Var hleypt úr lóninu með ólögmætum hætti?
Maí 2016
Orkustofnun kallar eftir andmælum fyrirtækisins Orku náttúrunnar vegna meint brots á ákvæðum vatnalaga og umhverfisskaða í Andakílsá af hennar völdum, við tæmingu inntakslóns Andakílsárvirkjunar. Það er niðurstaða Orkustofnunar að Orka náttúrunnar „hafi hleypt úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar um botnlokur með ólögmætum hætti og valdið með þeim tjóni á lífríki í Andakílsá og takmarkað veiðimöguleika,“ segir á vef stofnunarinnar, en lónið mun hafa verið tæmt vegna viðhaldsvinnu. Orkustofnun barst erindi vegna meints umhverfisskaða þann 19. maí síðastliðinn.
Stofnunin tekur þó hvorki afstöðu til mögulegs tjóns né til skaðabóta, eftir atvikum landeigenda og/eða Veiðifélags Andakílsár.
Sérfræðingur frá Hafrannsóknarstofnun var fenginn að ánni til að meta aðstæður, en setefni á botni lónsins grófst meðfram ánni og dreifðist um hana neðan við foss. Talið er að tjón á seiðum og hafi orðið mikið og að veiðistaðir hafi spillst, að kemur fram í bréfi Orkustofnunar til Orku náttúrunnar.
Orkustofnun mælir fyrir um að Orka náttúrunnar færi umhverfi Andakílsár til fyrra horfs, eins og kostur er, á sinn kostnað og leggur áherslu á að áætlun um úrbætur verði skilað til Orkustofnunar eigi síðar en 30 júní n.k. Orkustofnun mun taka afstöðu til þeirrar áætlunar í samráði við Fiskistofu.
Brot gegn ákvæðum vatnalaga geta varðað sektum. Í ljósi alvarleika meintra brota, kemur til álita að beita úrræðinu, en Orkustofnun frestar ákvörðun sinni þar að lútandi, þar til andmæli Orku náttúrunnar liggja fyrir. Fyrirtækið mun hafa brugðist vel við athugasemdum og byrjað er að undirbúa fyllingu lónsins fyrr en áætlað var.
Það breytir því hinsvegar ekki að lítið verður væntanlega veitt í ánni í sumar, líkt og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins í síðustu viku. „Ég get ekki betur séð en ekkert verði veitt í þessari á í sumar. Þótt eitthvað af seiðum lifi vitum við ekki hvort þau hafa æti og það tekur langan tíma fyrir ána að jafna sig,“ sagði Ragnhildur Helga Jónsdóttir, umhverfisfræðingur í Ausu í Andakíl og stjórnarmaður í Veiðifélagi Andakílsár, í samtali við blaðið.