Vindorkulundar IKEA – Sjálfu sér nægt um orku
Með opnun þriðja vindorkulundar IKEA í Svíþjóð í gær er fyrirtækið orðið óháð öðrum um orku fyrir starfsemi sína á Norðurlöndunum, þar sem raforkuframleiðsla fyrirtækisins á svæðinu er orðin meiri en heildarnotkunin. IKEA hefur sett sér það markmið að vera sjálfu sér nægt um orku á heimsvísu árið 2020 og segir talsmaður fyrirtækisins að stórum áfanga hafi verið náð í gær. IKEA hefur til þessa fjárfest fyrir um 1,5 milljarða sænskra króna (SEK) (um 24 milljarða ísl. kr.) í endurnýjanlegri orku í Svíþjóð og í árslok verður heildarfjárfesting þeirra á þessu sviði á heimsvísu væntanlega komin í 14 milljarða SEK (um 222 milljarða ísl. kr.). Fyrirtækið á nú 46 vindmyllur í Svíþjóð og að sögn fulltrúa Orkustofnunar Svíþjóðar er árangur fyrirtækisins dæmi um þann árangur sem atvinnulífið getur náð með frumkvæði og ábyrgð í eigin rekstri.