Eru sterk rök fyrir útflutningi raforku?
Rætt var við Ketil Sigurjónsson í Speglinum
Október 2015
Það munu vera um 60 ár frá því byrjað var að ræða um að leggja sæstreng til Bretlands. Umræðan hefur skotið upp kollinum af og til. Nú virðist vera komið að því að ræða málið til enda því Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og David Cameron forsætisráðherra Bretlands samþykktu í vikunni að koma á fót vinnuhópi til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sá síðarnefndi er áhugasamur því að á hans bæ sárvantar rafmagn. En það eru skiptar skoðanir. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Öskju energy partners, er einn þeirra sem hefur talað fyrir því að þessi kostur verði kannaður til hlítar. Hann segir að sæstrengur geti verið mjög áhugavert tækifæri fyrir Íslendinga.
„Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að núna er tæknin orðin þannig að allt bendir allt til þess að það sé gerlegt að leggja streng milli Íslands og Bretlands. Síðan skiptir verulegu máli að Bretar hafa samþykkt löggjöf um að þeir greiða mjög hátt verð fyrir aðgang að nýrri raforku. Hún gerir það að verkum nú er miklu áhugaverðara tækifæri fyrir Ísland að selja þeim orku því sennilega getum við fengið miklu hærra orkuverð en var í boði áður,“ segir Ketill.
Ketill líkir olíuútflutningi Norðmanna við raforkuútflutning Íslendinga. Í raun sé rökréttara að Íslendingar flytji út rafmagn en Norðmenn út olíu, því hún sé óendurnýjanleg.
„Raforkan er hins vegar endurnýjanleg auðlind hér á landi. Þess vegna erum við ekki að taka af auðlindinni með því að flytja hana út. Þess vegna eru en þá sterkari rök fyrir því að Íslendingar flytji út raforku heldur en að Norðmenn flytji út olíu. En vissulega eru rökin sterk í báðum tilfellum fyrir útflutningi,“ segir Ketill Sigurjónsson.
Heimild: RÚV