Setjum verðmætasköpun í forgang

Heimild:  

 

Maí 2013

Ketill Sigurjónsson

Setjum verðmætasköpun í forgang

Í síðustu grein höfundar hér á viðskiptasíðu mbl.is var bent á að með útflutningi á raforku sé unnt að fá a.m.k. 30% hærra verð fyrir íslenska raforku heldur en stóriðjan hér er að greiða. Þetta myndi auka framleiðni í orkugeiranum hér umtalsvert.

Þarna var vel að merkja tekið mið af almennu markaðsverði á raforku í Evrópu. Ef við göngum skrefi lengra og reynum að nýta okkur þau tækifæri sem bjóðast grænni raforku í Evrópu sést að tækifærin til að auka framleiðni í raforkuframleiðslunni hér og verðmætasköpun á hverja framleidda orkueiningu kunna að vera miklu meiri. Slíkt væri til þess fallið að stuðla að traustum hagvexti hér, sem myndi skila sér í langtíma hækkun kaupmáttar á Íslandi og bættum lífskjörum.

Ísland er raforkustórveldi

Miðað við fólksfjölda er Ísland sannkallað raforkustórveldi. Engin þjóð í heiminum framleiðir nándar nærri eins mikið af rafmagni eins og Íslendingar (þ.e. miðað við fólksfjölda eða per capita). Norðmenn með allt sitt mikla vatnsafl koma næstir, en eru þó einungis hálfdrættingar á við okkur. Langt þar á eftir koma nokkur önnur vatnsaflsríki og stóru jarðgasframleiðsluríkin við Persaflóann.

Helsta ástæða þess að við framleiðum svo mikla raforku er að hér er unnt framleiða raforku með afar hagkvæmum hætti og það í óvenjulega miklu magni miðað við stærð þjóðarinnar. Öll raforkuframleiðslan á Íslandi er vel að merkja fengin með nýtingu endurnýjanlegra auðlinda (vatnsafls og jarðvarma). Og ennþá er nokkuð langt í að við höfum virkjað alla hagkvæmustu virkjunarkostina hér. Það er því vara ofsagt að Ísland er sannkallað raforkustórveldi – og að auki grænt raforkustórveldi.

Þetta skapar Íslandi sérstöðu og mikil tækifæri. Við erum nefnilega ekki bara með mikla og græna orku, heldur sjáum við líka fram á möguleika til að nýta okkur nálægðina við mjög áhugaverða raforkumarkaði. Markaði þar sem raforkuverð er með því hæsta í heiminum og þar að auki greitt sérstaklega fyrir græna orku. Okkar stóra tækifæri snýr að raforkumörkuðunum í næsta nágrenni við okkur. Þ.e. í vestanverðri Evrópu.

Raforkuverð í Evrópu hefur þrefaldast 

Á síðustu tíu árum eða svo hafa orðið geysilegar breytingar á raforkumörkuðum víða um heiminn og þá einkum og sér í lagi í Evrópu. Það má jafnvel tala um straumhvörf eða vatnaskil í þessu sambandi. Í mörgum löndum Evrópu hefur heildsöluverð á raforku þrefaldast á einungis um áratug. Það er mun meiri hækkun en víðast hvar annars staðar í heiminum.

Ástæða þessara verðhækkana á evrópskum raforkumörkuðum er fyrst og fremst hækkandi kolaverð og hár kostnaður í gasvinnslu í Evrópu og nágrenni. Langmest af raforkunni í álfunni kemur frá þessum tveimur orkugjöfum (kolum og jarðgasi) og svo kemur kjarnorkan í þriðja sæti. Hækkun á stálverði hefur einnig stuðlað að hækkandi raforkuverði (stálverð hefur mikið að segja um kostnað við að endurnýja og byggja ný raforkuver af því tagi sem Evrópa þarf að reiða sig svo mjög á).

Verðþróunin síðustu tíu árin eða svo hefur sem sagt gert evrópska raforkumarkaði mjög áhugaverða fyrir raforkuframleiðendur sem geta framleitt raforku með óvenju hagkvæmum hætti. Fyrir okkur skiptir líka miklu máli að aðildarríki Evrópusambandsins vinna að því að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkunotkun sinni. Sú stefna skapar enn meiri eftirspurn í Evrópu eftir endurnýjanlegri raforku en ella væri. Þetta hentar Íslandi fullkomlega.

Þessi þróun er líkleg til að gefa okkur Íslendingum einstakt tækifæri til að auka verðmætasköpun og framleiðni í raforkuframleiðslunni hér. Ef við nýtum okkur þessi tækifæri mun það hafa jákvæð áhrif á langtímahagvöxt á Íslandi og bæta lífskjör. Um leið myndu skapast möguleikar til meiri fjölbreytni í íslensku atvinnu- og efnahagslífi en við höfum kynnst fram til þessa.

Tækifærið í hnotskurn

Ef íslenska raforkan væri að skila ámóta verðmætum eins og gerist víðast hvar annars staðar í Evrópu væru orkuauðlindirnar okkur efnahagslega margfalt mikilvægari en verið hefur. Að auki myndum við þá eiga áhugavert tækifæri til að nýta ekki aðeins vatnsafl og jarðvarma, heldur einnig vindorkuna sem fram til þessa hefur blásið óbeisluð um landið. Til að átta sig betur á þessum áhugaverðu tækifærum okkar er kannski einfaldast að setja upp ákveðið dæmi.

Hér verður miðað við að íslensku raforkufyrirtækin myndu á næstu tíu árum eða svo auka raforkuframleiðsluna um 5 TWst. Fyrst yrði þó tekin formleg ákvörðun um lagningu rafstrengs milli Evrópu og Íslands (sem gæti flutt sambærilegt raforkumagn) og lokið við alla nauðsynlega samninga þar að lútandi. Þessi orkunýtingarstefna væri sem sagt hluti af nákvæmri áætlun sem hefði verðmætasköpun og aukna framleiðni að leiðarljósi.

Þær forsendur um raforkuverð og hagnaðarskiptingu sem hér verður miðað við eru hinar sömu og ýmsir aðrir greinendur hafa stuðst við. Í því sambandi má vísa til nýlegrar skýrslu McKinsey, en einnig er horft til verðlags, reglna og orkustefnu ríkja í vestanverðri Evrópu.

Helstu forsendurnar sem miðað er við eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi að kostnaður við að byggja og framleiða raforku frá nýju vindorkuveri út af ströndinni í vestanverðri Evrópu sé sem nemur u.þ.b. 150 USD/MWst (og slíkum vindorkuverum sé tryggt lágmarksverð sem þessu nemur). Í öðru lagi að kostnaður við nýja raforkuframleiðslu á Íslandi sé um 40 USD/MWst (þá er einkum litið til jarðvarma; ennþá er sennilega unnt að virkja eitthvað vatnsafl hér umtalsvert ódýrara). Og í þriðja lagi að flutningskostnaður um sæstreng yrði nálægt 40 USD/MWst.

Þar með væri kostnaður við íslenska raforku komin til Evrópu nálægt því að vera 80 USD/MWst (þess má geta að þessi kostnaður yrði sennilega fremur minni en meiri en umrædd upphæð). Það er um 70 USD/MWst ódýrara en að framleiða raforkuna með nýju evrópsku vindorkuveri, eins og mörg lönd í vestanverðri Evrópu stefna að að gera í stórum stíl. Íslenska raforkuframleiðslan myndar þess vegna mismun eða hagnað, miðað við evrópsku vindorkuna, sem nemur um 70 USD/MWst. Og það er vel raunhæft að semja megi um að íslenska raforkan komi inn á evrópskan orkumarkað á sambærilegum kjörum eins og vindorkan.

Tekið skal fram að ef t.d. væri miðað við þær reglur sem gilda í sumum löndum Evrópu um nýja sólarorku eða nýja jarðvarmaorku væri munurinn (hagnaðurinn) ennþá meiri íslensku raforkunni í vil. En sá sem þetta ritar álítur skynsamlegra og varfærnara að miða við vindorkuna. Af því hún er sú tegund endurnýjanlegrar orku sem mörg Evrópuríkin leggja mesta áherslu á og nota þess vegna oft sem viðmið.

Skemmst er frá því að segja að miðað við ofangreindar forsendur má ætla að umrædd raforkusala á 5 TWst frá Íslandi til Evrópu myndi skila rúmlega 330 milljónum USD í hreinan hagnað. Þá er bæði búið að draga frá raforkutap um strenginn og að sjálfsögðu líka kostnað við flutning um strenginn. Síðast en ekki síst er hér líka búið að draga frá fjármagnskostnað vegna þeirra nýju virkjana sem þyrfti að byggja hér til að hafa 5 TWst til ráðstöfunar til útflutnings. Nettóhagnaðurinn er um 330 milljónir USD.

330 milljónir USD til skiptanna 

Þarna yrði sem sagt til hagnaður upp á um 330 milljónir USD. Ef umrædd raforka yrði aftur á móti seld til nýrrar stóriðju hér á íslandi má gera ráð fyrir að hagnaðurinn yrði í mesta lagi fáeinar milljónir USD (tekjurnar þar yrðu nálægt 125 milljónum USD miðað við raforkuverð upp á 25 USD/MWst, en það er sennilega nálægt hámarksverði sem ný stóriðja eins og áliðnaður væri tilbúin að greiða og kann að vera unnt að útvega með ódýrasta vatnsaflinu). Það er því ekki fjarri lagi að tilvist sæstrengsins væri að skila viðbótarhagnaði sem væri nálægt 320 milljónum USD umfram það sem væri ef þessi raforka færi til nýrrar stóriðju.

Til samanburðar má hafa í huga að á síðasta ári (2012) voru allar tekjur Landsvirkjunar vegna raforkusölu um 340 milljónir USD og það vegna sölu á um rúmlega 12 Twst af raforku. Raforkuframleiðsla og -sala um sæstreng, sem næmi um 5 TWst, gæti sem sagt skilað nýjum hagnaði sem væri nánast jafn mikill eins og heildartekjurnar eru af allri raforkuvinnslu Landsvirkjunar upp á meira en 12 TWst.

Hreinn hagnaður til Íslands gæti verið 20 milljarðar ISK árlega 

Ekki er rökrétt að allur umræddur hagnaður (330 milljónir USD) félli í skaut íslensku raforkuframleiðendunum. Til að verkefnið sé framkvæmanlegt er nauðsynlegt að tryggja að þau verð og viðmiðanir sem gilda á viðkomandi evrópsku markaðssvæði nái til íslensku raforkunnar. Til að stuðla að slíkum samningum væri eðlilegt að hluti hagnaðarins rynni til evrópsku samstarfsaðilanna. Að öðrum kosti væri varla sérstaklega áhugavert fyrir t.d. bresk stjórnvöld að íslensk orka kæmi inn á markaðinn þar (þau gætu þá allt eins einblínt alfarið á uppbyggingu vindorku og annarra kosta heimafyrir).

Þarna er sem sagt mikilvægt að gæta að hinum ýmsu hagsmunum til að tryggja að verkefnið sé framkvæmanlegt og það með sem allra minnstri áhættu. Hugsanlega má gera ráð fyrir að a.m.k. helmingur hagnaðarins félli til íslensku raforkuframleiðendanna. Í ofangreindu dæmi myndi það merkja að árlegur hagnaður íslensku orkufyrirtækjanna vegna sölu á 5 TWst árlega yrði að lágmarki um 165 milljónir USD. Hagnaður íslensku raforkufyrirtækjanna af sölu á þessum 5 TWst yrði sem sagt um 20 milljarðar ISK eða jafnvel meira.

Samanburður við áliðnaðinn á Íslandi er athyglisverður

Það getur verið fróðlegt að setja ofangreinda tölu (20 milljarða ISK hagnaðarauka íslensku raforkufyrirtækjanna) í samhengi við áliðnaðinn á Íslandi. Þá er eðlilegt að miða við upplýsingar frá Samáli (sem eru samtök álfyrirtækjanna hér) og ársreikninga álfyrirtækjanna.

Samkvæmt Samáli greiddi áliðnaðurinn rétt tæpa 5 milljarða ISK í opinber gjöld á síðasta ári (2012). Öll laun og launatengd gjöld sem áliðnaðurinn greiddi það ár voru um 14,5 milljarðar ISK.

Umræddur árlegur aukahagnaður íslensku raforkufyrirtækjanna vegna útflutnings á 5 TWst sem hér er álitinn raunhæfur (20 milljarðar ISK) er því um fjórföld sú upphæð sem álfyrirtækin þrjú greiddu í opinber gjöld árið 2012. Og þetta er um 40% hærri upphæð en öll laun og launatengd gjöld sem álfyrirtækin greiddu umrætt ár. Þessi aukahagnaður er sem sagt umtalsverð upphæð.

Til að gera samanburðinn ennþá áþreifanlegri getur verið fróðlegt að bera þennan aukahagnað saman við t.d. öll laun og launatengd gjöld stærsta álversins hér; álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Þá sést að umræddur aukahagnaður upp á 20 milljarða ISK (sem er sá hagnaður sem íslensku raforkufyrirtækin myndu geta haft af 5 TWst raforkusölu til Evrópu) er um fjórföld sú upphæð sem álver Alcoa á Reyðarfirði greiðir árlega í laun og launatengd gjöld. Þetta má sjá af síðasta ársreikning Alcoa Fjarðaáls, sem er vegna rekstrarársins 2011.

Áliðnaðurinn hér yrði áfram mikilvæg og öflug atvinnugrein

Með þessum samanburði er sá sem þetta skrifar ekki með nokkrum hætti að gera lítið úr áliðnaðinum. Enda myndi sá iðnaður starfa áfram í samræmi við þá samninga sem þar hafa verið gerðir. Og áfram vera til þess fallin að stuðla að margskonar verðmætasköpun í atvinnulífinu og uppbyggingu á ýmissi þjónustu við þann iðnað. Þar er um að ræða mikilvægan hluta af íslensku efnahagslífi, sem mun efalítið blómstra áfram.

Höfum líka í huga að þó svo við flyttum út raforku sem næmi um 5 TWst á ári væri áliðnaðurinn ennþá lang umsvifamestur í notkun á íslenskri raforku. Hlutfall áliðnaðarins þar er nú hátt í 75% (árleg raforkunotkun áliðnaðarins er um 12,5 TWst). Það hlutfall yrði ennþá mjög hátt þó svo 5 TWst bættust hér við árlega raforkuframleiðslu og ekkert af því færi til áliðnaðar. Þar með yrði hlutfall álveranna í raforkunotkuninni um 55%. Sem væri sennilega skynsamleg þróun, því það er varla heppilegt að íslenskur orkuiðnaður sé eða verði um of háður einni atvinnugrein.

Raforkuverð til almennings á Íslandi þyrfti ekki að hækka

Í umræðu um þessi mál hefur sá sem þetta skrifar oft heyrt sjónarmið þess efnis að svona tenging við evrópskan raforkumarkað sé til þess fallin að snarhækka raforkuverð hér innanlands. Og draga þar með kraft úr íslenskum fyrirtækjum og skerða kaupmátt okkar landsmanna.

Þessar áhyggjur eru kannski skiljanlegar, en eru sennilega óþarfar. Ein rök fyrir því má t.d. sjá svart á hvítu á vef Orkuveitu Reykjavíkur. Mjög stór hluti af rafmagnsreikningnum er kostnaður vegna flutnings (Landsnet) og dreifingar (OR) auk skatta (vsk). Sjálft raforkuverðið er ekki nema innan við helmingur af heildarverðinu. Og aðeins rétt rúmlega þriðjungur af öllum þeim kostnaði sem birtist okkur á rafmagnsreikningnum. Þess vegna myndi jafnvel umtalsverð hækkun á heildsöluverð á raforku hér hafa takmörkuð áhrif á rafmagnsreikninginn. Þau áhrif mætti að auki færa til baka með ýmsum hætti ef það væri talið æskilegt, t.d. með lækkun á virðisaukaskatti á raforku. Ýmis svipuð úrræði væru möguleg gagnvart fyrirtækjunum.

Það er reyndar mögulegt að raforkuverð til almennings og fyrirtækja hér myndi alls ekki hækka neitt eða nánast ekki neitt þrátt fyrir kapal milli Evrópu og Íslands. Mögulega yrðu samningar um raforkusöluna um sæstrenginn með þeim hætti að þar yrði samið um tiltekið magn sem færi langt með að fullnýta flutningsgetu strengsins. Við þær aðstæður myndi raforkumarkaðurinn hér innanlands áfram verða afar líkur því sem verið hefur. Sem sagt verða fyrir litlum sem engum verðáhrifum frá strengnum.

Þarna er vissulega uppi nokkur óvissa um verðþróunina hér. Að sjálfsögðu yrði nákvæm athugun á umræddu álitamáli hluti af þeirri greiningarvinnu sem ráðist yrði í áður en ákvörðun yrði tekin um að byggja upp tengingu við annan raforkumarkað. En í fljótu bragði virðist ekki ástæða til að ætla að sæstrengur af þessu tagi myndi hækka raforkuverð hér að ráði. Fyrir nútímalegt samfélag eins og hið íslenska, þar sem frjáls viðskipti eru almennt álitin þjóðfélagslega hagkvæm, er reyndar vandséð að það sé æskilegt fyrir okkur að halda í hinn aflokaða og þar með þrönga og samkeppnishamlandi íslenska raforkumarkað.

Margvísleg jákvæð áhrif á íslenskt samfélag

Rétt er að útskýra nánar hvernig áhrif útflutningur á takmökuðum hluta íslensku raforkuframleiðslunnar gæti haft á íslenskt samfélag. Miðað við 5 TWst gæti hagnaður af sölunni orðið nálægt 20 milljörðum ISK á ári, eins og áður kom fram, og jafnvel meiri. Þetta myndi gjörbreyta rekstrarumhverfinu í raforkuframleiðslu á Íslandi, en gæti líka haft margvísleg önnur jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.

Það er áhugavert að velta fyrir sér hvað gera ætti við þennan hagnað sem þarna myndi bætast við á hverju ári sem arður inn í íslenskt samfélag. Þessa fjárhæð mætti nýta með ýmsum hætti. Þar væri hægt að setja í forgang að greiða upp skuldir Landsvirkjunar. Eða að þessi hagnaður rynni sem skattar og arður til ríkisins og annarra eigenda raforkufyrirtækjanna hér, sem fyrst og fremst eru opinberir aðilar. Þann ávinning mætti nota til að lækka skuldir ríkissjóðs og sveitarfélaga, lækka skatta á almenning og fyrirtæki og/eða til framkvæmda í t.d. heilbrigðis- og menntamálum.

Áhugaverð tækifæri fyrir nærsamfélög virkjana

Þar að auki má hugsa sér að gerðar yrðu lagabreytingar sem miðuðu að því að nærsamfélög virkjananna myndu sérstaklega fá að njóta hluta þessa hagnaðar. Í því sambandi er gott að hafa í huga það sem nefnt var hér að ofan, að allar launagreiðslur álvers Alcoa á Reyðarfirði nema um 5 milljörðum ISK á ári.

Segjum sem svo að hér yrði komið á skatta- eða auðlindalöggjöf sem tryggði að nærsamfélög virkjana fengju t.d. fjórðung af þeim hagnaði sem útflutningur á raforkunni myndi skapa. Þar væri um að ræða fjárhæð sem væri fjórðungur af um 20 milljörðum ISK eða sem nemur 5 milljörðum ISK. Þetta er nánast sama upphæð eins á öll laun og launatengd gjöld sem álver Alcoa við Reyðarfjörð greiðir. Þetta væri líka nánast sama upphæð og öll þau opinberu gjöld sem allur áliðnaðurinn hér greiddi á liðnu ári.

Þessi leið myndi bæði geta þjónað hagsmunum nærsamfélaga virkjana og alls almennings. Þarna má líka sjá fyrir sér áhugaverðan valmöguleika, sem yrði til þegar nærsamfélög virkjana standa frammi fyrir vali á því hvort orkan færi til áliðnaðar (eða annarrar ámóta stóriðju) eða til annarrar starfsemi.

Hvað myndu sveitarstjórnarmenn í viðkomandi nærsamfélögum virkjana velja? Hvort væri áhugaverðara að sjá störf verða til í álveri (sem kannski væri staðsett langt utan nærsamfélaga virkjunarinnar) eða að sjá árlegan arð upp á 5 milljarða ISK? Í formi beinharðra peninga sem unnt yrði að nota til góðra verka innan sveitarfélaganna á áhrifasvæði virkjunarinnar, t.d. byggja upp sterkari innviði og laða þannig margskonar atvinnulíf og fólk að sveitarfélögunum. Rétt er að leggja áherslu á að þetta er alls ekki út í bláinn; sjá má fyrirkomulag svipað þessu hjá nágrönnum okkar í Noregi.

Það er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig svona fyrirkomulag myndi hafa áhrif á þær áherslur sem íbúar og fólk í sveitarstjórnum í nærsamfélögum virkjana vill sjá hjá opinberu orkufyrirtækjunum. Þarna væri kannski kominn jákvæður hvati fyrir sveitarfélögin til að þrýsta á að opinberu orkufyrirtækin hér hámarki verðmætasköpun í raforkuframleiðslunni? Fremur en að horfa fyrst og fremst til þess eins að fá virkjun og/eða stóriðju í heimahéraðið – án tillits til þess hvaða raforkuverð þar er samið um. Hætt er við að sá óarðbæri hvati verði áfram til staðar ef ekki verður hér hugað að möguleikum til að auka verulega framleiðni í orkugeiranum.

Eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar

Hér að ofan má sjá ýmsar spurningar – sem kunna að kalla fram misjöfn svör eftir því hver spurður er. En vonandi sýnir umfjöllunin það að aukin verðmætasköpun og framleiðni í íslensku raforkuvinnslunni er afar áhugavert tækifæri og gæti beint okkur inn á jákvæðar brautir. Þá er ekki bara átt við beinan fjárhagslegan ágóða, heldur líka meira val um það hvernig samfélag við viljum byggja upp víðsvegar um landið.

Nú í aðdraganda Alþingiskosninganna og í framhaldi af niðurstöðu þeirra hefur sumum orðið tíðrætt um nauðsyn þess „að koma hjólum atvinnulífsins í gang“ og að hér sé áríðandi að „skapa störf“. Í þessari umræðu er gjarnan talað um að þarna skipti nýjar stóriðjuframkvæmdir hvað mestu máli. Og að samhliða þeim eigi orkufyrirtækin hér að ráðast í virkjunarframkvæmdir til að útvega stóriðjunni nauðsynlega orku. Í þessari umræðu ber jafnvel á því að sjálft söluverðið á raforkunni verði nánast aukaatriði.

Slík framsetning er visst áhyggjuefni. Hugsanaháttur af því tagi getur aftrað því að við setjum raunverulega verðmætasköpun í forgang. Hverfum frá svoleiðis framsetningu og setjum það í forgang að orkuauðlindirnar skapi okkur sem allra mest verðmæti. Það hvernig við nýtum orkuauðlindirnar er sennilega eitt allra stærsta hagsmunamál þjóðarinnar og mikilvægt að við veltum þessu vandlega fyrir okkur.                                      

Fleira áhugavert: