Vatnstankur á Gránumóum – Vatnsforðabúr Sauðkrækinga
Framkvæmdir við nýjan vatnstank á Gránumóum hófust um miðjan apríl og eru núna komnar á fullt skrið. Greftri fyrir tanknum er lokið og er verktaki að undirbúa steypu á botnplötu. Aðalverktaki verksins er K-Tak ehf.
Nýr tankur verður sömu stærðar og eldri tankur, eða um 18m í þvermál og rúmir 4m á hæð og rúmar því rúmlega 1.000m3 af vatni.
Undanfarin ár hefur vatnsnotkun á Sauðárkróki aukist töluvert, m.a. með tilkomu aukinnar matvælaframleiðslu. Sem dæmi má nefna að meðalrennsli yfir sólarhringinn hefur aukist um 42% á milli áranna 2011 og 2015 og virðist ekkert lát á aukinni vatnsnotkun.
Núverandi vatnstankur er megin vatnsforðabúr Sauðkrækinga og er hlutverk tanksins að taka við dægursveiflum í vatnsnotkun en tankurinn var byggður árið 1973. Síðustu ár hefur borið á því að vatnsstaða í tankinum er orðin mjög lág seinni part dags þegar vatnsnotkun hefur verið mikil yfir daginn. Sérstaklega á þetta við á haustin í sláturtíð og aukin vatnsnotkun í sláturhúsi bætist við aðra notkun. Með tilkomu nýs tanks verða Skagjafjarðarveitur betur í stakk búnar til að anna aukinni notkun á köldu vatni og auknum dægursveiflum samfara aukinni notkun á köldu vatni í matvælaframleiðslu.
Gert er ráð fyrir að nýr tankur verði fullbyggður og tilbúinn til notkunar fyrir haustið.