Hlíðarendi Vatnsmýrinni – 77 milljarða króna framkvæmd
Apríl 2017
Uppsteypa á fyrstu íbúðarbyggingunni sem rís á Hlíðarenda í Vatnsmýri, er langt komin. Í byggingunni verða 40 íbúðir af ýmsum stærðum og gerðum.
Á Hlíðarenda eru nú framkvæmdir á fullu skriði, uppsteypu er að ljúka á fyrstu byggingunni, Hlíðarenda 4. Í byggingunni verða alls 40 íbúðir; 22 tveggja herbergja íbúðir, 15 þriggja herbergja og þrjár stærri íbúðir. Verið er að undirbúa framkvæmdir við uppbyggingu á lóð D á reitnum andspænis lóð B (þar sem nú er verið að byggja), en þar munu rísa byggingar með 140 íbúðum af öllum gerðum og stærðum. Framkvæmdir hefjast í sumar.
Á Hlíðarendasvæðinu verða 600 íbúðir samkvæmt samþykktu deiliskipulagi en þegar hafa verið gefin út framkvæmdaleyfi fyrir fyrsta áfanga byggðarinnar upp á 174 íbúðir. Að auki hyggjast Valsmenn byggja knatthús og fjölnota íþróttamannvirki á svæðinu. Talsvert af atvinnuhúsnæði verður á jarðhæðum í götuhæð á sumum reitanna.
Hlíðarendi verður svokölluð randbyggð með evrópsku yfirbragði eins og fólk þekkir t.d. frá Kaupmannahöfn. Húsin standa við göturnar en á milli þeirra verða fallegir og skjólríkir inngarðar. Mikill meirihluti íbúðanna, eða 420 af 600, verða tveggja og þriggja herbergja. Húsin verða öll með torfþaki en notast verður við umhverfisvænar lausnir á öllu byggingarsvæðinu og öllu vatni sem fellur á svæðið skilað til friðlandsins í Vatnsmýri og Tjarnarinnar með grænum ofanvatnslausnum. Þá verður flokkuðu sorpi safnað í svokallaða djúpgáma.
Við aðalgötur á svæðinu verða hjólastígar beggja vegna götunnar. Lýsing verður ennfremur umhverfisvæn á svæðinu. Alark arkitektar hanna byggingarnar á reitum B og D auk íþróttamannvirkja Vals en þeir teiknuðu einnig deiliskipulag Hlíðarenda. Fleiri arkitektastofur munu koma að hönnun bygginga á svæðinu.
Á Hlíðarenda verða einnig hótel og er m.a. nýtt hótel í 17.500 fermetra byggingu í undirbúningi á reit H.
Staðsetningin á Hlíðarenda er einstök enda eru tveir háskólar í nágrenninu og Landspítalinn sem er stærsti vinnustaður landsins.
Jarðvegsvinna við lagningu gatna og lagna í hverfinu er einnig í fullum gangi. Áætlanir gera ráð fyrir að uppbygging á Hlíðarenda muni kosta um 77 milljarða króna.
Ágúst 2014
Breytingin felur í sér fjölgun íbúða úr 360 í 600, fækkun fermetra atvinnuhúsnæðis á jarðhæðum reita C, D, E og F, nýrri borgargötu með aðkomu að íþróttasvæði bætt við milli knatthúss og lóðar A og gert ráð fyrir leikskóla í byggingu knatthúss. Auk þess sem fjölbreytileiki byggðar eykst með stöllun húshæða, sem áður voru einsleitari með 4 hæðum og inndreginni 5.hæð, en munu nú trappast frá 3-5 hæðum. Nánar um tillöguna vísast til kynningargagna.
Tillagan liggur frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, frá 27. júní til og með 8. ágúst 2014. Einnig má sjá tillöguna á heimasíðunni, www.reykjavik.is, undir skipulag í kynningu. Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega, til umhverfis – og skipulagsviðs, b.t. skipulagsfulltrúa, eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 8. ágúst 2014.