750 milljónir eru án nothæfs drykkjarvatns

Heimild:  ruv

 

vatn-a

Smella á mynd til að heyra umfjöllun

 

Mars 2015


vatn-bH
eimsbyggðin stendur frammi fyrir 40% vatnsskorti árið 2030 verði ekkert að gert en um 750 milljónir manna eru í dag án nothæfs drykkjarvatns. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um vatnsbúskap heimsins en víða var vitnað til hennar á sunnudaginn í tilefni af Degi vatnsins.

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, fjallaði um vatnið í pistli sínum í Samfélaginu á Rás 1.

Dagur vatnsins

Sunnudaginn 22. mars, var dagur vatnsins haldinn hátíðlegur víða um heim. Og síðastliðinn föstudag kom einmitt út skýrsla um vatn á vegum Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni „Water for a Sustainable World“ eða „Vatn fyrir sjálfbæran heim“, þar sem farið er yfir stöðu og horfur vatnsmála í heiminum.

Ein helsta niðurstaða umræddrar skýrslu er sú að heimsbyggðin standi frammi fyrir 40% vatnsskorti árið 2030 ef ekki verði gerðar mjög róttækar breytingar á stjórnun þessarar mikilvægu sameiginlegu auðlindar. Á þessu ári er einmitt rétti tíminn til að móta metnaðarfulla stefnu í vatnsmálum, því að í haust er ætlunin að samþykkja ný sjálfbærnimarkmið fyrir heimsbyggðina til næstu 15 ára, þ.e.a.s. til ársins 2030. Öllum sem til þekkja má vera ljóst að stjórnun vatnsmála hlýtur að vega þungt í þeirri markmiðssetningu, því að ef okkur tekst ekki að verja vatnsauðlindina verður framtíðin mjög einkennileg, ef svo má að orði komast.

Við eigum sjálfsagt eftir að ræða mikið um sjálfbærnimarkmið næsta hálfa árið, en til þess að setja þetta í sögulegt samhengi er nauðsynlegt að rifja upp að Sjálfbærnimarkmiðin verða sett í beinu framhaldi af Þúsaldarmarkmiðunum sem tóku gildi árið 2000 og giltu í 15 ár, þ.e.a.s. til ársins í ár. Nú á sem sagt að horfa önnur 15 ár fram í tímann og skilgreina þau markmið sem mikilvægust eru til að stuðla að sjálfbærri þróun.

En svo við snúum okkur nú aftur að vatninu, þá er vatn ekki bara vatn. Achim Steiner, framkvæmdastjóri UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, orðaði það svo þegar vatnsskýrslan var kynnt á föstudaginn, að allir finni fyrir áhrifum þverrandi vatnsauðlinda, sem endurspeglist í skertu fæðuöryggi, sjúkdómum, hnignandi vistkerfum, minnkandi líffræðilegri fjölbreytni, minnkandi efnahagslegri framleiðni, hættum sem steðja að lífríki sjávar, tjóni í ferðaþjónustu, og þar fram eftir götunum. Umræðan um vatn snýst nefnilega ekki bara um drykkjarvatn, heldur er vatn undirstaða alls sem við gerum. Það þýðir líka að stefnumótun um nýtingu vatns verður að taka jöfnum höndum til vistfræðilegra, efnahagslegra og félagslegra þátta og þar verða allir að koma að, bæði einstök ríki, ríkjasambönd og alþjóðlegar stofnanir. Þetta kallar á breyttan hugsunarhátt þar sem meira er horft á heildarmyndina en nú tíðkast.

Sem dæmi um öra þróun í nýtingu vatns í heiminum má nefna að árið 1960 var vatni dælt upp úr tæplega milljón brunnum á Indlandi, en árið 2000 var þessi tala komin upp í tæpar 19 milljónir. Það þarf ekkert að fjölyrða um hversu mjög allir þessir nýju brunnar hafa bætt lífsgæði fólks, en þetta hefur ekki gerst án aukaverkana. Mikið af þessu vatni hefur t.d. verið notað til að vökva ræktunarland og nú er svo komið að stór svæði á Indlandi standa frammi fyrir alvarlegum vatnsskorti. Þarna þarf að rata hinn gullna meðalveg milli verndunar og nýtingar, og enn erum við býsna langt frá því að finna hann. Vissulega hefur margt áunnist, en enn eru þó um 750 milljónir manna í heiminum án aðgangs að nothæfu drykkjarvatni. Og vatnsnotkunin heldur bara áfram að aukast. Ef ekki verður gert stórátak í að koma í veg fyrir sóun matvæla er t.d. fyrirsjáanlegt að matvælaframleiðsla þurfi að aukast um 60% fram til ársins 2050 og í þróunarlöndunum þarf aukningin jafnvel að vera um 100%. Fátt er vatnsfrekara en einmitt matvælaframleiðsla. Á sama tíma eru neysluvenjur að breytast – og þær breytingar kalla á sífellt meiri framleiðslu á ýmsum öðrum varningi. Öll þessi framleiðsla kallar á sívaxandi vatnsnotkun. Þannig eru horfur á að eftirspurn atvinnulífsins eftir vatni muni aukast um hvorki meira né minna en 400% á hálfrar aldar tímabili frá árinu 2000 til 2050.

Nú þegar eru um 20% af ferskvatnslindum heimsins ofnýtt, þannig að horfurnar eru vissulega ekki góðar. Gríðarleg og ómarkviss vökvun akra á stóran þátt í því hvernig komið er og sama má segja um stjórnlausa notkun varnarefna og kæruleysi í hreinsun fráveituvatns, sem hvort tveggja hefur orðið til þess að vatn er víða orðið mengað af efnum. Líklega eiga Íslendingar erfitt með að átta sig á umfangi vandans, en sem dæmi um afleiðingar óheftrar vökvunar má nefna að í tilteknum landbúnaðarhéruðum í Kína hefur grunnvatnsstaðan lækkað um meira en 40 metra á síðustu áratugum. Loftslagsbreytingar gera stöðuna enn verri. Sums staðar hefur úrkoma minnkað og í þokkabót hefur hækkað hitastig leitt til aukinnar uppgufunar úr jarðvegi og gróðri. Og þegar ferskvatnið hopar sækir sjórinn á. Aukin selta í drykkjarvatni er orðin alvarlegt vandamál í stórborgum á borð við Kalkútta á Indlandi, Shanghai í Kína og Dacca í Bangladesh og heilu eyríkin glíma við sama vandamál. Þetta á m.a. við um Túvalú og Samóaeyjar, þar sem íbúar eru í vaxandi mæli háðir innfluttu drykkjarvatni vegna saltmengunar í eigin grunnvatni.

Í vatnsskýrslunni sem kom út á föstudaginn er því beinlínis haldið fram að okkur hafi tekist illa upp við stjórnun á vatnsauðlindinni og að nú sé tími til kominn að breyta því hvernig við metum, stjórnum og notum þessa auðlind. Vatn sé í raun og veru of ódýrt miðað við raunverulegt verðmæti þess og að þetta raunverulega verðmæti sé sjaldnast tekið með í reikninginn þegar ákvarðanir eru teknar í orku- og iðnaðargeiranum. Þessar ákvarðanir séu í þokkabót teknar af fáum og byggi á rökum þar sem skammtímasjónarmið ráða ferðinni miklu fremur en umhverfissjónarmið.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Góðu fréttirnar í skýrslunni eru m.a. þær að þó að aðgerðir til að vernda vatnsauðlindir séu vissulega kostnaðarsamar, þá sé arðsemin gríðarleg. Rannsóknir á þessu sviði bendi til að fyrir hvern dollar sem varið er til að vernda vatnasvið geti allt að 200 dollurum sparast í hreinsun vatns. Dæmin sýna líka að þar sem þessi mál eru tekin föstum tökum er hægt að ná gríðarlegum árangri á skömmum tíma. Í skýrslunni er tekið dæmi um borgaryfirvöld í Phnom Penh í Kambódíu, sem til skamms tíma þóttu reyndar lítt til fyrirmyndar, svona yfirleitt. Þar á bæ tókst yfirvöldum að minnka vatnstap í vatnsveitunni úr 60% niður í 6% á 10 ára tímabili frá 1998 til 2008. Vatnið sem sparast árlega myndi duga til að sjá öllum íbúum Singapúr fyrir nægu vatni.

Allt þetta tal um vatnsskort á Túvalú eða vatnsveituna í Phnom Penh kemur kannski lítið við hinn venjulega Íslending sem hefur alla ævi horft á hreint íslenskt vatn buna frjálst og óhindrað niður í niðurfallið. En á degi vatnsins er hollt að rifja upp að í öllum vörum sem við kaupum leynist ósýnilegt vatn sem er oftast komið miklu lengra að en úr Gvendarbrunnum – og að í hvert einasta skipti sem við kaupum einhvern óþarfa erum við að stuðla að enn meira bruðli með þessa dýrmætu auðlind.

Vatnið í krananum okkar er kannski bara tíundi hluti þess vatns sem við notum í raun og veru – og kannski eini tíundi hlutinn sem nóg er til af. Við berum líka ábyrgð á hinum níu tíundu hlutunum!

Fleira áhugavert: