Samstarfssamningur um samvinnu og samráð á sviði jarðvarmarannsókna
27.9.2016
Orkustofnun, íslenska fyrirtækið Arctic Green Energy og kínverska fyrirtækið Sinopec, undirrituðu samstarfssamning um samvinnu og samráð á sviði jarðvarmarannsókna, fimmtudaginn 24. september sl. Samkvæmt samkomulaginu munu samningsaðilar vinna saman á sviði rannsókna og þróunar, þjálfunar jarðhitasérfræðinga og að auknum samskiptum og samvinnu á milli íslenskra og kínverskra aðila á sviði jarðvarma.
Aðkoma Orkustofnunar að samkomulaginu mun fela í sér tækifæri fyrir íslenska fagþekkingu í Kína enda mikill uppgangur þar í landi. Stofnunin hefur unnið að uppbyggingu jarðhitaþekkingar í fjölmörgum löndum, sérstaklega þó með starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna til fjölda ára, sem staðsett er hjá Orkustofnun. Frá Kína hafa t.d. 84 sérfræðingar farið í gegnum sex mánaða nám skólans auk ótal námskeiða sem haldin hafa verið þar í landi síðastliðin ár. Orkustofnun fagnar þessu samstarfi og þeim árangri sem Kína hefur náð og telur möguleika landsins til frekari hitaveituvæðingar mikla sem er mikilvægt atriði í baráttu við hlýnun jarðar þar sem upphitun með jarðhita er umhverfisvæn og kemur í stað upphitunar með kolum eða olíu sem losa mikið magn gróðurhúsalofttegunda. Nýting jarðhita til húshitunar getur dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda enda húshitun og kæling stór þáttur í orkubúskap þjóða.
Með nýtingu jarðhita hefur Ísland frá upphafi dregið samtals úr losun 100 milljón tonna af koltvísýringi (CO2) með hitaveituvæðingu landsins og sparar í dag mannkyni árlega um 3 milljónir tonna með nýtingu jarðhita í stað olíu sem allt of margar þjóðir gera enn. Ávinningur af samstarfi við Kína á þessu sviði getur því verið margvíslegur. Arctic Green Energy og Sinopec hafa undanfarin 10 ár rekið sameiginlega hitaveitu í Kína undir nafninu Sinopec Green Energy Geothermal (SGE). SGE hefur á þessum tíma vaxið í að verða stærsta jarðvarmahitaveita heims með 163 varmaskiptastöðvar og 247 borholur í rekstri. Umsvif fyrirtækisins hafa yfir sama tímabil komið í veg fyrir útblástur á þriðju milljón tonna koltvísýrings. Arctic Green Energy er íslenskt jarðvarmafyrirtæki sem hefur lagt megináherslu á Asíumarkað. Fyrirtækið hefur auk Kína, komið að verkefnum á Filippseyjum og Víetnam. Sinopec er þriðja stærsta fyrirtæki heims skv. lista fjármálatímaritsins Forbes. Fyrirtækið telur yfir 800 þúsund starfsmenn og starfar á sviði olíu- og gas á landi, en hefur í auknum mæli verið að færa sig inn á svið endurnýjanlegrar orkuvinnslu undanfarin ár.