Vatnstjón Háskóla Íslands – Bilun í grunnvatnsdælum?
2.Maí 2017
Gólfefni ónýt og húsbúnaður skemmdur
Deildarstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands telur að tugþúsundir lítra af vatni hafi verið í stofunum tveimur þar sem vatnstjón varð í skólanum í gær þegar að lekinn uppgötvaðist. Í annarri stofunni var 30 sm vatn og aðeins minna í hinni.
Um er að ræða stofur 102 og 105 sem taka báðar 180 manns í sæti. Próf sem áttu að fara fram í stofunum í dag voru flutt í húsnæði Háskóla Íslands við Stakkahlíð.
„Núna er verið að dæla út raka og þurrka stofunnar. Öllu vatni var dælt út í gærkvöldi og í nótt,“ segir Vilhjálmur Pálmason, deildarstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands í samtali við mbl.is.
Ekki er búið að meta skemmdirnar en að sögn Vilhjálms er gólfefnið í stofunum ónýtt og einhver húsbúnaður skemmdur ásamt tölvubúnaði.
Vilhjálmur telur að það hafi verið bilun í grunnvatnsdælum sem olli lekanum en það er núna í skoðun. Hann telur að byrjað hafa verið að leka tæpum sólarhring áður en lekinn uppgötvaðist í gær.
1.Maí 2017
Mikill vatnsleki í Háskóla Íslands
Mikill vatnsleki kom upp í einni af byggingum Háskóla Íslands nú í kvöld. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út á áttunda tímanum í kvöld og var að sögn slökkviliðsmanna mikið vatn á gólfum byggingarinnar, sem er um 300 fermetrar og hýsir m.a. Háskólatorgið.
Ekki er vitað hvað olli vatnslekanum, né heldur hversu miklar skemmdir hafa orðið. Slökkviliðsmenn voru að störfum í Sæmundargarði við að dæla vatni til að ganga tíu í kvöld, en aðrir verktakar hafa nú tekið við dælistarfinu sem ekki er enn lokið.
„Þeir verða örugglega í alla nótt að dæla,“ sagði vaktmaður hjá slökkviliðinu í samtali við mbl.is um ellefuleytið.