Fosshótel Mývatn – Fullkomin skólphreinsistöð notuð
Fullkomnasta skólphreinsistöð á Íslandi verður tekin í notkun fyrir Fosshótel Mývatn næsta sumar. Gengið var frá samningi um kaupin á hreinsistöðinni, sem framleidd er í Þýskalandi, fyrir nokkru og verður kostnaður vegna hennar á bilinu 30-40 milljónir króna. Notaðar eru lífrænar leiðir til að hreinsa vatnið sem skila því nær skínandi hreinu út í frárennslið.
Í fréttatilkynningu segir að um sé að ræða svokallaða þriggja þrepa hreinsistöð, með viðbótarbúnaði til að fella út fosfór og nítrit, en hún er sú fyrsta hér á landi sem er að fullu í samræmi þær kröfur sem Umhverfisstofnun gerir um fráveitu á verndarsvæði Mývatns og Laxár, sem og Þingvalla. Fosshótel Mývatn verður fyrsta hótelið á Íslandi sem uppfylla mun fullkomlega þessar kröfur um þriggja þrepa hreinsun en öll hótel sem reist eru á verndarsvæðunum þurfa að uppfylla kröfurnar.
Hótelrekendur verða að sýna ábyrgð
Íslandshótel, sem eiga Fosshótel Mývatn, hafa unnið að undirbúningi verksins í samráði við Umhverfisstofnun, Mannvit og söluaðila hreinsistöðvarinnar hér á landi, Varma og Vélaverk. Stefnt er að opnun hótelsins næsta sumar en til að byrja með verður það eingöngu opið frá apríl fram í nóvember. Ef rekstrarlegar forsendur gefast stendur þó til að reka hótelið á ársgrundvelli.
„Hótelrekendur verða að sýna ábyrgð gagnvart bæði umhverfi og samfélagi þrátt fyrir að þörfin fyrir uppbyggingu sé mikil vegna fjölgunar ferðamanna og ríkan vilja til að dreifa þeim meira um landið með fjölgun gistirýma á fleiri stöðum landsbyggðinni. Við leggjum mikla áherslu á að lágmarka þau áhrif sem hótelin okkar hafa á umhverfið og er Grand hótel Reykjavík, sem er rekið af Íslandshótelum, eitt fárra hótela hér á landi sem hefur hlotið Svansvottun. Hún felst meðal annars í því að við flokkum allan úrgang, notum vatnssparandi búnað og höfum dregið verulega úr notkun á einnota vörum, svo fátt eitt sé nefnt,“ er haft eftir Davíð T. Ólafssyni, framkvæmdastjóra Íslandshótela. „Þessi lífræna hreinsistöð sem við hyggjumst reisa við Fosshótel Mývatn er lykilatriði til að draga úr umhverfisáhrifum vegna fjölgunar gistirýma á svæðinu enda gríðarlega mikilvægt að vernda viðkvæmt lífríki við Mývatn.“