Verður lagning hitaveitu/ljósleiðara stöðvuð?
„Þetta kemur okkur rosalega á óvart,“ segir Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, um ósk landeigenda um að stöðvuð verði lagning hitaveitu og ljósleiðara í Miðfirði.
Eigendur jarðarinnar Barðs telja að framkvæmdaleyfi sé ekki fyrir hendi og kölluðu þeir lögregluna á staðinn á sunnudaginn. „Við erum slegin yfir þessum viðbrögðum en það þarf svo sannarlega að ræða við þessa landeigendur,“ bætir hún við en ekki er föst búseta á bænum Barði.
Lögreglan á Blönduósi staðfestir í samtali við mbl.is að hún hafi komið að Barði á sunnudaginn að beiðni landeigenda, tekið niður upplýsingar og bókað málið. Engin kæra hefur verið lögð fram. Málið hefur verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar.
Guðný Hrund segir að leyfið hafi verið gefið út með fyrirvara um umsögn Minjastofnunar og annarra aðila. „Við töldum okkur hafa þeirra leyfi,“ segir hún en upphaflega hélt sveitarfélagið að landssvæðið þar sem leggja á hitaveituna og ljósleiðarann hafi verið í eigu Svertingsstaða.
Eftir að sá misskilningur hafði verið leiðréttur fékk sveitarfélagið samþykki fyrir legu lagnarinnar, að sögn Guðnýjar Hrundar, og breytti einhverjum hlutum að ósk landeigenda. „Við gerðum breytingar að þeirra ósk og fengum staðfestingu og samþykki.“
Stöðvun framkvæmda hefur því líka áhrif á bæina Svertingsstaði og Sanda.
Búið er að leggja stál við bæina en eftir á að plægja plast heim að bæjunum út frá stállögninni.
120 bæir á þremur árum
Guðný segir að Minjastofnun hafi verið búin að gefa umsögn sína um framkvæmdirnar, auk þess sem byggingafulltrúi hafi skoðað lagnir með tilliti til skipulags.
„Að sjálfsögðu þurfum við að taka upp samtalið miðað við það sem er að gerast núna því þetta kemur verulega aftan að okkur, í lok þriggja ára framkvæmda. Við viljum passa upp á náttúruna og gera þetta eins vel og við getum.“
Framkvæmdir hafa staðið yfir við lagningu hitaveitu og ljósleiðara við um 120 bæi í Húnaþingi vestra á síðastliðnum þremur árum. Guðný segir að hingað til hafi allt gengið vel. „Það er eitt og annað sem við höfum þurft að ræða út af þessum framkvæmdum en við höfum reynt að gera þetta í sátt og samlyndi við íbúa. Sveitarfélagið er að leggja þetta og við teljum þetta vera velferðarmál.“