Þeistareykir – Sjö holur gefa alls 58 megavöttt, átta holur boraðar til viðbótar

Heimild:  visir

 

 

borholur

Sjö holur, sem gefa alls 58 megavöttt, hafa þegar verið boraðar á Þeistareykjum. Áformað er að bora allt að átta holur til viðbótar. STÖÐ 2/FRIÐRIK ÞÓR HALLDÓRSSON.

Fimmtán mánuðum áður en gangsetja á Þeistareykjavirkjun er búið að tryggja tvo þriðju hluta þeirrar orku sem virkjunin þarf. Landsvirkjunarmenn telja þó allar líkur á því að nægileg orka finnist í tæka tíð. Þetta kom í frétt Stöðvar 2 frá Þeistareykjum en þar var rætt við Einar Erlingsson, staðarverkfræðing Landsvirkjunar.

Eins og nafnið bendir til eru Þeistareykir jarðhitasvæði og þar sem bóndabær var á nítjándu öld er nú leitarmannaskáli sem meðal annars nýtist ferðaþjónustu í hestaferðum. Tveim kílómetrum fjær er stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar að rísa.

Ólíkt vatnsaflsvirkjun þá ríkir meiri óvissa um orkuöflun fyrir jarðgufuvirkjun. Á Þeistareykjum telja Landsvirkjunarmenn sig þegar hafa 58 megavött en þeir þurfa 90 megavött. Eftir rannsóknir undanfarna tvo áratugi telja þeir sig þó þekkja nokkuð vel jarðhitageymi Þeistareykja.

„Það er búið að vera að rannsaka svæðið í tæp tuttugu ár og fyrsta hola boruð hér árið 2002. Við erum með sjö holur sem gefa okkur 58 megavött í gufu,” segir Einar.
Jarðborinn Óðinn á Þeistareykjum.

Jarðborinn Óðinn á Þeistareykjum.STÖÐ 2/FRIÐRIK ÞÓR HALLDÓRSSON.

Sú orka dugar í fyrri áfanga virkjunarinnar, upp á 45 megavött. Jarðboranir eru hins vegar með 25 starfsmenn og borana Óðinn og Sleipni til að finna það sem upp á vantar.

„Verkefni ársins er að bora fjórar holur. Framkvæmdir hófust í byrjun maí og við erum að hefja forborun á holu númer tvö,” segir staðarverkfræðingurinn.

 

Og ef þessar fjórar holur duga ekki, þá hafa þeir nokkrar í viðbót upp á að hlaupa.

„Og erum með verkefni að bora allt að átta holur fyrir annan áfanga virkjunarinnar til að koma okkur upp í þau 90 megavött sem við þurfum. Við teljum allar líkur á því að þær skili okkur því sem við væntum,” segir Einar Erlingsson.

Fleira áhugavert: