KHÍ reitur Stakkahlíð – 250-300 námsmannaíbúðir
Maí 2017
Byggingafélag námsmanna mun byggja 250 – 300 íbúðir fyrir félagsmenn sína á næstu árum. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Salome Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Byggingafélags námsmanna og Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu þessa efnis.
Horft er til fjögurra svæða til að ná þessum fjölda íbúða:
- Reykjavíkurborg veitir vilyrði fyrir tveimur byggingarlóðum á KHÍ reit við Stakkahlíð fyrir um 100 nemendaíbúðir í samræmi við deiliskipulag.
- Reykjavíkurborg mun láta kanna hvort mögulegt er að nýta betur og fjölga íbúðum á lóðum Byggingarfélags námsmanna við Klausturstíg 1-11, Kapellustíg 1-13 og Kristnibraut 91-93.
- Vilyrði er veitt fyrir úthlutun lóðar fyrir 50 – 100 námsmannaíbúðir í Bryggjuhverfi 3, þegar deiliskipulag liggur fyrir.
- Þá lýsa Reykjavíkurborg og Byggingafélag námsmanna yfir vilja til að efna til viðræðna við ríkissjóð um að fá afnot af hluta af lóð Sjómannaskólans við Háteigsveg 35-39 og að endurskoða fyrirliggjandi deiliskipulag á lóð félagsins að Háteigsvegi 31-33 til reisa þar um 50 námsmannaíbúðir.
Viljayfirlýsingin er í samræmi við markmið húsnæðisstefnu um fjölbreyttar húsa¬gerðir, blöndun íbúðagerða innan hverfa og aukið framboð smærri íbúða fyrir alla félagshópa.
Í leigusamningi um lóðirnar verður kvöð þess efnis að á lóðunum skuli byggðar eða reknar leiguíbúðir fyrir námsmenn og að eignarhald þeirra skuli ávallt vera óbreytt, nema að fengnu samþykki Reykjavíkurborgar. Þá munu Félagsbústaðir hafa kauprétt að allt að 5% íbúða sem byggðar verða.
Mikil fjölgun námsmannaíbúða
Byggingafélagið leigir í dag út tæplega 500 íbúðir til námsmanna á höfuðborgarsvæðinu og áætlar að byggja um 300 íbúðir til viðbótar á næstu 5-8 árum. Fyrsti áfangi í þeirri uppbyggingu verður bygging 100 íbúða við Stakkahlíð. Aðildarfélög Byggingafélags námsmanna eru Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík, Stúdentaráð HÍ (Menntavísindasvið), Nemendaráð Listaháskóla Íslands og Nemendasamband Tækniskólans. Samtals eru nemendur aðildarskólanna nú um 7.700 talsins.
Böðvar Jónsson framkvæmdastjóri Byggingarfélags námsmanna segir nýjar íbúðir verða kærkomna viðbót fyrir nemendur aðildarskóla félagsins. „Staðsetning lóðarinnar við Stakkahlíð er sérlega góð og í nágrenni allra okkar aðildarskóla. Byggingafélagið er tilbúið að hefjast handa um leið og skipulagsferli borgarinnar lýkur sem ætti að verða nú strax í vor,“ segir hann.