Vinsælustu sundlaugar höfuðborgasvæðisins – Yfir 1/2 milljón í Laugardagslaugina..

Heimild:  visir

 

sundlaugarLaugardalslaugin er vinsælasta sundlaugin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýjum aðsóknartölum frá sundlaugunum á höfuðborgarsvæðinu yfir fjölda sundgesta fyrstu átta mánuði þessa árs. Alls sóttu 544.089 Laugardalslaugina á tímabilinu, en um er að ræða 42% allra sundgesta sundlauga Reykjavíkurborgar. Sé tekið mið af heildaraðsókn á höfuðborgarsvæðinu, sem er yfir 2 milljónir, fóru um 23% þeirra í Laugardalslaugina.

Næstvinsælasta sundlaugin á tímabilinu er Sundlaug Kópavogs, en þangað fór 283.051 í sund. Í þriðja sætinu er Lágafellslaug í Mosfellsbæ með 271.699 sundgesti og í því fjórða Versalalaug í Kópavogi með 234.034 gesti. Reykjavíkurlaugarnar Vesturbæjarlaug og Árbæjarlaug koma loks í fimmta og sjötta sæti. Hafa 207.266 komið í Vesturbæinn, en 180.286 í Árbæinn.

 

logi-sigurfinnsson

Logi Sigurfinnsson, VÍSIR/EYÞÓR

Þegar tölur yfir sölu stakra sundmiða eru skoðaðar er Laugardalslaugin langefst, en alls keyptu 93.217 slíka miða í laugina á tímabilinu. Meginástæðan fyrir þessu er hversu margir erlendir ferðamenn sækja laugina.

Að sögn Loga Sigurfinnssonar, forstöðumanns Laugardalslaugar, hefur heimsóknum þar fjölgað á undanförnum árum í takt við almenna fjölgun ferðamanna til landsins. „Í gegnum tíðina hafa útlendu ferðamennirnir verið að koma hingað í lok dagsferða, það er seinnipartinn og kvöldin. Sífellt fleiri eru þó að koma hingað á daginn,“ segir hann.

Logi segir að heildaraðsókn í laugina hafi aukist nokkuð frá því í fyrra eða um tæp 43 þúsund. Sala á stökum miðum hefur aftur á móti dregist saman um tæp 10 þúsund, en verð þeirra var hækkað úr 650 krónum í 900 í nóvember í fyrra.

„Eins og umræðan hefur heyrst hér hjá okkur eftir að staka gjaldið hækkaði þá áttaði fólk sig í rauninni á því hvað afsláttarkjörin eru góð,“ segir Logi og bendir á sala á afsláttarkortum hafi aukist, en verð þeirra stóð í stað þegar verð á stökum miðum hækkaði.

Það skal tekið fram að aðsóknartölur í sundlaugar Hafnarfjarðar eru ekki inni í þessum útreikningi, en þær eru teknar saman í lok hvers árs.

Fleira áhugavert: