Verður keðjuábyrgð sett í lög?
Miðstjórn Samiðnar segir það mikil vonbrigði hversu hægt gangi að innleiða keðjuábyrgð aðalverktaka og verkkaupa í tengslum við verklegar framkvæmdir hér á landi. Hvorki löggjafinn né samtök atvinnurekenda hafi sýnt vilja til að verða við þessari kröfu þrátt fyrir að mörg dæmi séu um að brotið sé á starfsmönnum erlendra undirverktaka sem starfi hér á landi. Þetta kemur fram í samþykkt miðstjórnarinnar.
Í samþykktinni er skorað á nýtt Alþingi að gera það að sínum fyrstu verkum að tryggja skýra löggjöf um keðjuábyrgð. Þá er framtaki Landsvirkjunar, Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborg um að setja inn ákvæði um keðjuábyrgð í útboðsskilmálum sínum fagnað. Eru önnur sveitarfélög og ríki hvött til að gera það sama.
Samiðn skorar einnig á væntanlega ríkisstjórn að ná sátt við Alþingi um breytingar á lögum um opinbera lífeyrissjóði fyrir næstu áramót. Það sé forsenda fyrir samræmingu lífeyrisréttinda eins og samkomulag sé um á almenna og opinbera vinnumarkaðinum. Gangi þetta ekki eftir séu þær forsendur brostnar.