Vatnsútflutningur – Vestfirskt vatn fyrir þyrstan heim

Heimild:  

 

September 2004

Árni Johnsen sem í sumar starfaði tímabundið að atvinnu- og ferðamálum í Vesturbyggð og á Tálknafirði telur að huga beri að vatnsútflutningi í stórum stíl frá Suðurfjörðum Vestfjarða. Þetta kemur fram í skýrslu sem hann sendi sveitarstjórnum beggja sveitarfélaganna.Í þeim hluta skýrslunnar sem fjallað er um vatnsmálin og heitir „Vestfirskt vatn fyrir þyrstan heim“ segir m.a.: „Þegar hugað er að þeim auðlindum sem Vestfirðir búa yfir er auðvitað margt sem kemur í hugann. Ein er þó sú auðlind sem ásamt landslagi og ósnortinni náttúru hefur þann eiginleika að geta aðeins aukist að verðmæti. Þetta er auðlindin ferskvatn.“

Árni segir það vísindalega sannað að Vestfirðir séu hreinasta svæði landsins hvað varðar hugsanlega mengun í vatni. Hann rifjar upp boranir eftir vatni sem áttu sér stað í Patreksfirði á sínum tíma. Hann segir að í Patreksfirði sé t.d. mjög gjöful og vatnsmikil borhola sem afkasti um 2.000 tonnum á sólarhring og í Mikladal undir Dagmálagili og í Tálknafirði séu um 100 holur, sumar mjög vatnsmiklar. Hann telur að hagsmunir sveitarfélaganna fari saman í nýtingu vatnsins í stórum stíl og segir að reglur um ferskvatnssvæði um allan heim taki mið af því að vatnið sé laust við mengun, sérstaklega yfirborðsmengun. Þessa kröfu telur hann leiða til þess að verðmætustu vatnssvæðin séu svæði þar sem hættan á yfirborðsmengun er lítil. Þá segir í skýrslunni: „Vestfirðir njóta bæði reglulegrar úrkomu og þessi úrkoma fæðir vatnsforðabúr í iðrum jarðar. Strjálbýli og tiltölulega lítil iðnvæðing leiðir til þess að áhætta vegna umhverfisslysa og áhrifa þeirra á yfirborðsvatn er tiltölulega lítil.“
Í skýrslu Árna kemur fram að um aldamótin var talið að vatnsútflutningur í heiminum næmi um 22 milljörðum dollara að andvirði og að hann aukist um að minnsta kosti tíunda hluta árlega og að Finnar hafi stokkið á þennan nýja markað og stofnað fyrirtækið Nord Water sem gert hafi samninga um sölu vatns til Arabíulanda.
Árni segir að hefja þurfi ítarlega úttekt á gæðum vatns á Vestfjörðum með útflutning í mjög stórum förmum í huga. Kanna þurfi efnasamsetningu vatns nánar og fullkanna tengsl yfirborðsvatns og djúpvatns því miða þurfi við að djúpvatn verði notað. Þá telur Árni að kanna þurfi tengsl hafnaaðstöðu og vatnslinda þannig að vegalengd milli hafnar og lindar sé sem styst. Þá telur hann að skoða þurfi þróun vatnskaupa í löndum þar sem búist er við vatnsskorti og vatnskreppu á næstu áratugum. Skoða þurfi t.d. nýlega samninga Finna um sölu á vatni í stórum stíl til Arabíulanda því ekki sé neinn vafi á því að í Finnlandi sé þáttur yfirborðsmengunar líklega mun hættulegri en hér á landi.
Skýrsla Árna er nú til skoðunar hjá bæjarstjórn Vesturbyggðar og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps en engin ákvörðun hefur verið tekin um framhald málsins.

Vatn er víða að finna í miklum mæli á Vestfjörðum eins og myndin sýnir.

Fleira áhugavert: