Stálbogabrú yfir Eldvatn – Stenst hún stærstu Skaftárhlaup?
Þessari brú er ætlað að standast stærstu Skaftárhlaup næstu aldir
Tignarleg stálbogabrú verður reist yfir Eldvatn hjá Ásum, í stað þeirrar sem eyðilagðist í stærsta Skaftárhlaupi sögunnar, og vonar vegamálastjóri að sú nýja standist viðlíka hamfarahlaup næstu aldir. Áformað er að verkið verði boðið út í vor og að brúarsmíðin taki um eitt ár.
Hlaupið, sem fyrstu daga októbermánaðar 2015 ruddist niður farvegi Skaftár og Eldvatns, var stærsta Skaftárhlaup sem menn höfðu upplifað og ljóst að eitthvað myndi undan láta. Ógnarkrafur hlaupsins var slíkur að árbakkar Eldvatns molnuðu niður.
Undir brúnni hjá Ásum gróf jökulvatnið um fimmtán metra breiða skák úr austurbakkanum á rúmlega 400 metra löngum kafla. Steypt undirstaða brúarinnar stóð eftir í lausu lofti og fór svo að brúin var úrskurðuð ónýt, en léttum bílum hefur þó verið leyft að aka yfir hana.
En nú er Vegagerðin búin að finna nýtt brúarstæði nokkur hundruð metrum neðar, sem kallar á nýtt vegstæði og nýja vegtengingu við hringveginn í Eldhrauni.
„Við treystum því að þessi nýi staður sé öruggari fyrir brú og komandi flóð því þetta var ekki síðasta flóðið úr Skaftárkötlum sem mun koma niður Eldvatnið,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
„Við reynum bæði að setja brúna þar niður og byggja hana með þeim hætti að hún muni standast næstu áratugi, – og næstu aldir vonandi, – viðlíka flóð.“
„Já, hún er falleg. Við reynum náttúrlega að horfa á það svolítið líka, ekki síst á svona svæðum, sem er í fallegu náttúrulegu umhverfi, og sést langt að, að það fari vel í landinu,“ segir vegamálastjóri.