Rafbílageymar – 35% verðlækkun á einu ári

Heimild:  

 

Janúar 2017

Verðlag á rafhlöðum fyrir rafmagnsbíla lækkaði hratt á árunum 2010-2015. En lang-hröðust var lækkunin 2014-2015; 35 prósent, hvorki meira né minna. Ástæður þessara lækkana eru margar en þær helstu eru breyttar efnasamsetningar í innviðum rafhlaðanna, nýjar framleiðsluaðferðir, sterk krafa um lægra verð og loks aukin samkeppni.

Oftar en ekki eru rafbílar ódýrari í rekstri en hefðbundnir bíla með brunahreyflum, eins og t.d. má lesa út úr vönduðum og viðamiklum bílaprófunum systursamtaka FÍB í Þýskalandi; ADAC. En þrátt fyrir það hefur útbreiðsla rafbíla ekki vaxið jafn ört og margir hafa vænst og vonast til. Ástæður þess eru að rafbílar hafa verið umtalsvert dýrari en hefðbundnir bílar. Því til viðbótar hafa þeir verið skammdrægari á rafhleðslunni en hefðbundnir bílar á fullum eldsneytistanki, hleðslutíminn hefur verið langur og endurhleðslustaðir alls ekki á hverju strái. Þetta hefur takmarkað notagildi þeirra samanborið við hefðbundna brunahreyfilsbíla.

Meginforsenda þess að hlutur rafbíla í bílaflotanum stækki hefur því verið og er enn sú að verðið á þeim lækki og drægið aukist. Þegar fyrsti fjöldaframleiddi rafbíllinn Nissan Leaf kom á almennan markað fyrir innan við áratug, nam hlutur rafgeymanna í verði hans um það bil 60-65%. Nú er það hlutfall komið niður í um 30% og fer enn lækkandi. Í nýrri rannsókn á þessum málum sem gerð var hjá stjórnunar- og fjámálaháskóla í Frankfurt í Þýskalandi segir að sú verðlækkun sem orðið hefur samhliða miklu öflugri rafgeymum sé hvorki meira né minna en einstakt. Samkvæmt rannsókninni hefur verð á rými hverrar kílóWattstundar í líþíumrafgeymum lækkað úr þúsund dollurum niður í 350 dollara milli áranna 2010 og 2015.

Það hefur lengi verið veigamikill þáttur í rökum andstæðinga rafbíla og rafbílavæðingar að umhverfislegur ávinningur rafbílanotkunar sé lítill sem enginn vegna þess að rafmagnið sem hlaðið er inn á geyma bílanna sé ,,óhreint“ – búið til með því að knýja raforkuverin með kolum og olíu. Þessi röksemd á auðvitað ekki við á Íslandi og einungis að litlu leyti í löndunum næst okkur sem hafa undanfarin ár fjárfest mikið í orkuverum sem nýta endurnýjanlega orku (fallorku, vind- og sólarorku) í sívaxandi mæli.

Ætla mætti að mjög hægi á þessum fjárfestingum þegar verð lækkar á olíu og kolum. En þótt bæði kola- og olíuverð á heimsmarkaði hafi verið lágt undanfarin ár sýnir rannsóknin frá Frankfurt engu síður að það hefur lítil áhrif haft á uppbyggingu sjálfbærra orkuvera í Evrópu. Hið lága verð hefur ekki megnað að draga þrótt úr þeirri uppbyggingu og í Svíþjóð er hlutfall sjálfbærrar raforku miðað við ,,óhreina“ með því hæsta sem gerist. Þessu hafa Svíar fyrst og fremst náð á núverandi tímabili lágs olíverðs á heimsmarkaði.

Fleira áhugavert: