Gagnrýnir skýrslu verkefnisstjórnar vegna 3. áfanga rammaáætlunar
Ágúst 2016
Forstjóri Landsvirkjunar segir að ekki sé tekið tillit til efnahagslegra- og samfélagslegra þátta í tillögum verkefnisstjórnar 3, áfanga rammaáætlunar. Skýrsla stjórnarinnar sé innlegg í málið, en verulega vanti upp á.
„Það hefur ekki verið gefinn nægur tími og kannski ekki nægir peningar heldur og kannski hafa þeir færst of mikið í fang. Ég held að það þurfi að taka færri kosti fyrir í einu og vanda vinnuna. Það er enginn þrýstingur að taka alla hugsanlega kosti í svona flóknu mati, þá er hættan að niðurstaðan verði eins og niðurstaðan er, að fólk er að sleppa mjög veigamiklum þáttum eins og samfélags- og efnahagsþáttum og líka að sleppa því að ræða við nærsamfélögin hver áhrifin yrðu,“ segir forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður segir skýrsluna innlegg í málið en verulega vanti upp á. Hann veltir fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegra að vera með stærri biðflokk í stað þess að flokka svo marga kosti í verndarflokk, þegar efnahagsáhrifin liggi ekki fyrir og sama megi segja um nýtingarflokkinn. Hann fagnar að í Þjórsá fari Holta- og Urriðafossvirkjanir í nýtingarflokk, en segir ákvörðun um að ekki megi rannsaka frekar virkjanakosti í Skagafirði og Skjálfanda geta haft veruleg áhrif á orkuöryggi, orkuskipti og þróun samfélaganna þar.