Er orkuöryggi íslendinga í hættu eftir 2020?
Febrúar 2017
Haldi almennur vöxtur í raforkunotkun áfram hér á landi á næstu árum án þess að fjárfest verði í frekari orkuframleiðslu munu Íslendingar standa frammi fyrir mögulegum vanda varðandi orkuöryggi á komandi árum. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af sérfræðingum frá háskólastofnunum MIT í Bandaríkjunum og IIT Comillas á Spáni um orkuöryggi sem unnin var fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á fundi í húsnæði Orkustofnunar í dag.
Ignacio J. Perez-Arriaga, prófessor við MIT, kynnti skýrsluna og sagði vandamálið hér á landi vera rafmagnskerfi sem er einangrað og gæti þar af leiðandi lent í vandræðum ef upp kæmu vandamál við orkuframleiðslu, til dæmis ef vetur væri hlýr og lítið væri um vatn til að fylla upp miðlunarlón. Þá sagði hann að dreifikerfið hér á landi væri ekki nægjanlega gott þar sem stífla gæti myndast á milli vestur- og austurhlutans. Þá kom einnig fram í skýrslunni að ráðast þyrfti í stefnumótun varðandi raforkuuppbyggingu hér á landi til lengri tíma hvað varðar vöxt, framleiðslu, flutning og sölu.
Vaxandi eftirspurn kallar á meiri framleiðslu
Perez-Arriaga segir að þrátt fyrir að hópurinn hafi bent á nokkra veikleika í íslensku raforkukerfi og komið með tillögur að bótum standi Ísland almennt mjög vel miðað við önnur lönd í þessu samhengi. Þannig sé raforkuframleiðsla hér þegar án útblásturs koltvísýrings og landið sé sjálfbært um raforku. Það sé til dæmis allt önnur staða en heimaland hans Spánn búi við sem hafi alla tíð flutt inn mikið magn raforku. „En með vaxandi eftirspurn þurfið þið að framleiða meira rafmagn,“ segir hann og vísar þar til lítilla og meðalstórra notenda.
Vandamálið með uppbygginguna hér er að hans sögn að það geti vantað frumkvæði í uppbygginguna samhliða því að engin opinber orkustefna sé um hvert skuli stefna í þessum efnum, hvort auka eigi framleiðslu og þá um hversu mikið og hvernig orkuvinnsla eigi að vera í forgangi.
Vilja að ríkisvaldið ákveði virkjanakosti og bjóði þá út
Í skýrslunni er bent á að gera þurfi stefnu sem sé áhugaverð fyrir fjárfesta. Leggja skýrsluhöfundar meðal annars til að farin sé svipuð leið og í Evrópu og víða í Bandaríkjunum þar sem notaðar séu ákveðnar markaðslausnir við að fá verð fyrir auðlindirnar. Hið opinbera ákveði þar staði og framkvæmdir sem megi fara í, en bjóði svo út viðkomandi stað, í stað þess að orkufyrirtækin standi í rannsóknum og leggi til að fara í ákveðna staði.
Huga þarf að orkuöryggi almennings og minni fyrirtækja
Hluti af orkuöryggi er að sögn Perez-Arriaga að almenningur og lítil og miðlungsstór fyrirtæki hafi greiðan aðgang að rafmagni á viðráðanlegu verði. Þetta séu þeir sem ekki geri langtímasamninga við orkufyrirtækin eins og stóriðjufyrirtæki og í dag sé þetta ört stækkandi hópur hér á landi. Hann segir þá hugmynd sem skýrsluhöfundar horfi til varðandi að tryggja stöðugt verð til þessa hóps sé að dreifingaraðili eins og Landsnet láti orkufyrirtækin bjóða í þessa sölu. Þannig sé öruggt að ákveðinn hluti raforkunnar fari í smásölu og líka að verðið taki ekki kippi upp á við ef til markaðsbrests kemur á raforkumarkaðinum. Var lagt til að samið yrði til 5-10 ára við nýjar virkjanir, en jafnvel árlega við núverandi virkjanir.
Perez-Arriaga segir að miðað við stöðuna í dag og áætlaða þróun í raforkunotkun ættu Íslendingar að geta stundað „business as usual“ áfram til ársins 2020 og að ekki væri hætta á skertu orkuöryggi nema í algjörum undantekningartilfellum, til dæmis ef það komi mjög heitir vetur eða þurrir og ekki náist að safna nægjanlega miklu í miðlunarlónin yfir sumartímann. Aftur á móti muni Íslendingar ekki komast af til ársins 2030 miðað við óbreytt ástand að hans sögn. Þar þurfi að koma til fjárfestinga í framleiðslu, því annars sé orkuörygginu ógnað.
Bera saman mismunandi uppbyggingarleiðir flutningskerfisins
Sem fyrr segir benti hópurinn á takmarkanir á flutningskerfinu sem Perez-Arriaga sagði verða að ráðast strax í að bæta. Hópurinn hafði skoðað gaumgæfilega bæði svokallaða hringleið með uppbyggingu á flutningskerfinu hringinn í kringum landið og svo með uppbyggingu „T-leiðar“ en þá er byggð lína yfir miðhálendið.
Perez-Arriaga sagði kostnaðinn við fyrri kostinn vera um 49,4 milljónir Bandaríkjadala á meðan T-leiðin kostaði 33,1 til 53 milljónir dala, eftir því hvort lögð yrði loftlína eða jarðstrengur. Sagði hann hringveginn því að jafnaði væntanlega vera dýrari kost, en á móti kæmi að hann myndi leysa fleiri vandamál varðandi flutningskerfið en T-leiðin. Sagði hann helstu óvissuna með hálendislínu vera veður og viðhaldskostnað sem gæti hækkað kostnaðinn við þá línu eitthvað. Helstu umhverfisþættir sem þarf að hafa í huga við báðar þessar leiðir er að hans sögn að með T-leiðinni er farið yfir hálendið, en raflínulögn þar hefur jafnan mætt nokkurri andstöðu. Varðandi hringleiðina segir hann að leggja þyrfti raflínur sunnan Vatnajökuls við Jökulsárlón.
Aðeins raunhæft ef mjög gott verð fæst gegnum sæstreng
Skýrsluhöfundar fjalla einnig um mögulegan sæstreng til Bretlands og áhrif hans á orkuöryggi. Segir Perez-Arriaga að slíkur strengur sé það besta sem í boði sé varðandi fullkomið orkuöryggi. Þá hafi menn aðgang að raforku frá Evrópu ef eitthvað komi upp á hér á landi. Á móti segir hann að til að sæstrengur sé raunhæfur þurfi að auka raforkuframleiðslu um 1.000 megavött og að mun ódýrari lausn til að ná næstum sama orkuöryggi sé einfaldlega að byggja upp frekari raforkuframleiðslu hér á landi án sæstrengs. Sagði hann að til að strengurinn myndi borga sig fjárhagslega þyrfti einnig að semja við Breta um aukaálag vegna græns uppruna orkunnar hér á landi og að slíkt álag þyrfti að vera umtalsvert. „Sæstrengurinn er ekki góður nema þið fáið mjög gott verð,“ sagði hann á fundinum og bætti við að hann gæti ekki svarað því hvort slíkt væri raunhæft.