Að hverju þarf að huga við kaup á varmadælu?

Heimild:  

 

Við staðsetningu útihluta varmadælunnar er rétt að hafa í huga

Leitast skal við að hafa varmadæluna í skjóli fyrir ríkjandi vindátt eða þar sem snjóalög eru léttust. Í vissum tilfellum getur verið nauðsynlegt að byggja skýli yfir varmadæluna sem draga myndi úr vatnsálagi og áfoki án þess þó að hindra nauðsynleg loftskipti, vanræksla á því getur valdið niðurfellingu ábyrgðar.

————————————————————————————————————————————————–

Næst varmadælunni gætir nokkurar kælingar og sérstklega þegar viftur hennar ganga á fullum afköstum.

————————————————————————————————————————————————–

Undir varmadælunni getur myndast ís vegna vatns sem rennur frá dælunni við afhrímingu eða við keyrslu hennar við hátt rakastig. Best er að jarðvegur undir dælu sé drenmöl eða sambærilegt undirlag.

————————————————————————————————————————————————–

Varmadæluna er nauðsynlegt að staðsetja um 1m frá jörðu eða að minnsta kosti í þeirri hæð að snjór safnist ekki að henni.

————————————————————————————————————————————————–

Innifalið í uppsetningu eru vinklar sem festast á vegg byggingarinnar kaupandi verður að hafa í huga að nægileg festa sé í byggingarhluta þeim sem varmadælan festist á eða að öðrum kosti sjá um styrkingu hans.

————————————————————————————————————————————————–

Útihluti varmadælunnar er knúinn af pressu og viftum sem óhjákvæmilega gefa frá sér hljóð þótt lágvært sé.

————————————————————————————————————————————————–

Reynt er að draga úr hljóðleiðni frá varmadælunni með vönduðum mótorpúðum milli dælunnar og festivinkla hennar þrátt fyrir það getur einhver hljóðleiðni orðið milli dælu og viðkomandi byggingarhluta.

————————————————————————————————————————————————–

Í sumum tilvikum kann að vera best að staðsetja útihlutann á undirstöðum s.s. steypuklossum sem ekki tengjast burðarvirki byggingarinnar sérstaklega ef staðsetning varmadælunar er nálægt svefnálmu byggingar.

————————————————————————————————————————————————–

 

Við staðsetningu innihluta loft í loft varmadælunnar er rétt að hafa í huga

Það er í mörgum tilvikum langt í frá augljóst hvar best er að staðsetja innihluta loft í loft varmadæla, innihlutanum sem samanstendur af hitaldi og öflugum hraðastýrðum blásara er oftast best að koma fyrir í stærsta rými byggingar stofu/alrými eða á hverjum þeim stað sem vænta má bestrar hitadreifingar.

————————————————————————————————————————————————–

Gagnlegt getur verið fyrir uppsetningaraðilann að fá sendar teikningar af viðkomandi byggingu eða skissu af henni til að auðvelda val staðsetningar og undirbúning áður en að henni er komið.

————————————————————————————————————————————————–

Þegar innihlutinn gengur á fullum afköstum er töluverð hreyfing á loftinu í rýminu næst honum sérstaklega beint undir blásaranum þar sem heitt loft streymir niður að gólfinu, vegna þessa er ráðlegt að staðsetja hann ekki þar sem fólk hefur stöðuga viðveru s.s. yfir sófa eða við borðkrók.

————————————————————————————————————————————————–

Ef keyra á varmadæluna til kælingar þarf að gera ráðstafanir vegna vatns sem þéttist í innihlutanum þetta getur einnig hent á mjög heitum dögum í þeim tilvikum sem dælan er á AUTO stillingu. Dren rör sem staðsett er undir plasthlíf innihlutans verður í slíkum tilfellum að tengja með framlengingu við niðurfall eða ílát sem safnar þéttivatninu

————————————————————————————————————————————————–

Þrátt fyrir mjög lágværan innihluta er rétt að forðast staðsetningar nærri svefnstað þar sem hvinur frá blásaranum getur truflað þá sem eru mjög viðkvæmir fyrir truflunum til að gefa einhverja hugmynd um hljóðstyrk má líkja því við hljóð sem ískápur gefur frá sér.

 ————————————————————————————————————————————————–

 

Við staðsetningu innihluta loft í vatn varmadælunnar er rétt að hafa í huga

 

Lágmarks loftræstingu þarf að tryggja í því rými sem innihluti varmadælunnar kemur í.

————————————————————————————————————————————————–

Innihlutinn tengist vatnslögnum byggingarinnar og við þjónustu getur þurft að vatnstæma lagnir og kúta, því ætti alltaf að vera niðurfall í viðkomandi rými.

————————————————————————————————————————————————–

Almennt gilda sömu forsendur fyrir staðsetningu innihluta varmadælu og annarra tækja til húshitunar og er kaupanda bent á að kynna sér reglur um slíkt í byggingarreglugerð

————————————————————————————————————————————————–

Seljandi leitast við að veita faglega ráðgjöf við val á staðsetningu varmadælunar en endanleg staðsetning er þó alltaf á ábyrgð kaupanda / húseiganda og er honum bent á að hafa samráð við viðkomandi byggingaryfirvöld og næstu nágranna eftir atvikum.

Breytingar á hönnunarforsendum byggingar eru alltaf á ábyrgð húseiganda og er honum ráðlagt að hafa samráð við hönnuð byggingarinnar og byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags.

Fleira áhugavert: