Greifswald í Þýska­landi. Lengstan hluta leið­ar­innar á botni Finn­lands­flóa og Eystra­salts. Rör­inu er ætlað að flytja gas, frá Rúss­landi til Þýska­lands. Erindi bréfs­ins frá Rússum til Dana verður beiðni um leyfi til að rörið liggi um danska haf­svæðið við Borg­und­ar­hólm.

Á að liggja við hlið Nord Str­eam 1

Fyr­ir­tækið sem stendur að lagn­ingu leiðsl­unnar heitir Nord Str­eam. Rúss­neska fyr­ir­tækið Gazprom á rúm­lega helm­ings hlut en nokkur evr­ópsk fyr­ir­tæki afgang­inn. Nord Str­eam var stofnað árið 2005 í þeim til­gangi að leggja gasleiðslu frá Rúss­landi til Þýska­lands. Sú leiðsla, sem er í raun tvær sam­liggj­andi leiðsl­ur, gengur undir nafn­inu Nord Str­eam 1 og var tekin í notkun í sept­em­ber 2011. Þessi leiðsla leysti úr brýnni þörf því Rússar vinna geysi­mikið gas og selja stóran hluta þess úr landi. Þangað til Nord Str­eam 1 var tekin í notkun fór stærstur hluti gas­flutn­ing­anna til Vest­ur- Evr­ópu um Úkra­ín­u.

Sam­skipti Rússa og Úkra­ínu­manna eru afar stirð og Rússum þykir lík­lega síður en svo gott vera háðir Úkra­ínu­mönnum að þessu leyti. Rúss­arnir selja Úkra­ínu­mönnum gas og stundum hefur það gerst að greiðslur hafa ekki skilað sér. Rússar hafa lítið getað aðhaf­st, því þá hafa Úkra­ínu­menn ein­fald­lega lokað fyrir streymið til Vest­ur­-­Evr­ópu, hafa sem­sagt haft tögl og haldir í þessum efn­um. Rússum er lík­lega bölv­an­lega við að sitja í þess­ari klemmu og þess vegna hófu þeir fyrir all­mörgum árum und­ir­bún­ing nýrrar gasleiðslu, sem liggja skyldi við hlið Nord Str­eam 1. Hluta leið­ar­inn­ar, eins og áður sagði, um danskt haf­svæði, skammt undan strönd Borg­und­ar­hólms. Leyfið fyrir Nord Str­eam 1 veittu Danir árið 2009,án þess að depla auga, en nú eru breyttir tím­ar.

Hvað hefur breyst?

Það sem hefur breyst er einkum tvennt. Í fyrsta lagi það að sam­skipti marga þjóða og Rúss­lands eru ekki með sama hætti og þau voru árið 2009. Eru væg­ast sagt stirð. Rússar hafa und­an­farið aukið hern­að­ar­um­svif sín svo mjög að mörgum stendur stuggur af. Innan Evr­ópu­sam­bands­ins er sú skoðun útbreidd að gasleiðslan Nord Str­eam 2 sé fremur liður í milli­ríkjapóli­tík Rússa en öryggi í gas­flutn­ing­um. Í raun sé ekki bein þörf fyrir þessa nýju leiðslu eins og Rússar halda fram. Í öðru lagi kom í ljós fyrir nokkru að upp­lýs­ing­arnar sem danska þing­ið, Fol­ket­in­get, fékk á sínum tíma frá dönsku Orku­mála­stofn­un­inni voru að öllum lík­indum rang­ar.

Í grein­ar­gerð frá stofn­un­inni kom fram að Dönum bæri skylda til að heim­ila lagn­ingu leiðsl­unn­ar, í sam­ræmi við Haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­ein­uðu þjóð­anna (79. grein). Málið kom aldrei til kasta þings­ins, Orku­mála­stofn­unin veitti leyf­ið. En síðan hafa margir haf­rétt­ar­sér­fræð­ingar lýst sig ósam­mála þess­ari nið­ur­stöðu Orku­mála­stofn­un­ar­inn­ar, það sé algjör­lega í valdi Dana að ákveða hvort Rússar megi leggja leiðsl­una svo nálægt landi við Borg­und­ar­hólm, innan 12 sjó­mílna frá strönd­inni. Þar með er málið komið í hendur danska þings­ins og þar eru menn ekki á einu máli. Sumir vilja leyfa lögn­ina, aðrir eru því mót­falln­ir. Margir þing­menn eru líka afar ósáttir við að leyfið fyrir eldri lögn­inni hafi verið veitt á röngum for­send­um, eins og flest bendir til. Í nýrri skoð­ana­könnun kom fram að meiri­hluti Dana vill ekki að Rússar fái leyfi fyrir nýju lögn­inni.

 

Rörin sem flytja gasið eru gríðarstór.Leit­uðu aðstoðar Evr­ópu­sam­bands­ins

Danska rík­is­stjórnin hefur lengi vitað að von væri á bréf­inu frá Rúss­um. Hún hefur fyrir löngu haft sam­band við yfir­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins og óskað eftir aðstoð. Í Brus­sel ríkir skiln­ingur á því að erfitt sé fyrir litla þjóð, einsog Dani, að standa eina gegn Rúss­um. En ekki er þó ein­hugur meðal ráða­manna ESB um afstöð­una til Rússa og leiðsl­unn­ar. Þjóð­verjar vilja mjög gjarna fá Nord Str­eam leiðsl­una í gagnið sem fyrst, sama gildir um Frakka. Fram­kvæmda­stjórn ESB til­kynnti fyrir nokkrum dögum að hún færi fús til að ann­ast samn­inga við Rússa, fyrir hönd Dana. Sú vinna fer þó ekki í gang fyrr en form­legt erindi berst frá dönsku stjórn­inni.

Rússar segja nýju leiðsl­una tryggja öryggi í flutn­ingum

Rússar leggja mikla áherslu á að fá sam­þykki Dana fyrir nýju lögn­inni og það sem fyrst. Segja leiðsl­una tryggja öryggi í gas­flutn­ing­unum en millj­óna­tugir evr­ópskra heim­ila nota rússagasið, eins og það er oft kall­að, til upp­hit­unar og matseld­ar. Þeir benda líka á að ekk­ert hafi komið fram sem bendi til þess að eldri lögn­in, Nord Str­eam 1, hafi haft skað­leg áhrif á líf­ríkið í haf­inu.

Hvað ef Danir segja nei?

Vinna við smíði rör­anna og til­heyr­andi búnað hófst árið 2013. Áætl­anir Rússa gera ráð fyrir að lagn­ing leiðsl­unnar hefj­ist á næsta ári og hún kom­ist í gagnið árið 2019. Þá er miðað við að leiðslan liggi sam­hliða Nord Str­eam 1. Ef svo færi að Danir synj­uðu beiðni Rússa þýðir það ekki að leiðslan verði ekki lögð. Rússar myndu ein­fald­lega leggja lykku á leið leiðsl­unn­ar, færa hana fjær Borg­und­ar­hólmi og út úr danskri lög­sögu. Það myndi vænt­an­lega seinka því að leiðslan kom­ist í gagnið en eitt eða tvö ár til eða frá skipta kannski ekki máli í þessu sam­hengi.

Fleira áhugavert: