Blautþurrkur á ströndum Bretlands
Apríl 2017
Gríðarlegum fjölda blautþurrka skolar nú upp að ströndum Bretlands. Þurrkunum er sturtað niður í klósettið og ógna þær lífríki sjávar, áa og vatna.
Þetta kemur fram í ítarlegri frétt um málið á vef Sky-fréttastofunnar.
Umhverfisverndarsamtök hafa varað við sprengingu í notkun blautþurrka sem eru mjög lengi að brotna niður í náttúrunni. Sé þeim sturtað í klósettið enda þær í ám og sjó.
Í grein Sky er m.a. rætt við Debbie Leach frá umhverfisverndarsamtökunum Thames 21 en þau standa nú að vitundarvakningu og vonast til þess að geta náð eyrum og augum almennings. Veitur hér á Íslandi hafa einnig áhyggjur af þessu og í herferð þeirra gegn blautþurrkum segir að þær séu martröð í pípunum.
Leach er ekkert að skafa utan af því þegar hún fjallar um blautþurrkur í breskum ám og segir þær „algjörlega ógeðslegar“.
„Þarna má finna lög á lög ofan af blautþurrkum og þær verða hér í mjög langan tíma því það er plast í þeim sem er lengi að brotna niður í náttúrunni,“ segir hún. Hún segir að rannsókn sýni að sjö af hverjum tíu flyðrum í Thames-ánni sé með plast í maga sínum.
„Við notum sífellt meira af blautþurrkum í okkar daglega lífi og við við sjáum það á ánni Thames. Þetta er algjörlega ónauðsynlegt. Ekki henda þeim í klósettið.“
Blautþurrkurnar eru ekki aðeins hættulegar dýralífi, þær eru lýti í umhverfinu og hafa auk þess breytt ásýnd árbakka og fjara, því magnið er svo mikið.