Hitinn á kranavatni á að lækka

Heimild:  

 

September 2008

Loksins virðast menn hafa vaknað upp við vondan draum þegar ungt barn brenndist illa af heitu vatni í handlaug. Undanfarin ár hafa orðið slæm slys, meira að segja banaslys, af heitu vatni. Þetta hefur oftar en einu sinni verið rætt hér í pistlunum, Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands hélt um þetta efni ráðastefnu fyrir nokkrum árum, en almennt hafa menn ekki rumskað. Ekki fyrr en nú og betra seint en aldrei.

Það er engin þörf á því að kranavatn sé heitara en 55-65°C, um það geta allir verið sammála. En það bregst ekki hérlendis að þegar almenn athygli á vandamáli er vakin fer umræðan út um víðan völl. Það er í þessu máli eins og öðrum mikilvægt að halda sér við efnið, ekki hengja bakara fyrir smið og því síður að fara út í glórulausa og allt að því óheiðarlega sölumennsku.

Þetta hefur gerst í fjölmiðlum nýlega og rekjum það aðeins nánar.

Jens Kjartansson yfirlæknir á bruna- og lýtalæknisdeild LSH segir að nú sé mælirinn fullur, það verði að grípa til aðgerða, lækka hita á kranavatni. Þarna talar maður sem veit hvað hann er að segja, hann fær fórnarlömbin til sín, í hans verkahring er að bæta skaðann svo sem unnt er. En hann hengir bakara fyrir smið þegar hann krefst þess að Orkuveita Reykjavíkur lækki hitann á vatninu í dreifikerfinu niður í 45°C. Það er einnig alrangt hjá lækninum að fjarvarmaveitur erlendis dreifi svo „köldu“ vatni, þar getur vatnið í dreifikerfum verið á annað hundrað °C og með margföldum þeim þrýstingi sem er í íslenskum hitaveitum, þar er hita kranavatnsins stýrt innanhúss.

Í Lagnafréttum 11. sept. var skýrt út hvers vegna það er útilokað að orku- og hitaveitur eigi eða geti lækkað hitann í dreifikerfum sínum. Það kæmi aðallega fjárhagslega niður á þeim sem kaupa heita vatnið. Það er ekki rúm til að endurtaka það sem þar var sagt. Það er okkur neytendum í hag að kaupa sem heitast vatn til upphitunar enda er það allt annar handleggur en heitt kranavatn.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, er sannur opinber embættismaður og kallar ákaft eftir reglugerðum og opinberum fyrirmælum og eftirliti. Nú er það svo með okkur Íslandinga að við erum ákaflega reglugerðaglaðir, en á hinn bóginn gefum við um leið skít í það að eftir þeim lögum og reglugerðum sé farið. Sem dæmi má nefna að það eru til ströng umferðarlög, en er ekki stöðugt þrengt að lögreglunni, eru ekki skornar niður fjárveitingar til hennar sem er eini aðilinn sem getur þröngvað landanum til að haga sér almennilega undir stýri fyrst hver og einn gerir það ekki?

Gísli talar um að nú sé að komið frumvarp að lögum um „alla þætti mannvirkja“. En hvar eru Skipulags- og byggingalög og hvar er Byggingareglugerðin sem byggist á þeim? Hún er að vísu frá 1998 og þarf svo sannarlega endurskoðunar við.

Við erum sammála um nauðsyn þess að lækka hita á kranavatni á hitaveitusvæðum. Er ekki árangursríkast að koma sér fyrst saman um skynsamlegustu leiðirnar til þess áður en við rjúkum til og setjum lög og reglur sem síðan er engin trygging fyrir að farið sé eftir?

Tvennt skulum við hafa að leiðarljósi þegar við finnum bestu lausnirnar til að lækka hita á kranavatni. Í fyrsta lagi skulum við finna góðar tæknilegar lausnir, í öðru lagi að þær lausnir séu ekki um of íþyngjandi húseigendum fjárhagslega.

Hér og nú er það staðhæft að það er hægt að finna lausnir sem sameina þetta hvorutveggja, góðar tæknilegar lausnir á viðráðanlegu verði. Það vill of oft brenna við að það síðarnefnda, budda neytandans, gleymist þegar tæknimenn ráðleggja eða fyrirskipa tæknilegar lausnir.

í Lagnafréttum var bent á þá lausn að setja hitastýrðan blandara við mælagrind í tengiklefa sem tengist bæði við heitt og kalt vatn. Slíkt tæki kostar innan við 5.000 kr. en með viðbótarbúnaði, hugsanlega þrýstiminnkara og mælum, gæti stofnkostnaður tækja verið 10-12.000 kr.

En sumstaðar er þetta ekki framkvæmanlegt vegna þess að það gæti skaðað leiðslur heita vatnsins og hvað þá?

Flestir eru með hitastýrð blöndunartæki við sturtur og baðker, tæki sem veita hið besta öryggi gegn brunaskaða. Þau eru með öryggistakka þannig að vatnið fer ekki yfir 38°C en með því að ýta á þann takka getur tækið hækkað hitastigið, þó aldrei upp í meira en 65°C.

En hvað þá um handlaugar og vaska, er ekki vatnið fullheitt þar? Jú, en við því er ráð. Á markaði eru hitastýrð svissnesk blöndunartæki sem nefnast taconova. Þeim er hægt að koma fyrir undir handlaug eða í skáp undir vaski. Þau tengjast bæði við heitt og kalt vatn og blanda í kranann eins og stillt er, eins og hver og einn vill hafa hámarkið.

Ef slíkt tæki hefði verið undir handlauginni þar sem unga stúlkan brenndist, og hefur orðið að þeirri vakningu sem er um vandamálið, hefði verið komið í veg fyrir það slys. Þessi tæki með öðrum tengibúnaði kosta líklega um 15.000 kr. og á þeim er þannig öryggi að ef kalda vatnið bregst lokast þau alfarið.

Fleira áhugavert: