Er það karlmennska að pissa standandi?

Heimild:  mbl

 

Október 2006

pissaÞað var bráðskemmtileg og upplýsandi grein í Fréttablaðinu. Þar var tekið fyrir efni sem rætt hefur verið í þessum pistlum; hvort karlmann eigi að standa þegar þeir pissa í salernisskál. Enginn ætlast til annars en að karlmenn standi upp á endann þegar þvagskálar eru í boði eins og á opinberum stöðum, en slíkur munaður er nær aldrei til á venjulegum heimilum. Það er hægt að finna eldri Lagnafréttir þar sem eindregið var hvatt til að þessu ágæta tæki, þvagskál, væri bætt við í baðherbergið en engum sögum fer af því að það hafi haft nein áhrif. Hins vegar er þessi hugmynd ekki ný af nálinni, hún er hálfrar aldar gömul. Það var hinn merki iðnfrömuður Sveinbjörn Jónsson, oftast kenndur við Ofnasmiðjuna, sem lýsti henni fjálglega þegar tekin voru mál af þvagrennum til nota í hinum þá nýja Laugardalsvelli, þvagrennum sem Sveinbjörn lét smíða úr ryðfríu stáli og áttu eftir að taka á móti mörgum sopanum, líklega allt fram á þennan dag.

En aftur að efninu; eiga karlmenn að pissa standandi?

Þetta er búð að vera deilumál á mörgum heimilum í gegnum tíðina og hefur jafnvel verið hinum ágætustu hjónaböndum hættulegt. Þrátt fyrir alla baráttuna fyrir kvenfrelsi í heila öld er það næsta víst að það eru konur sem í flestum tilfellum ræsta heimilin, þar á meðal baðherbergin og önnur salerni sem á heimilinu finnast. Konur hafa lengi haldið því fram að þetta væri hinn argasti sóðaskapur, karlmenn hittu salernisskálina illa og talsvert færi utanhjá.

Er það svo?

pissa-aÞað sannast með örstuttri sögu. Þau voru bara tvö í heimili hjónin og eiginmaðurinn samþykkti prófið, hann tók upp þann sið að pissa sitjandi eins og kona. Það var eins og við manninn mælt, öll ólykt hvarf og þrif eiginkonunnar á baðinu urðu stórum léttari. Þannig gekk það í hálft ár en þá skyndilega fór allt í sama farið, ólyktin kom aftur. Skýringin fannst næsta auðveldlega. Eiginmaðurinn varð fyrir slysi fékk slæma byltu og átti efitt með að setjast, sleppti því þegar hann gerði lítið. Aftur var breytti hann hátterni sínu og viti menn, engin ólykt eftir það.

Það er því engum blöðum um það að fletta að það fylgir því sóðaskapur ef karlmenn pissa standandi í salernisskálar.

Karlar, sem sitja við athöfnina, eru sumir þess fullvissir að þeir tæmi blöðruna betur sitjandi sem hlýtur að teljast mjög jákvætt.

En þetta er þó ekki það alvarlegasta við þessa misskildu karlmennsku að hugsa eins og Jón Sigurðsson í flestum klósettferðum; hér stend ég og get ekki annað.

Það eru all mörg ár síðan að gerð var á því nákvæm rannsókn í Þýskalandi hvað gerist þegar karlmaður pissar standandi í salernisskál. Niðurstöður þessarar rannsóknar voru birtar í þýsku tækniriti í máli og myndum, en því miður er þetta tímaritshefti glatað fyrir löngu. Ekki var það svo að ljósmyndari hafi fylgt hverjum manni á klósettið heldur voru birtar teikningar með greininni til að skýra niðurstöður rannsóknarinnar. Allt sannaðist þar um óhreinindi á salernisskál og gólf en það sannaðist fleira.

Þegar þvagbunan fellur þessa 50 – 60 cm myndast lofthvirflar umhverfis hana. Hluti af þvaginu, vissulega mikill minni hluti, berst út í andrúmsloftið. En ekki nóg með það, hluti af þessu þvagmettaða lofti sest á föt þess sem þarna stendur. Hver maður sem fer á salerni og pissar standandi í salernisskál kemur til baka með brot af eigin þvagi á buxunum, það er staðreynd.

Það kann að vera að körlum sé sama um hvaða afleiðingar klósettferð þeirra hefur á tæki og umhverfi þar sem þeir höfðu þvaglát. En kannski er þeim ekki sama um sín eigin fínu föt, það ætti að verða til þess að þeir breyti háttum sínum.

Það er sem sagt kominn tími til að karlar hysji nið´rum sig brækurnar í orðsins fyllstu merkingu.

Fleira áhugavert: