Ylströnd Urriðavatn – Skipulag svæðis

Heimild:  

 

Apríl 2015

Smella á mynd til að stækka

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur samþykkt að auglýsa breytingu á bæði deiliskipulagi og aðalskipulagi svo koma megi upp baðstað með ylströnd við Urriðavatn í Fellabæ.

„Baðstaðurinn mun gera afþreyingu á Héraði fjölbreyttari þar sem engin sambærileg aðstaða er nú þegar í boði,“ segir í greinargerð Fljótsdalshéraðs.

 

Skipulagssvæðið

Skipulagssvæðið

Nýta á heitt vatn úr borholum Hitaveitu Egilsstaða og Fella við Urriðavatn og leiða það 700 metra í pípu að baðstaðnum sem á að vera milli Hróarstunguvegar og vatnsbakkans þar sem vegurinn sveigir að vatninu á landi í einkaeigu. Þaðan eru rúmir fimm kílómetrar til Egilsstaða.

„Á baðstaðnum er áformað að hafa ylströnd og heita potta við vatnsbakkann, ásamt þjónustuhúsi og hugsanlega byggingarreit fyrir gistihús. Vatn mun renna úr pottunum út í ylströndina,“ segir í greinargerðinni. Magnið verði um 1 til 4 lítrar á sekúndu af 40°C heitu vatni sem sé svipað og tólf- til fimmtugfalt rennsli úr handlaug.

Þá segir að Veiðimálastofnun telji að við þetta muni hitakærum tegundum í vatninu fjölga en kulsæknum fækka. Vatnabobba fjölgi á grýttum botni en vorflugum og mýi fækki. Tryggja þurfi að klór berist ekki út í vatnið.

„Til mótvægis við ofangreind áhrif eru settir skilmálar um að ylströndin sé að mestu aflokuð frá vatnshloti Urriðavatns með görðum,“ segir í greinargerðinni. Ekki verði losað meira en 4 lítrar á sekúndu og vatnið verði ekki heitara en 40°C. Ekki megi nota klór.

Vitnað er til Náttúrumæraskrár Helga Hallgrímssonar. Þar kemur fram að Urriðavatn er um 2,5 sinnum hálfur kílómetri, mjög lífríkt og eitt besta veiðivatn héraðsins. Vakir hafi jafnan verið á miðju vatnsins þegar það var ísi lagt.

„Um 1960 kom í ljós að þarna var jarðhitasvæði á botni; eftir nokkrar boranir á tanga sem gerður var frá austurströnd vatnsins fékkst þar nægilegt magn af 80° heitu vatni í Hitaveitu Egilsstaða og Fella,“ er vitnað til Náttúrumæraskrárinnar sem jafnframt greinir frá dularfullri skepnu.

„Í vatninu kvað vera furðudýr nokkurt sem Tuska kallast,“ segir í skrá Helga. „Hún sást síðast um 1900 og bera lýsingar hennar keim af otrum.“

Fleira áhugavert: