Er vindorka áhugaverðari en bankinn áætlar?
Apríl 2017
Um mitt ár 2016 kom út ítarleg skýrsla unnin af Kviku banka um kostnaðar- og ábatagreiningu vegna raforkusæstrengs milli Íslands og Bretlands. Þetta er um margt mjög vel unnin og fróðleg skýrsla. En því miður gefur skýrslan skakkt mat á því hversu mikil vindorka er líkleg til að verða virkjuð á Íslandi á komandi árum og áratugum. Þar er byggt á röngum eða í besta falli ónákvæmum forsendum og fyrir vikið gefur niðurstaða bankans um orkuöflun hér á landi til framtíðar fremur óraunsæja mynd af líklegri þróun orkugeirans. Nýting vindorku á Íslandi er m.ö.o. mun áhugaverðari kostur en skýrsla Kviku banka gefur til kynna.
Yfirborðskennd umfjöllun Kviku banka um vindorku
Umrædd skýrsla Kviku banka hefur að geyma mikið magn upplýsinga og varla til önnur dæmi um jafn ítarlega umfjöllun um kostnað við raforkuöflun á Íslandi. Sem gerir skýrsluna afar áhugaverða og merkilegt innlegg bæði í umræðu um mögulegan sæstreng og um uppbyggingu nýrra virkjana.
Það er engu að síður svo að miðað við það hversu ítarleg skýrslan er, vekur það nokkra furðu hversu umfjöllun skýrsluhöfunda um vindorku er yfirborðskennd. Sú umfjöllun er að mestu takmörkuð við einn stuttan kafla með fáeinum skýringarmyndum/gröfum sem eru nánast vandræðalega almenns eðlis og þýðingalítil (kafli 15.3.3). Skýrsluna í heild má nálgast á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytsins, svo og á vef Kviku banka.
Engin vindorka án sæstrengs?
Í ljósi fábrotinnar umfjöllunar skýrslunnar um vindorku kemur kannski ekki á óvart að niðurstaða skýrsluhöfunda um möguleika í virkjun vindorku á Íslandi er hvorki skynsamleg né raunsæ. Í stuttu máli þá gerir Kvika banki ráð fyrir því að ef ekki kemur til lagningar sæstrengs (rafstrengs) milli Íslands og Evrópu, sé ólíklegt að vindorka verði virkjuð hér á landi. Sbr. miðsviðsmynd skýrsluhöfunda, sem sjá má á grafinu hér að neðan (grafið er úr enskri kynningu Kviku banka á skýrslunni).
Skýringin á þessu einkennilega mati Kviku banka á tækifærum í vindorku, virðist fyrst og fremst vera sú að vindorka sé álitin of dýr til að vera áhugaverð hér nema til lagningar sæstrengs komi (sæstrengurinn skapar réttilega möguleika á að fá hærra verð fyrir raforkuna en ella). Þetta mat Kviku banka er byggt á veikum forsendum, eins og lýst er í þessari grein.
Lykilatriðið er að höfundar að skýrslu Kviku banka beittu skakkri aðferðafræði við mat á kostnaði vindorku í samanburði við kostnað nýrra hefðbundinna virkjana og vanmátu þar með tækifærin sem í vindorkunni felast. Þetta kemur nokkuð á óvart, enda naut Kvika banki ráðgjafar frá ráðgjafa- og greiningarfyrirtækinu Pöyry. Sem er „eitt virtasta ráðgjafafyrirtæki á sviði orkumála í Evrópu“, eins og segir á vef Kviku banka.
Kostnaður vindorku liggur á mjög breiðu bili
Helsta ástæða þess að Kvika banki vanmat tækifærin í vindorku er sú að bankinn setti eina fasta kostnaðartölu á alla virkjanlega vindorku upp að 6 TWst, sbr. grafið hér að neðan (rauðu hringjunum er bætt við hér til áhersluauka). Sú fasta kostnaðartala var rétt yfir 50 EUR/MWst. Sá kostnaður er vissulega hærri en kostnaður almennt við nýjar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir á Íslandi. En þessi aðferðafræði Kviku banka gengur samt ekki upp í þessu samhengi.
Þarna hefði vindorkan átt að fá samskonar umfjöllun eins og beitt var um virkjunarkosti í vatnsafli og jarðvarma. Þar sem hver virkjunarkostur var kostnaðarmetinn og þeim svo raðað þannig að ódýrustu virkjunarkostirnir væru líklegir til að verða virkjaðir fyrst og svo koll af kolli. Sbr. brúna línan á grafinu sem lýsir miðgildi kostnaðar.
Það hefði sem sagt verið eðlilegt að kostnaðarmeta vindorku með svipuðum hætti, þ.e. gera ráð fyrir að hluti hennar væri undir meðalkostnaði (og hluti hennar yfir meðalkostnaði). Rétt eins bæði IRENA og Lazard gera við mat á kostnað vindorku, en kostnaður vindorku er jú mjög breytilegur; ekki síst vegna mismunandi vindaðstæðna á hverjum stað.
Þetta kemur t.a.m. skýrt fram á grafinu hér til hliðar, sem er úr nýjustu skýrslu Lazard um kostnað við raforkuframleiðslu (sú skýrsla er frá desember 2016). Eins og sjá má er kostnaður bandarískra vindorkuverkefna, skv. Lazard, á mjög breiðu bili. Og fer allt niður í 32 USD/MWst, sem í dag jafngildir u.þ.b. 30 EUR (athuga ber að sá kostnaður er án tengikostnaðar við flutningsnet og því eðlilegt að viðmiðun Kviku um lágmarkskostnað hefði verið u.þ.b. 20% hærri tala).
Þetta er sú aðferðafræði sem maður saknar úr skýrslu Kviku banka, þ.e. að taka tillit til þess að líklega má virkja umtalsverða vindorku hér á landi á verði sem er langt undir þeirri föstu tölu sem bankinn notaðist við í skýrslu sinni. Þannig hefði fengist miklu skýrari mynd af hagkvæmni vindorku, fremur en það að setja eina fasta kostnaðartölu á 6 TWst vindorkuframleiðslu líkt og Kvika banki gerði.
Mismunandi aðferðafræði skekkti samanburðinn
Kostnaður við að virkja vindorku og framleiða þannig rafmagn er sem sagt langt frá því að vera ein tiltekin upphæð. Með því að beita sömu eða svipaðri aðferðafræði um vindorkuna eins og gert var með vatnsaflið og jarðvarmann, hefði niðurstaða Kviku banka orðið talsvert öðruvísi. Eins og lýst er með rauðu línunni sem bætt er hér inn á upphaflega grafið frá Kviku/Pöyry (sjá grafið hér að neðan, en upphaflega grafið frá Kviku/Pöyry má t.d. sjá hér á vef Icelandic Energy Portal).
Á grafinu sést glögglega að ódýrustu kostirnir í vindorku (lower cost wind) eru nokkru kostnaðarminni en margir kostir í jarðvarma (high-cost geothermal); sjá einnig grein á Icelandic Energy Portal. Það er m.ö.o. óheppilegt og raunar fráleitt að afgreiða alla virkjunarkosti í vindorku með einni kostnaðartölu, enda beitti Kvika banki að sjálfsögðu ekki þeirri aðferð við mat á kostnaði nýrra vatnsafls- og jarðvarmavirkjana. Þessi mismunandi aðferðafræði skekkir samanburðinn í skýrslunni.
Kostnaður einstakra verkefna er afgerandi atriði
Eðlilegast er að gera ráð fyrir því að röðun virkjunaframkvæmda muni fyrst og fremst ráðast af kostnaði einstakra verkefna (svo og umhverfisáhrifum og skipulagi). Það merkir að ódýrir kostir í vindorku munu í a.m.k. einhverjum tilvikum verða byggðir upp á undan mun dýrari kostum í jarðvarma (og jafnvel vatnsafli).
Við þetta bætist svo að samspil eldri vatnsaflsvirkjana og nýrra vindmyllugarða geta gert vindorkuverkefni ennþá hagstæðari en ella. Sem kann að flýta ennþá meira fyrir uppbyggingu vindmyllugarða. Eftir stendur svo auðvitað spurningin um kostnað vegna varaafls fyrir íslenska vindmyllugarða, en þann kostnað er snúið að meta vegna þess að hér á landi er ekki ennþá til slíkur markaður.
Kostnaður við vindorku oft töluvert lægri en kostnaður jarðvarma
Eins og áður sagði er í skýrslu Kviku banka miðað við að kostnaður vindorku sé almennt nokkuð yfir 50 EUR/MWst (kostnaður sem byggir á efnahagslegum líftíma virkjunar, stofnkostnaði, rekstrarkostnaði og vegnum meðalfjármagnskostnaði). Hafa ber í huga að skv. upplýsingum frá Kviku banka er tengikostnaður virkjana við flutningsnetið innifalinn í umræddri kostnaðartölu.
Umrædd tala er meðalkostnaður, en Kvika banki leit ekki til þess að mörg vindorkuverkefni eru langt undir meðalkostnaði (og önnur langt yfir). Ef Kvika banki hefði beitt sömu aðferðafræði gagnvart vindorku eins og vatnsafli og jarðvarma, hefði kostnaður ódýrustu vindmyllugarðanna sennilega verið metinn u.þ.b. 25–30% lægri en meðaltalskostnaðurinn sem Kvika banki miðaði við.
Þetta hefði skipt verulegu máli fyrir mat á samkeppnishæfni vindorku. Því þá hefði niðurstaðan vafalítið orðið sú að hundruð MW af vindorkuafli á Íslandi séu hagkvæmari en t.d. margar þeirra jarðvarmavirkjana sem eru fyrirhugaðar hér skv. Rammaáætlun. Sá sem þetta skrifar álítur líklegt að hér muni reynast hagkvæmt að reisa um 300–400 MW af vindafli á komandi árum, þó svo enginn sæstrengur komi. Og jafnvel meira. Sæstrengur myndi svo gera nýtingu á íslenskri vindorku ennþá áhugaverðari.
Nýleg greining MIT/IIT styður hagkvæmni íslenskrar vindorku
Í þessu sambandi má líka horfa til nýlegrar greiningar og kostnaðarmats af hálfu MIT Energy Initiative og Comillas-IIT. Þar kemur fram að hérlendis verði unnt að reisa nokkur hundruð MW af vindafli þar sem kostnaðurinn (levelized cost of energy; LCOE) nemur um 35 USD/MWst, þ.e. u.þ.b. 32 EUR/MWst (miðað við gengi evru og bandaríkjadals).
Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá MIT/IIT eru þessir útreikningar m.a. byggðir á upplýsingum frá Landsvirkjun um nýtingartíma (capacity factor) vindmyllanna tveggja ofan við Búrfell. Ætla má að sú tölfræði gefi ágæta mynd af því hvers vænta megi um hagkvæmni vindorku á Íslandi. Sú hagkvæmni virðist tvímælalaust vera mun meiri en ráða má af skýrslu Kviku banka. Af þessu öllu leiðir að sú ályktun Kviku banka að ólíklegt sé að hér rísi vindmyllugarðar nema til sæstrengs komi, er sennilega röng.