Drykkjarfontar Rómaborgar – Vatn alls staðar..
Febrúar 2014
Nasoni – vatn vatn vatn alls staðar!
Sem betur fer eru vatnskranar – eða “nasoni” staðsettir víða um Róm.
Ég las einhvers staðar að það væru um 2500 slíkir um alla Rómarborg.
Þetta er vatn sem kemur beint úr fjöllunum og er fullkomlega drykkjarhæft.
Það er meira að segja mjög gott! Miklu betra en vatn sem maður kaupir hér í plastflöskum.
Ekki bara að þetta sé mun umhverfisvænna en að kaupa endalausar flöskur af vatni, heldur er töluvert skemmtilegra að fylla bara á flöskuna sína í næsta brunni en eyða peningunum í vatn hjá götusölum.
Flöskuvatn hérna er frekar dýrt. Óþarflega dýrt. Allt frá 1 evru upp í 3 fyrir litla vatnsflösku, þannig að það er fljótt að safnast saman;)
Ég skil reyndar ekki af hverju vatn er svona dýrt hérna – sér í lagi þar sem það er svo víða hægt að nálgast það algjörlega ókeypis.
Á Grikklandi er vatn mjög ódýrt og eiginlega alls staðar á sama verði, hvort heldur er í búð, sjoppu eða á veitingastað. 50 cent lítil flaska og 1 evra stór.
Hugmyndin er held ég sú, að vatn sé svo mikil lífsnauðsyn að það eigi ekki að vera of dýrt.
Ég hef aldrei skilið af hverju vatn er eins dýrt og það er á Íslandi – á sama verði og gosdrykkir.
Nú þarf ekki að nota nein bragð eða litarefni í vatn – og ekki þarf að borga fyrir einkaleyfi eins og oft er með gosdrykki.
Ég var að velta því fyrir mér um daginn þegar ég skrapp aðeins út fyrir borgarmörkin heima, hvort það væri ekki ráð að setja upp vatnskrana við þjóðveginn og merkja þá, þannig að fólk gæti fyllt á flöskurnar sínar.
Það er nefnilega töluverð mengun af vatnsflöskum og ég velti því stundum fyrir mér hvað það fari eiginlega margar vatnsflöskur í ruslið í heiminum á hverjum einasta degi – það hlýtur að vera töluvert magn…
Bara það eitt að gera vatn aðgengilegra fyrir alla á þennan hátt, hlýtur því að spara helling af umhverfi;)
Sigurveig Káradóttir