Fiskleldi – Mikil aukning til framtíðar?

Heimild:  

 

Mars 2017

Burðarþol þeirra sjö fjarða og flóa sem Haf­rann­sókna­stofn­un hef­ur þegar metið er í heild­ina 125 þúsund tonn. Er þetta 3-4 sinn­um það magn sem fisk­eld­is­fyr­ir­tæk­in hafa leyfi til að ala í sjókví­um í þess­um fjörðum. Þau hafa hins veg­ar mik­il áform um aukn­ingu í framtíðinni. Eft­ir er að meta nokkra firði þannig að burðarþol þeirra svæða sem opin eru fyr­ir fisk­eldi gæti nálg­ast 200 þúsund tonn.

Þau fimm fyr­ir­tæki sem eru stærst í sjókvía­eld­inu hafa sótt um aukn­ingu til viðbót­ar nú­ver­andi leyf­um þannig að heild­ar­fram­leiðslan verði 185 þúsund tonn. Það er í fjörðum sem hafa fengið burðarþols­mat og fjörðum sem ekki er búið að meta. Ekki er víst að burðarþols­matið tak­marki áformin, þegar all­ir firðir á þeim svæðum sem opin eru til sjókvía­eld­is hafa verið met­in og matið end­ur­skoðað í ljósi reynsl­unn­ar í þeim fjörðum sem hafa reiknað burðarþol.

 

Horft til framtíðar

Eins og sést á Íslands­kort­inu hér að ofan er sjókvía­eldi bannað við Vest­ur­land, meg­in­hluta Norður­lands og norðan­verða Aust­f­irði. Það var gert fyr­ir meira en ára­tug til vernd­ar nátt­úru­leg­um laxa­stofn­um í helstu laxveiðiám lands­ins. Sjókvía­eldið bygg­ist því mest upp á Vest­fjörðum og Aust­fjörðum og áform eru einnig um eldi í Eyjaf­irði.

Jafn­vel á þeim svæðum sem opin eru til sjókvía­eld­is þarf að full­nægja ýms­um skil­yrðum. Stöðvarn­ar þurfa að fara í gegn um um­hverf­is­mat og fá síðan starfs- og rekstr­ar­leyfi hjá viðkom­andi stofn­un­um. End­an­leg leyfi fást ekki fyrr en Haf­rann­sókna­stofn­un hef­ur reiknað út burðarþol viðkom­andi fjarðar.

Starf­semi stöðvanna bygg­ist upp á allt öðrum hraða en um­sókn­ir um aukn­ingu gefa til kynna. Það tek­ur lang­an tíma að auka eldið eins og sést á því að fyr­ir­tækið sem hraðast hef­ur byggst upp í sjókvía­eldi er komið með um 6 þúsund tonna fram­leiðslu á ári eft­ir sjö ára starf. For­send­an fyr­ir um­sókn­um um stækk­un er áhugi eig­enda á að koma stöðvun­um í sem hag­kvæm­asta stærð. Lág­markið er talið 10 þúsund tonn á ári en stöðvarn­ar stefna að 15-20 þúsund tonna ein­ing­um. Und­ir­bún­ing­ur tek­ur lang­an tíma. Það eina sem hægt er að ráða í áætlan­ir um um­fangs­mikla aukn­ingu er að fyr­ir­tæk­in horfa langt fram í tím­ann.

 

Mati ekki lokið
Tálknafjörður. Fiskeldi er orðið stóriðjan á sunnanverðum Vestfjörðum.

Tálkna­fjörður. Fisk­eldi er orðið stóriðjan á sunn­an­verðum Vest­fjörðum. mbl.is/​Guðlaug­ur Al­berts­son

Haf­rann­sókna­stofn­un hef­ur metið burðarþol Pat­reks- og Tálkna­fjarðar og Pat­reks­fjarðarflóa í sam­eig­in­legu mati, Arn­ar­fjarðar, Dýra­fjarðar, Ísa­fjarðar­djúps, Reyðarfjarðar, Fá­skrúðsfjarðar og Beru­fjarðar. Eins og áður seg­ir er heild­ar­burðarmat þess­ara sjö fjarða sam­tals 125 þúsund tonn. Stofn­un­in er nú að meta Seyðis­fjörð og Stöðvar­fjörð og framund­an er að meta Norð- og Mjóa­fjörð og Norðfjarðarflóa, sem fara í sam­eig­in­legt mat, og Eyja­fjarðar. Síðar verður vænt­an­lega lagt mat á Önund­ar­fjörð, Jök­ulf­irði og hugs­an­lega fleiri firði.

Óábyrgt er að áætla hvað þess­ir firðir bera en það verður vænt­an­lega vel inn­an við 100 þúsund tonn til viðbót­ar því sem metið hef­ur verið. Heild­ar­burðarþols­mat á leyfi­leg­um fisk­eld­is­svæðum gæti því orðið um 200 þúsund tonn, þegar upp er staðið. Heild­armatið dekk­ar öll þau áform sem nú eru uppi en þó er ekki víst að burðarþol og um­sókn­ir um leyfi í ein­stök­um fjörðum falli sam­an.

Þetta er all­nokkuð þegar litið er til þeirra 37 þúsund tonna sem veitt hafa verið leyfi fyr­ir og enn frek­ar þegar litið er til fram­leiðslu á laxi og regn­bogasil­ungi sem var aðeins rúm 10 þúsund tonn á síðasta ári. Hösk­uld­ur Stein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­bands fisk­eld­is­stöðva, tel­ur raun­hæft að fram­leiðslan hér við land geti orðið 100-120 þúsund tonn á ári. Til þess að það geti orðið þurfi margt að ganga upp.

Héðinn Valdi­mars­son, sviðsstjóri um­hverf­is­sviðs Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, seg­ir að vel geti verið að ýms­ir aðrir þætt­ir en burðarþolið verði tak­mark­andi fyr­ir vöxt sjókvía­eld­is og nefn­ir fjar­lægðar­tak­mörk á milli stöðva, sjúk­dóma og laxal­ús. Því má bæta við orð hans að seiðafram­leiðslan er að verða flösku­háls í upp­bygg­ing­unni. Verið er að stækka seiðastöðvar og und­ir­búa nýj­ar en fyr­ir­tæk­in sem eru með viðamestu áformin þurfa enn frek­ari aðstöðu til seiðafram­leiðslu.

Fleira áhugavert: