Fasteignagjöld vatnsréttinda – tímamótadómur október 2015

Heimild:  

 

Fasteignagjöld af vatnsréttindum

Mynd: Rúnar Snær Reynisson – RÚV

Október 2015
Forstjóri Landsvirkjunar segir að tímamótadómur hafi fallið í Hæstarétti í gær. Hann leiðir af sér að orkufyrirtæki og aðrir, sem nýta vatnsréttindi, þurfa að greiða fasteignagjöld af réttindunum. Þar með eignast sveitarfélög, þar sem virkjaðar ár renna, nýja tekjulind.

Enn er þó óvíst hve mikil fasteignagjöld verður hægt að leggja á vatnsréttindin og er beðið eftir ákvörðun Þjóðskrár sem metur vatnsréttindin til fasteignamats.

 

Ósanngjörn skiping á virkjanatekjum

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað og Landsvirkjun hafa undanfarin 6 ár tekist á um það hvort sveitarfélagið megi leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi Jökulsár á Dal. Vatn úr henni knýr Kárahnjúkavirkjun að stærstum hluta. Sveitarfélagið hefur verið mjög ósátt við að fá engin fasteignagjöld af virkjuninni. Samkvæmt lögum eru fasteignagjöld af virkjunum greidd til sveitarfélagsins þar sem stöðvarhúsið er sett niður. Stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar er í Fljótsdalshreppi þó að flestar stíflur og lón séu á Fljótsdalshéraði.

Sveitarfélagið freistaði þess að láta Þjóðskrá meta vatnsréttindi af jörðum við Jökulsá til fasteignamats en Landsvirkjun eignaðist réttindin með eignarnámi. Innanríkisráðuneytið úrskurðaði sveitarfélaginu í vil en Héraðsdómur felldi úrskurðinn úr gildi. Hæstiréttur hefur nú snúið þeim dómi við og því þarf Þjóðskrá nú að meta vatnsréttindi til fasteignamats.

 

Björn IngimarssonBrátt skýrist hve mikið er í húfi

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir þetta hagmunamál fyrir sveitarfélagið sem geti rukkað Landsvirkjun um fasteignagjöld af vatnsréttindunum. Hann tekur þó fram að Þjóðskrá eigi eftir að meta hve hár gjaldstofninn sé. Jón Jónsson, lögmaður sveitarfélagsins í málinu, segir það hafa fordæmisgildi fyrir önnur sveitarfélög þar sem vatnsréttindi jarða séu nýtt. Fyrir dómi hafi verið tekist á um það hvort reglugerðarheimild til að meta vatnsréttindi hafi átt stoð í lögum og niðurstaðan sé að heimildin standi.

 

Hörður ArnarsonJafnari skipting og meiri tekjur til nærsamfélagsins

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tekur fram að fyrirtækið hafi ekki verið mótfallið því að greiða fasteignagjöld af vatnsréttindum en teldi lagagrundvöllinn óljósan og nauðsynlegt hafi verið að láta reyna á málið fyrir dómstólum. Þetta sé tímamótadómur sem leiði væntanlega til jafnari skiptingar fasteignagjalda milli sveitarfélaga þar sem áhrifa af virkjunum gæti. Sveitarfélög og nærsamfélög virkjana njóti þannig frekar góðs af nýtingu vatnsréttinda.

Fleira áhugavert: