Er hægt að banna konum að vera berar að ofan?

Heimild:  

.

Apríl 2017

Ekki er lagalegur grundvöllur fyrir því að sveitarfélög setji sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð. Þetta er álit Unnars Steins Bjarndals hæstaréttarlögmanns en Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar fékk hann til að fjalla um þetta mál. Ráðið tók undir niðurstöðu Unnars á fundi þess í febrúar og lagði til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að ekki verði farið gegn álitinu.

Tilefni álitsgerðarinnar var mikil umræða um það í samfélaginu hvort fyrir hendi séu reglur, skráðar eða óskráðar, sem gilda um klæðaburð sundlaugargesta. Fyrr á árinu kom upp atvik þar sem berbrjósta konu var vísað upp úr Jaðarsbakkalaug á Akranesi. Haft var eftir forstöðumanni íþróttamannvirkja á Akranesi að engar starfsreglur lægju fyrir um hvernig bregðast skyldi við slíkum atvikum. Í gildi væri óskráð meginregla í sveitarfélaginu um að konur þyrftu að klæðast bikinítopp.

Í kjölfarið sendu formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur og forstöðumaður sundlauga Reykjanesbæjar frá sér yfirlýsingu um að fólk væri velkomið í sundlaugar berbrjósta og eingöngu væru þær kröfur gerðar til gesta að þeir væru í viðurkenndum sundbuxum.

Eftir þetta ákvað Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar að óska eftir áliti um málið – annars vegar hvort það væru í gildi reglur, skráðar eða óskráðar, sem banna konum að fara berbrjósta í sundlaugar Reykjanesbæjar og hins vegar hvort það væri leyfilegt að setja slíkar reglur.

Stæðist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrár

Unnar fjallar ítarlega um málið í áliti sínu. Hann segir að engar reglur séu í gildi, hvorki skráðar né óskráðar, sem banni sundlaugargestum að fara berbrjósta í sundlaugar Reykjanesbæjar. Ef setja eigi slíkar reglur þurfi þær að vísa almennt til sjónarmiða um velsæmi og gildandi lagareglna.

Fram kemur í álitinu að opinberir aðilar eru bundnir af ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar, stjórnsýslulaga og Mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvæðum sem er ætlað að tryggja jafnræði fólks og jafnrétti. Það væri auðvelt að færa fyrir því rök að það stæðist ekki jafnræðisreglu að banna konum að vera berbrjósta í sundi.

Þá segir Unnar að barátta hóps kvenna sem hefur vakið mikla athygli á málstaðnum „Free the nipple“ falli undir tjáningarfrelsi þeirra. Tjáningarfrelsið er einnig verndað í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Því mælir hann gegn því að settar verði reglur sem banni konum að fara berbrjósta í sund.

Fleira áhugavert: