Sjóböð á Húsavík

Heimild:  verkís

 

Nóvember 2016

husavikSíðastliðinn september var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum sjóböðum við Húsavík en Verkís sér um alla verkfræðivinnu verkefnis.

Þjónustubyggingin er um 600 m2 að stærð og útisvæðið  (baðsvæðið/laugasvæðið) um 500 m2. Aðstöðubyggingin er að stærstum hluta niðurgrafin með það að markmiði að fella hana inní landslagið. Framtíðarmarkmið er að byggja hótel í nágrenni sjóbaðanna og um leið gera sameiginleg  bílastæði fyrir þessi tvö mannvirki.

Lagt er upp með að nýta vatn í baðlaugarnar úr þremur borholum í nágrenninu, en hluti þeirra  er með saltan sjó. Borholuvatninu verður blandað á staðnum og verður blönduðu hitastýrðu vatni leitt í laugarnar á tveimur til þremur stöðum í hvert ker eftir atvikum. Viðmiðunar hitastig laugavatnsins verður um 38°-39°C. Ekki er gert ráð fyrir að baðvatnið verði hreinsað með sérstökum aðgerðum heldur verði innstreymi í laugarnar það mikið að vatnið endurnýist sem leiðir til þess að heilbrigði þess sé innan tilskilinna heilbrigðismarka.  Heildarmagn innrennslis er um 35 l/ sek þar sem  vatnið rennur milli lauga, yfir barma þeirra og þaðan í náttúrulegum farvegi út í sjó.

Gert er ráð fyrir að hönnun verði lokið í mars/apríl á næsta ári og að framkvæmdin taki um eitt ár þannig að hægt verði að taka sjóböðin í notkun vorið 2018.  Vonir standa til að 100.000 gestir muni sækja sjóböðin heim á hverju ári þegar þau verða komin í fullan rekstur.

husavik-a

Fleira áhugavert: