Ábyrg nýting auðlinda

Heimild:  

 

Maí 2015

Björgvin Skúli Sigurðsson

Hugtakið „ábyrg auðlindanýting“ kemur tíðum upp í umræðu um orkumál án þess að ljóst sé hvað átt er við með því. Skoðum forsendur og afleiðingar ef við gefum okkur að ábyrga auðlindanýtingu megi skilgreina: 1) farið er vel með auðlindina, 2) tekjur af nýtingu hennar eru hámarkaðar og 3) kostnaði nýtingar er haldið í lágmarki.

Góð meðferð auðlindar merkir að viðhalda ásýnd hennar og eðli eins og hægt er þannig að komandi kynslóðir eigi þess kost að nýta hana áfram með svipuðum hætti eða njóta með öðrum hætti. Dæmi um val kynslóða að halda áfram ábyrgri nýtingu auðlinda í samvist við þróun annarrar iðju eru Elliðaár (virkjuð frá 1921, starfrækt fram á þessa öld og sett á verndarskrá fyrir 10 árum) og Sogið (virkjuð frá 1937).
Grunnkrafa um tekjumyndun er að tekjurnar standi undir kostnaði auðlindanýtingar að meðtalinni auðlindarentu og ávöxtunarkröfu eigenda í víðum skilningi, þ.m.t. íslensku þjóðarinnar. Að auki er reynt að hámarka tekjur umfram kostnað.
Kostnaður gæti breyst yfir tíma og ber að lágmarka hann þó að í engu sé gefið eftir í kröfum um góða meðferð auðlindar. Afleiðingar ábyrgrar auðlindanýtingar eru að fyrirtæki keppast við að hámarka verð og ná fram bættri nýtingu, eins í orkuvinnslu og sjávarútvegi. Íslendingar hafa mikla hagsmuni af að vel takist til því grunnstoðir efnahagslífsins byggja á auðlindum okkar. Íslensk heimili nota einungis brot af auðlindum landsins og því til mikils að vinna að hámarka verðmætasköpun af nýtingu þeirra.

Ábyrgri auðlindanýtingu fylgir líka sú krafa að gera sífellt betur í dag en í gær. Við eigum öll að hugsa hvernig við getum dregið úr orkunotkun og nýtt á hagkvæmari hátt. Orkufyrirtækin eiga að vera undir þrýstingi að ná meiri orku úr auðlindum sem þau hafa fengið aðgang að, bæði með betri tækni og hugvitsamlegri nýtingarleiðum.

Framtíðarsýn Íslendinga í orkumálum á að taka mið af ábyrgri auðlindanýtingu. Hér er auðvelt að líta til frænda okkar í Noregi en stefnumótun þeirra í auðlindamálum er jafnan fyrirmynd annarra þjóða. Landsvirkjun heldur ársfund sinn þriðjudaginn 5. maí nk. þar sem eigendum fyrirtækisins – íslensku þjóðinni – gefst tækifæri á að heyra um áherslur þess og horfur til framtíðar.

 

Fleira áhugavert: