Við þurfum að nýta auðlindirnar
Júlí 2002
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir minnihlutahóp meðal umhverfisverndarsinna standa fyrir ófrægingarherferð gegn Kárahnjúkavirkjun þar sem íslenskir hagsmunir séu ekki hafðir í fyrirrúmi. Björn Jóhann Björnsson ræddi við Friðrik um umhverfisþátt virkjunarinnar og fjárhagshlið framkvæmdarinnar sem byrjað verður á nú í sumar og haust.
FYRIR rúmri viku var undirrituð viljayfirlýsing milli stjórnvalda, bandaríska álfyrirtækisins Alcoa og Landsvirkjunar um áframhaldandi viðræður vegna byggingar 295 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði. Um leið undirrituðu Landsvirkjun og Alcoa samkomulag um skiptingu kostnaðar við undirbúningsframkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun, sem ráðist verður í í sumar og haust. Alcoa tekur þar á sig 450 milljónir króna og Landsvirkjun 150 milljónir og fær álfyrirtækið fjárhæðina endurgreidda ef samningar takast um álverið.Til að ræða umhverfis- og efnahagsþátt Kárahnjúkavirkjunar átti Morgunblaðið viðtal við Friðrik Sophusson, forstjóra Landsvirkjunar. Hann var fyrst spurður hvort Íslendingar þyrftu á því að halda að reisa virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun og hvort hann teldi landsmenn gera þær kröfur um lífsgæði sem kölluðu á slíka framkvæmd.
„Ef Íslendingar ætla sér að búa við svipuð lífsskilyrði og aðrar þjóðir sem við keppum við þá þurfum við að nýta auðlindir okkar. Við komumst ekki hjá því að nýta fiskimið og orkuauðlindir okkar, og auðvitað hugvit fólksins sem hér býr. Þess vegna er það eðlilegt að við nýtum þessi fallvötn. Fyrir norðan Vatnajökul eru ár sem búa yfir mikilli orku og ég tel eðlilegt að nýta þær. Það er hagkvæmt og einnig er gott að geta virkjað á öðrum svæðum en við Þjórsá og á Tungnaársvæðinu. Það jafnar áhættuna og gefur tækifæri til þess að fjölga störfum annars staðar en á suðvesturhorninu.
Þetta eru hin almennu pólitísku rök fyrir því að virkja. Ef við lítum eingöngu á Landsvirkjun þá segir skýrt og skilmerkilega í lögum um starfsemi fyrirtækisins að því sé ætlað að útvega orku fyrir viðskiptavini sína, hvort sem þeir eru gamlir eða nýir. Þess vegna er það lagaskylda okkar að svara beiðni eins og þeirri sem fram er komin. Það sem ræður því hvort við munum selja orkuna eða ekki, er verðið á henni. Það verður að gefa okkur nægilegan arð.“
Arðsemin eðlileg
– Telurðu að arðsemi af virkjuninni sé nægjanleg?“Ef samningarnir við Alcoa verða á svipuðum nótum og þeir sem nánast var búið að ganga frá við Reyðarál, þá liggur fyrir að arðsemi eiginfjár af virkjuninni er á milli 12 og 14%. Sumitomo-bankinn fór yfir alla útreikninga Landsvirkjunar og telur að arðsemin sé mjög eðlileg fyrir fyrirtæki í þessari grein. Þetta þarf að undirstrika því að öðru hefur verið haldið fram í blöðum, þrátt fyrir skýra niðurstöðu bankans.“
– Var verðmæti landsins sem fer undir virkjunina tekið með í þá útreikninga?
„Landsvirkjun greiðir að sjálfsögðu fyrir vatnsréttindi, önnur eignarréttindi og bætur til landeigenda, eins og tíðkast hefur hér á landi. Verðmætamat á landinu, sem fer undir vatn, með tilliti til þess hvort nota eigi það til annars, hefur hins vegar ekki átt sér stað. Við þurfum einnig að hafa í huga að orkuvinnslufyrirtækin hér á landi hafa kostað grunnrannsóknir á náttúru landsins, langt umfram það sem tíðkast annars staðar. Þær rannsóknir hafa aukið þekkingu okkar og sparað ríkinu ómælt fé.“
– Finnst þér að slíkt verðmætamat eigi að fara fram?
„Slíkri spurningu, ásamt spurningunni um auðlindagjald, verða stjórnmálamenn að svara.“
– Er það rétt að ending uppistöðulóns á borð við það sem verður við Kárahnjúkavirkjun sé takmarkaður og lónið fyllist á allt að 100 árum?
„Nei, það er ekki rétt því talið er að lónið fyllist á 400 árum, miðað við óbreytta stærð jökla og aurmagn. Það er því alveg ljóst að Hálslón fyllist ekki á þeim tíma sem við erum að afskrifa virkjunina, en þar erum við að tala um kannski 60 ár og við vitum að starfstíminn verði hæglega 100 ár. Elstu virkjanir okkar, eins og til dæmis Sogið, eru betri í dag en þær voru í upphafi. Þeim hefur verið haldið vel við. Búrfellsvirkjunin skilar mun meiri orku í dag heldur en þegar hún var byggð og ekki annað að sjá en að hún dugi í að minnsta kosti 100 ár.“
Framkvæmdin ekki vistvæn að öllu leyti
– Ertu fullviss um að Kárahnjúkavirkjun sé endurnýjanleg orkuauðlind?“Mér finnst óhætt að halda því fram að um sé að ræða endurnýjanlega orku þegar ending lóna er mjög mikil. Vatnsaflið er því endurnýjanlegt og umhverfisvænt en vissulega er það rétt að framkvæmdin er ekki vistvæn að öllu leyti. Við þurfum að taka land undir vatn og breyta landnýtingunni og ásýnd landsins með uppistöðulónum. Hér á landi er náttúran að breytast og breytist kannski örar en víða annars staðar. Við skulum hafa í huga að mjög víða eru lón á öræfum okkar og í tímans rás koma þau til með að fyllast, rétt eins og Hálslón. Það liggur í eðli náttúrunnar að jöklarnir bera fram aur sem fyllir lónin. Ég bendi í þessu sambandi á að þar sem Hálslón á að koma var lón á sínum tíma, sem fylltist af framburði árinnar fyrir einhverjum þúsundum ára. Þess sér stað í náttúrunni á svæðinu.“
– Uppfyllir virkjunin öll skilyrði um endurnýjanlega orku samkvæmt loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna?
„Virkjunin hefur farið í gegnum nálarauga mats á umhverfisáhrifum. Aldrei hefur verið unnin jafn ítarleg matsskýrsla og vegna þessarar virkjunar. Fyrir liggur ítarlegur úrskurður umhverfisráðuneytisins, þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar komu að málinu. Öll álitamál voru skoðuð. Auðvitað verða gerðar breytingar á náttúrunni með virkjuninni en maðurinn er alla daga að laga náttúruna fyrir sig, til að komast betur af.
Ef við ætlum að búa í þessu landi komumst við ekkert hjá því að laga náttúruna að okkar þörfum. Við þurfum að gera það af mikilli virðingu og taka tillit til nýjustu umhverfissjónarmiða. Landsvirkjun leggur mikinn metnað í að umgangast náttúruna með þeim hætti.“
Náttúruvernd hinna svörtu sanda
– Telurðu þá að hrófla megi við náttúru landsins og nýta hana?“Sumir halda því fram að ekki megi undir nokkrum kringumstæðum hrófla við náttúrunni, aðeins eigi að horfa á hana eins og hún komi fyrir. Við verðum að hafa í huga að náttúran er sífellt að breytast. Eldgos og jarðskjálftar eiga sér stað án þess að mannskepnan komi þar nærri. Sem betur fer hefur maðurinn spornað við þróuninni sums staðar og gert það svo til fyrirmyndar er. Ég bendi til dæmis á að í eldgosinu í Vestmannaeyjum var vatni sprautað á hraunið til að hefta framrás þess. Fyrir vikið fengu Vestmannaeyingar góða höfn. Ef ekkert hefði verið að gert hefði höfnin sennilega lokast og gert eyjuna óbyggilega.
Ég þekki sjónarmiðin sem fram koma í spurningunni og kalla þau stundum „náttúruvernd hinna svörtu sanda“. Ég kannast við menn sem telja það andstætt allri náttúruvernd að græða upp landið. Þannig telja þeir að verið sé að skemma Þjórsárdalinn með því að græða hann upp eins og Landsvirkjun hefur staðið í í samvinnu við Landgræðsluna og heimamenn. Ég staðhæfi að Þjórsárdalurinn er miklu fallegri og náttúrulegri eftir að hafa verið græddur upp, heldur en á meðan svartur sandurinn fauk um og eyðilagði.“
Hugvit og þekking verða að byggjast á einhverju
– Í nýrri skýrslu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna lendir Ísland í 7. sæti á lífsgæðalista meðal 173 þjóða heims. Þurfum við í ljósi þeirrar stöðu að leggja áherslu á stóriðju og virkjanaframkvæmdir frekar en til dæmis þekkingariðnað og fara þannig inn á braut sem margar þjóðir, sem við miðum okkur við, eru að hverfa frá?“Menn verða að hafa það í huga að hugvit og þekking verða að byggjast á einhverju. Með því að renna fleiri stoðum undir efnahaginn með nýtingu náttúruauðlindanna þá erum við í leiðinni að bæta möguleika þeirra sem vilja vinna að verkefnum sem krefjast hugvits og þekkingar. Enginn vafi leikur á því að Íslendingar eru sterkir í þjónustu við sjávarútveg og framleiðslu á vörum fyrir þá atvinnugrein. Á undanförnum árum hafa íslensk fyrirtæki verið að ryðja sér til rúms í tækni sem snertir álframleiðslu og þannig mætti áfram telja. Í raun og veru er það gjörsamlega úrelt að gera greinarmun á þekkingariðnaði og öðrum iðnaði. Ég er ekki einn um þá skoðun. Davíð Oddsson forsætisráðherra gerði þessu efni ágæt skil í ræðu sem hann flutti hjá Verslunarráðinu fyrr á árinu, þar sem hann sagði að þessi aðgreining væri löngu úrelt. Allt er þetta spurning um lífskjör. Ef menn taka pólitíska ákvörðun um að hverfa frá nýtingu náttúruauðlinda hér á landi og lifa eingöngu á þekkingunni, þá er ég sannfærður um að við verðum ekki áfram í sjöunda sæti á lista Sameinuðu þjóðanna og hröpum hratt niður. Skynsamleg nýting náttúruauðlinda í hafi og á landi er forsenda fyrir því að við getum rekið hér svonefndan þekkingariðnað með sterkum háskólum og útflutningi á hugviti. Skynsamleg nýting auðlindanna krefst ekki síður þekkingar og hugvits.“
– Hver er helsti munur á þeirri Kárahnjúkavirkjun sem nú stendur til að reisa og þeirri sem upphaflega stóð til að gera?
„Nú á að reisa álverið í Reyðarfirði í einum áfanga sem kemur til með að framleiða 295 þúsund tonn af áli árlega. Orkuþörfin er talin vera um það bil 4.400 gígavattstundir á ári með töpum og eigin notkun. Áður var talað um allt að 390 þúsund tonna álver í tveimur áföngum með stærð Kárahnjúkavirkjunar upp á um 690 MW. Nú er ekki lengur verið að tala um að virkja við Kröflu og Bjarnarflag. Þannig sparast raforkulína frá Kröflu og austur yfir. Eftir úrskurð umhverfisráðherra um Kárahnjúkavirkjun dregur nokkuð úr orkugetu hennar, því að fallið var frá nokkrum veitum. Nú er því verið tala um 630 MW virkjun. Áætlaður stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar er nú talinn heldur lægri, eða 94 milljarðar króna, á verðlagi í janúar 2002. Virkjunin verður byggð samfellt í einum áfanga, í stað tveggja áður. Fjöldi ársverka við virkjunina er nú talinn vera um 3.760 en var áður 4.550 fyrir báða áfangana.“
Vonandi breytir rammaáætlunin umræðunni
– Hefur Hálslónið breyst?“Hálslónið stækkar ekki. Með því að virkja í einum áfanga græðum við tvennt: Annars vegar er það hagkvæmara og hins vegar verður jafnara rennsli í Fljótsdal og minni hætta verður á því að jarðvegurinn blotni við árfarveginn. Þess vegna er framkvæmdin í einu lagi hagstæð, fjárhagslega og fyrir umhverfið.“
– Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur verið í vinnslu hér á landi. Kemur hún til með að hafa einhver áhrif á Kárahnjúkavirkjun?
„Nei, hún er ekki tilbúin. Þegar vinna við áætlunina hófst var sérstaklega tekið fram að það starf myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum tefja Alþingi eða stjórnvöld í að virkja þar sem þyrfti að virkja. Að undanförnu hafa þeir sem vinna að verkefninu verið að reyna að finna aðferðir til að meta virkjanir. Orkufyrirtækin hafa verið beðin um að koma með gagnrýni á aðferðafræðina. Við vonumst til þess að á næsta ári liggi fyrir niðurstaða. Ef það tekst vel munu þær niðurstöður vonandi breyta umræðunni sem skapast hefur um virkjanaframkvæmdir hingað til. Í dag eru menn yfirleitt að rífast um einn virkjanakost í einu en með tilkomu áætlunarinnar ætti að vera auðveldara fyrir almenning að gera sér grein fyrir heildarmyndinni. Rammaáætlunin mun engu breyta um þær ákvarðanir sem búið er að taka. Áætlunin er hugsuð þannig að auðveldara verði fyrir stjórnvöld að raða virkjanaframkvæmdum eftir annars vegar hagrænum sjónarmiðum og hins vegar umhverfissjónarmiðum. Síðan er það stjórnvalda að taka ákvörðun um í hvaða röð virkjanirnar koma.“
Aukinn stuðningur við virkjunina
– Óttastu að andstaða umhverfisverndarsamtaka við Kárahnjúkavirkjun muni harðna enn frekar og hafa áhrif á framkvæmdina?“Ég á erfitt með að segja til um það en hins vegar er alveg ljóst að stuðningur hér innanlands við Kárahnjúkavirkjun hefur farið vaxandi. Í nýrri Gallupkönnun, sem birt verður innan skamms, kemur í ljós að 60% þeirra sem taka afstöðu eru hlynnt virkjuninni. Fyrir ári í sambærilegri könnun voru 50% þeirra sem afstöðu tóku hlynnt virkjuninni.“
– Hvað um áhrif umhverfisverndarsamtaka?
„Skipta má umhverfisverndarsinnum í tvo hópa. Annars vegar eru þeir sem vara við því að gengið sé á náttúruna óhóflega mikið. Ég tek undir með þeim og tel nauðsyn á að hafa aðgát í umgengni við auðlindirnar til sjós og lands. Ég fagna þeim skilningi, sem fer vaxandi hér á landi, að við eigum að skila náttúrunni jafn góðri ef ekki betri til afkomenda okkar heldur en hún var þegar við tókum við henni. Það er í anda sjálfbærrar þróunar. Ég skil það einnig mjög vel að ekki er alltaf hægt að beita hefðbundnum rökum þegar menn deila um náttúruvernd. Hún snertir tilfinningar manna líkt og þjóðernisvitundin. Við eigum að sjálfsögðu að bera fulla virðingu fyrir tilfinningum manna og tilfinningalegum rökum. Ég reyni að skilja þau rök og tel að tillit eigi að taka til þeirra.
Ófrægingarherferð náttúruverndarsamtaka
Hins vegar er minnihlutahópur í röðum umhverfisverndarsinna sem oft talar í nafni þeirra allra. Þessi hópur virðist vera á móti öllum virkjunum hér á landi, og ætlast til þess að við nýtum hvorki auðlindir okkar til lands né sjávar. Þessi hópur mun áreiðanlega, hér eftir sem hingað til, reyna að halda úti áróðri gegn virkjunarhugmyndum. Fámennur hópur hér á landi semur yfirlýsingar, til dæmis í nafni WorldWide Fund, WWF. Þær eru síðan sendar til útlanda og hingað heim aftur í nafni alþjóðlegra samtaka. Út af fyrir sig er ekkert við þessu að segja en það verður að koma fram hvernig þessi mál eru unnin. Fæstir þeirra sem eru að senda mótmælin til okkar hafa hingað komið. Þá liggur það fyrir að formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, Árni Finnsson, þiggur fjárhæðir frá alþjóðasamtökum til að standa straum af rekstrinum og þar með kostnaði við þessa herferð. Ég er ekki að gagnrýna þetta en menn verða bara að hafa það í huga að þessi samtök eru ekki að hugsa um íslenska hagsmuni.Á undanförnum mánuðum hafa Náttúruverndarsamtök Íslands og WWF því miður sent frá sér rangar fullyrðingar um þessi mál. Ég tel að þarna sé um ófrægingarherferð að ræða. Tilgangurinn helgar meðalið og ekki skiptir máli hvort menn séu að segja satt og rétt frá. Við erum einmitt um þessar mundir að tína saman það sem þessi samtök hafa sagt beinlínis í því skyni að koma röngum fullyrðingum á framfæri, og svara þeim með fyrirliggjandi staðreyndum. Við ætlum okkur að birta þessa samantekt fljótlega á heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar.“
Endurskoða þarf kostnað
– Ef við hverfum frá umhverfisþætti virkjunarinnar og snúum okkur að peningahliðinni. Hvar á vegi eru staddar viðræður við Alcoa um orkuverð frá virkjuninni til álversins?“Við höfum að sjálfsögðu rætt við fulltrúa Alcoa um hugsanlegt orkuverð. Þeir vita nokkurn veginn hvað við teljum okkur þurfa að fá. En samningar liggja ekki fyrir og eiginlegar viðræður hefjast í byrjun ágúst. Við stefnum að því að vera komnir með raforkusamning og ábyrgðarsamning í nóvember næstkomandi. Við viljum að Alcoa beri með okkur ábyrgð á virkjanaframkvæmdum þar til bygging álversins hefst. Þess vegna get ég ekki rætt um sjálft orkuverðið, enda erum við bundnir trúnaði um það gagnvart Alcoa sem öðrum viðskiptavinum í stóriðju. Áætlað er að samningurinn við Alcoa gefi samsvarandi arðsemi eigin fjár og talað var um í samningunum við Reyðarál. Hafa verður í huga að framkvæmdin er ekki sú sama og áður, bæði hefur virkjunin minnkað sem og álverið. Þetta kallar á endurskoðun á fjárfestingarkostnaði.“
– Stjórnendur Alcoa hafa verið yfirlýsingaglaðir um orkuverðið og virðast ekki hafa miklar áhyggjur af þeim þætti málsins. Sammála þessu?
„Þeir hafa skoðað okkar hugmyndir og telja að við séum á svipuðum slóðum og þeir og því sé óhætt að setja 450 milljónir króna í undirbúningsframkvæmdir. Í raun og veru segir það fjárframlag meira en mörg orð. Eftir sem áður er niðurstaðan ekki fengin og við munum ekki standa að samningum nema að arðsemin sé í lagi.“
Áhættan fyllilega viðunandi
– Er það verjandi að fara í undirbúningsframkvæmdir áður en fyrir liggur endanlegur samningur við Alcoa?“Já, ég tel að áhættan sé fyllilega viðunandi. Framkvæmdirnar eru þess eðlis að þær geta staðið áfram þótt ekki verði virkjað á þessu svæði, einkum vegir sem lagðir verða og brúargerð. Einnig gæti annað álfyrirtæki komið til sögunnar og nýtt sér framkvæmdirnar ef Alcoa hættir við sín áform.“
– Er þetta ekki bara pólitísk ákvörðun til að sýna Austfirðingum fram á að það eigi eitthvað að fara að gerast?
„Nei, af og frá. Austfirðingar eru búnir að bíða eftir virkjun og iðjuveri áratugum saman. Þeim er enginn greiði gerður með því að hefja undirbúningsframkvæmdir ef ekkert er á bak við þær. Þetta er ekki gert til að friða Austfirðinga heldur byggt á köldu mati á stöðu málsins og þeirri trú að Alcoa ætli sér að fara í verkefnið. Vissulega eru enn lausir endar, annars vegar verð raforkunnar og hins vegar verða tilboð í stærstu verkþættina, stíflu- og gangagerð, ekki opnuð fyrr en í nóvember. Þá getum við borið saman orkuverðið og framkvæmdakostnað samkvæmt tilboðunum. Á þeim tíma, í lok ársins, munu þessar upplýsingar liggja fyrir og þá þurfa stjórnarmenn og eigendur Landsvirkjunar að taka ákvörðun um hvort þeir vilji halda áfram með verkefnið.“
Ástæða til bjartsýni
– Er tilefni til meiri bjartsýni nú en áður í sambærilegum viðræðum um stóriðju, t.d. við Reyðarál og vegna Atlantsálsverkefnisins á Keilisnesi?“Já, þetta verkefni er mjög langt komið núna. Hafa þarf í huga að vegna viðræðna við Reyðarál og Norsk Hydro liggur fyrir umhverfismat, búið er að forvelja verktakafyrirtæki sem koma til með að gera tilboð í stærstu verkþætti og unnið er að hönnun verkefnisins. Augljóslega þarf að skoða umhverfisþættina aftur vegna breytinga á álverinu. Að auki erum við nú að ræða aðeins við eitt fyrirtæki, sem er hið stærsta í heimi á sviði áliðnaðar og hefur á sinni stefnuskrá að auka framleiðsluna. Í Atlantsálverkefninu vorum við að ræða við mörg fyrirtæki sem tóku sig saman og það var allt miklu þyngra í vöfum. Ákvarðanataka tók langan tíma. Í viðræðunum við Reyðarál var verið að tala við hlutafélag, sem Norsk Hydro ætlaði sér ekki að eiga meirihluta í. Öll ákvarðanataka hjá Alcoa er mun sneggri, sem sést best á því að málið hefur þegar fengið jákvæðar undirtektir í aðalstjórn fyrirtækisins. Aðalstjórn Norsk Hydro tók aldrei afstöðu til verkefnisins á sínum tíma heldur eingöngu framkvæmdastjórnin. Það er því ástæða til bjartsýni þótt málið sé ekki endanlega komið í höfn.“
– Óttastu ekkert áhrif þróunar á fjármálamarkaði vestan hafs að undanförnu á ákvarðanir Alcoa?
„Ekkert bendir til þess að Alcoa, frekar en önnur stór álfyrirtæki, blandist inn í umræðuna um þá sviksamlegu háttsemi sem nú er til skoðunar í Bandaríkjunum. Enginn getur sagt til um það á þessari stundu hvort veruleg efnahagskreppa muni eiga sér stað. Þau fyrirtæki sem athyglin beinist að eru einmitt spútnikfyrirtæki úr svokölluðum þekkingariðnaði. Þau hafa risið hratt með miklum væntingum og fallið á sama hraða. Stöðugleiki hjá fyrirtækjum í gömlum og grónum iðnaði líkt og álframleiðslu og raforkuiðnaði er allt annar. Þar er verið að framleiða og selja efnisleg verðmæti sem vitað er að við notum um ókomin ár.“
Eftirsjá hjá Norsk Hydro
– Fram kemur í viljayfirlýsingunni við Alcoa að stjórnvöld og Landsvirkjun hafa slitið öllum viðræðum við Norsk Hydro. Hefur þú fundið eftirsjá í huga Norðmanna?“Þeir starfsmenn Norsk Hydro sem sömdu við okkur hafa lýst því yfir að mikil eftirsjá sé eftir samstarfinu um þessi verkefni á Austurlandi. WWF í Noregi gaf það reyndar út á sínum tíma að samtökin hefðu komið í veg fyrir það að Norsk Hydro héldi áfram með verkefnið. Þetta er að sjálfsögðu alrangt. Það hefur meðal annars komið fram í ummælum talsmanna Norsk Hydro í viðtölum við Morgunblaðið að þeir vildu halda áfram. Af hverju halda samtökin þessu fram? Það er til að koma því inn hjá Alcoa að annað fyrirtæki hafi hætt við af þessum sökum. Þetta er bara áróðursbragð þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Þetta sýnir hve menn leita langt til að ófrægja verkefnið og koma í veg fyrir að við getum samið við Alcoa.“
– Hver verða áhrif álvers Alcoa á útflutningstekjur þjóðarinnar?
„Talið er að útflutningstekjur af áli gætu þrefaldast í krónum talið frá árinu 2000 til 2010, miðað við sama verðlag. Árið 2000 var flutt út ál fyrir 26 milljarða króna en nú er talið að verðmætið geti orðið um það bil 75 milljarðar árið 2010, á sama verðlagi, ef álver Alcoa er tekið með í reikninginn ásamt fyrirhugaðri stækkun Norðuráls. Þetta gæti þýtt að hlutfall áls í útflutningi okkar muni tvöfaldast á sama tímabili.“
Virkjað á sama tíma á suðvesturhorni landsins
– Að endingu, Friðrik. Hvað tekur við hjá Landsvirkjun ef af Kárahnjúkavirkjun verður?“Við munum ekki þurfa að bíða eftir því að þessi virkjun klárist. Ef allt fer fram sem horfir er reiknað með að hún verði fullbyggð árið 2007. Við gerum okkur vonir um að settar verði niður virkjanir á suðvesturhorni landsins á sama tíma til að útvega rafmagn vegna stækkunar Norðuráls. Samningaviðræður hafa staðið yfir milli Norðuráls annars vegar og Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja hins vegar. Um er að ræða Búðarhálsvirkjun sem er tilbúin til framkvæmda þar sem öll leyfi eru fyrir hendi, og Norðlingaölduveitu sem kemur úr mati á umhverfisáhrifum í næsta mánuði. Til viðbótar eru Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja að undirbúa jarðgufuvirkjanir sem gætu komið að gagni í þessu sambandi.“